„Við erum með talsverðan fjölda mála í vinnslu hjá okkur og úrskurðir kærunefndarinnar eru fordæmisgefandi að því leyti sem aðstæður einstaklinganna…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Við erum með talsverðan fjölda mála í vinnslu hjá okkur og úrskurðir kærunefndarinnar eru fordæmisgefandi að því leyti sem aðstæður einstaklinganna eru sambærilegar, þannig að það er erfitt að segja til um það nákvæmlega á þessum tímapunkti,“ segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali við Morgunblaðið.

Hún var spurð hvað þeir úrskurðir kærunefndar útlendingamála, sem gerðir voru opinberir í gær, tækju til margra einstaklinga frá Venesúela sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi.

„Þarna voru kveðnir upp þrír úrskurðir sem eru fordæmisgefandi í öllum öðrum málum um þann mikilvæga þátt sem varðar mat á aðstæðum í Venesúela,“ segir Þórhildur. Hún segir að Útlendingastofnun sé með um 1.200 umsóknir óafgreiddar frá fólki frá Venesúela, en á þessu ári hafi um 500 umsóknum verið synjað en um 50 einstaklingar hafi fengið landvist af ýmsum ástæðum.

Þórhildur segir aðspurð að þeir 500 Venesúelabúar sem Útlendingastofnun hefur synjað um vernd á þessu ári hafi flestir kært synjunina til kærunefndar útlendingamála og hafi þeir rétt til að dvelja á landinu á meðan mál þeirra eru til meðferðar. Þegar endanlegur synjunarúrskurður hafi fallið, hafi þeir alla jafna 15 daga til að fara af landi brott.

Frá árinu 2015 hafa tæplega 3.100 manns frá Venesúela sóst eftir alþjóðlegri vernd hér á landi.

Hælisleitendur

Útlendingastofnun er með um 1.200 umsóknir óafgreiddar frá fólki frá Venesúela.

Um 500 umsóknum hefur verið synjað í ár.

Um 50 Venesúelabúar hafa fengið landvist hér á þessu ári, af ýmsum ástæðum.