Á Fitjum Hugmyndir eru uppi um að hafa lónið þrískipt. Lónið lengst til vinstri á myndinni yrði ætlað börnum og fjölskyldum, miðlónið gestum veitingahússins og lónið lengst til hægri fyrst og fremst ætlað hótelgestum.
Á Fitjum Hugmyndir eru uppi um að hafa lónið þrískipt. Lónið lengst til vinstri á myndinni yrði ætlað börnum og fjölskyldum, miðlónið gestum veitingahússins og lónið lengst til hægri fyrst og fremst ætlað hótelgestum. — Teikning/Úti Inni arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áformað er að hefja á næstu vikum niðurrif á gömlu steypustöðinni við Fitjar í Keflavík til að rýma fyrir nýju baðlóni og hóteli World Class. Björn Leifsson, stofnandi World Class, áætlar að uppbygging baðlóns og hótels við Fitjar muni kosta 10-12 milljarða króna

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Áformað er að hefja á næstu vikum niðurrif á gömlu steypustöðinni við Fitjar í Keflavík til að rýma fyrir nýju baðlóni og hóteli World Class.

Björn Leifsson, stofnandi World Class, áætlar að uppbygging baðlóns og hótels við Fitjar muni kosta 10-12 milljarða króna. Þar verður jafnframt 2.500 fermetra líkamsrækt sem verður álíka stór og World Class-stöðin í Kringlunni. Þá upplýsir Björn að lónið og hótelið verði rekið undir merkjum World Class enda sé það mjög sterkt vörumerki á Íslandi. Því munu eigendur World Class fara með reksturinn og hótelbyggingin verður ekki leigð rekstraraðilum eins og hugmyndir voru um á fyrri stigum.

Ný hæð og fleiri herbergi

Jafnframt staðfestir Björn að nú séu hugmyndir uppi um 120 herbergja hótel en áður var rætt um 100 herbergi. Hefur World Class því sótt um leyfi til að bæta fjórðu hæðinni við en hún yrði inndregin og með allt að 80 fermetra svítum, eins og sjá má á mynd hér til hliðar.

Björn segir áformað að bjóða upp á þrískipt lón. Lónið lengst til vinstri á myndinni yrði ætlað fjölskyldum og börnum en miðlónið ætlað gestum veitingastaðar á jarðhæð. Loks er lónið lengst til hægri ætlað hótelgestum og þeim sem greiða fyrir meiri þjónustu hjá World Class.

Ein ástæðan fyrir þrískiptingunni sé að geta dregið úr vatnsnotkun, ef þörf krefur, og lokað hluta eða hlutum lónsins tímabundið.

Áætlað sé að hönnun taki eitt ár og framkvæmdir tvö ár. Lónið verði því líklega opnað fyrir sumarið 2026.

Að sögn Björns eru hugmyndir um að gestir veitingalónsins muni geta snætt á hluta veitingastaðarins á baðfötum. Muni jafnframt geta neytt drykkja í lóninu en fordæmi séu fyrir því í Bláa lóninu, Sky Lagoon og í Skógarböðunum.

„Við munum jafnframt bjóða upp á morgunverð á veitingastaðnum fyrir gesti hótelsins en aðra tíma dagsins verður boðið upp á veitingaþjónustu í háum gæðaflokki,“ segir Björn.

Undirbúningur að verkefninu hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Baldur Ó. Svavarsson og Ari Már Lúðvíksson hjá Úti Inni arkitektum hanna ytra útlit hússins og svili Björns í Bandaríkjunum fer með innanhússhönnun.

Með hönnuði í Denver

Nánar tiltekið Guðmundur Jónsson en hann stýrir fjölmennri deild á stórri arkitektastofu í Denver. Nýtur hann aðstoðar Jóhönnu, systur Hafdísar, „Dísu“, eins stofnenda World Class.

Reksturinn á Fitjum verður sem áður segir þrískiptur: Hótel, líkamsrækt og baðlón. Líkamsræktin verður opin öllum korthöfum World Class. Björn upplýsir að þeir séu nú 48.500 talsins og verði að óbreyttu ríflega 50 þúsund síðar í haust, í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins. Þá munu gestir hótelsins hafa aðgang að líkamsrækt og hótelhluta lónsins. Loks munu almennir gestir lónsins hafa aðgang að líkamsræktinni.

Samlegðaráhrif

Björn segir töluverð samlegðaráhrif hljótast af þessu fyrirkomulagi. Meðal annars séu hugmyndir uppi um að móttakan fyrir hótelið, lónið og líkamsræktina verði á sama stað. Þá segir hann færast í vöxt að gestir hótela innriti sig sjálfir með appi í snjallsíma. Horft verði til þeirrar þróunar við hönnun hótelsins. Af öðrum samlegðaráhrifum megi nefna þrif, markaðssetningu og veitingarekstur en veitingahúsið verði öllum opið.

Markhóparnir séu nokkrir. Í fyrsta lagi almennir gestir líkamsræktarinnar en stöðin verði í miðju Reykjanesbæjar. Í öðru lagi Íslendingar sem fari í lónið og gisti á hótelinu kvöldið fyrir flug. Í þriðja lagi tengifarþegar í Leifsstöð sem margir komi að morgni og fljúgi af landi brott síðdegis. Þá farþega verði hægt að sækja í Leifsstöð en þaðan sé aðeins nokkurra mínútna akstur í lónið. Í fjórða lagi erlendir ferðamenn sem muni gista á hótelinu við upphaf eða endi ferðar sinnar um Ísland. Í fimmta lagi fjölskyldufólk sem komi í barna- og fjölskyldulónið.