Galdranorn Björk í skógarbotnssafndeild Grasagarðs Reykjavíkur en margar galdrajurtir eru skógarplöntur.
Galdranorn Björk í skógarbotnssafndeild Grasagarðs Reykjavíkur en margar galdrajurtir eru skógarplöntur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég óttaðist að mikið nornafár færi af stað í kjölfar göngunnar, því þar lærði fólk ýmsa galdra sem framkvæma má með plöntum,“ segir Björk Þorleifsdóttir sagnfræðingur sem fann galdranornina í sjálfri sér um daginn þegar hún bauð í fræðslugöngu …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég óttaðist að mikið nornafár færi af stað í kjölfar göngunnar, því þar lærði fólk ýmsa galdra sem framkvæma má með plöntum,“ segir Björk Þorleifsdóttir sagnfræðingur sem fann galdranornina í sjálfri sér um daginn þegar hún bauð í fræðslugöngu í Grasagarði Reykjavíkur, en þar sagði hún frá ýmsum plöntugöldrum.

„Eitt af því sem kom fram í þessari göngu er að krossfíflar spretta þar sem nornir hafa pissað, en staðreyndin er sú að krossfíflar hafa fundist í æ ríkari mæli hér á landi undanfarin ár. Af því má ljóst vera að nornum hefur fjölgað í okkar samfélagi, þær eru greinilega pissandi úti um allt og eru mitt á meðal okkar, því krossfíflar spretta í görðum fólks, við heimili þess.“

Björk segir að upplýsingar um galdramátt íslenskra plantna og aðferðir við að framkvæma slíka gjörninga sé helst að finna í þjóðsögum Jóns Árnasonar.

„Ég er sagnfræðingur og hef mikið verið að stúdera umhverfisfræði, en umhverfissagnfræði tengist inn á þetta því plöntur eru gríðarlega stór hluti af menningu þjóða, ekki síst staðbundnar plöntur. Ef við horfum til fornra þjóða og skoðum Grikki og Rómverja, þá sjáum við að hér áður fyrr voru ekki skýr skil á milli galdra og vísinda. Skrif Pliníusar eldri bera þessu til dæmis glögglega vitni, en hann var rómverskur fræðimaður og rithöfundur sem samdi ritið Naturalis Historia, sem var nokkurs konar alfræðirit um náttúruvísindi. Hann var talinn forfaðir alfræðiorðabóka síðari tíma en hann fórst þegar eldfjallið Vesúvíus gaus árið 79 eftir Krist. Náttúrufræði hans tíma geymir alls konar upplýsingar um galdra og annað slíkt.“ Björk segir að við þurfum líka að skoða skilgreininguna á galdraplöntu því að margar plöntur eru lækningajurtir.

„Mér finnst þær falla undir galdraplöntur því þær búa yfir mögnuðum náttúrulegum mætti. Ég vil skipta galdraplöntum upp í tvo flokka, annars vegar hreinar og tærar töfraplöntur, sem sagðar eru búa yfir einhverjum töframætti, og hins vegar lækningajurtir, hverra galdur er að geta læknað fólk,“ segir Björk og bætir við að lækningajurtasafndeild sé í Grasagarðinum.

Hrekkur ofan í svikara

Einn af þeim plöntugöldrum sem Björk sagði frá í göngunni og gæti nýst fólki vel enn í dag er sá sem gagnast þeim sem gruna maka sinn um framhjáhald.

„Til að koma upp um möguleg svik maka þarf að verða sér úti um mjög algenga og auðfundna jurt, baldursbrá. Þá skal setja baldursbrá á matborð og leggja dúk yfir, svo viðkomandi sjái ekki jurtina. Síðan skal elda góðan mat og bjóða makanum að fá sér. Ef makanum svelgist á meðan hann borðar, þá er öruggt að hann er að halda fram hjá. Þetta kann að reynast svolítið flókið því gæta verður þess að viðkomandi svelgist ekki á af öðrum ástæðum, til dæmis ef maturinn er of sterkur eða reynist bragðvont eiturbras, nú eða ef makinn er glorhungraður og borðar of hratt.“

Björk segir að til sé útlenskur plöntugaldur sem gagnist þeim sem vilja komast að því hvort barn þeirra sé umskiptingur eða ekki.

„Ég þori bara ekki að segja frá honum, slík saga af hjátrúarfullu fólki að drepa lítil börn með eiturplöntum er ekki birtingarhæf og gæti misskilist á prenti. Ég vil ekki vera ábyrg fyrir því að nokkur lifandi manneskja framkvæmi slíkan galdur,“ segir Björk og bætir við að margar eitraðar plöntur séu jafnframt lækningajurtir, allt snúist þetta um að kunna með þær að fara.

„Þegar maður er að vinna með og ætlar að neyta einhvers úr náttúrunni, þá verður maður alltaf að vita hvað maður er að gera. Þetta er afar mikilvægt og fólk ætti aldrei að neyta neins úti í villtri náttúru án þess að vera viss um að það sé í lagi. Fólk deyr um víða veröld á hverju einasta ári vegna þess að það borðar eitraðar plöntur. Fólk ruglar til dæmis saman venusvagni sem er mjög eitraður og piparrót. Margt ber að varast og fólk verður að þekkja og virða í umgengni við náttúruna.“

Til úr sæði hinna hengdu

Við undirbúning fræðslugöngunnar segist Björk hafa verið með tvær aðstoðarkonur og að þær þrjár hafi farið í bíltúr til að freista þess að búa til alrúnu.

„Alrúna er rót mandragoraplöntunnar sem er Miðjarðarhafsplanta, með þykka, oft greinda rót sem gerir það að verkum að hún fær stundum mannsmynd. Á miðöldum var talið að alrúna yxi undir gálga og yrði til af sæði hinna hengdu. Þessi jurt var afar vinsæl í hvers konar ástargaldra og er öflugur verndargripur, hún er sérlega góð gegn sjúkdómum og getur jafnvel nýst gegn dauða. Þetta er sjaldgæf jurt og ekki auðfáanlega á norðurslóðum, en á miðöldum falsaði fólk víða um Evrópu alrúnu til að selja því eftirspurn var mikil. Falsaðar alrúnurætur voru seldar á mörkuðum en á galdrabrennuöld voru konur sem versluðu með hana brenndar á báli. Margir notuðu til fölsunar jurtir sem auðveldara var að ná í, til dæmis sverðliljurætur, næpur og fleiri jurtir. Ég tók upp næpu til að athuga hvort ég gæti falsað hana sem alrúnu til að sýna fólki í göngunni. Þá kom í ljós að næpan er of kringlótt og líkist ekki alrúnu í laginu, sem minnir okkur á hvað plöntukynbætur hafa breytt plöntunum sem við borðum. Á miðöldum hafa næpurnar augljóslega ekki verið kúlulaga,“ segir Björk og bætir við að þær þrjár galdravinkonurnar hafi í staðinn tekið upp njóla því að njólarótin sé aðeins líkari alrúnu.

Ofskynjunarflug á kústi

Björk segir að sérstök plöntusmyrslablanda sé ætluð fyrir nornaheimsóknir í neðra.

„Þegar nornir áttu erindi við karlinn í neðra fóru þær á nornaflugi eða gandreið, altso fljúgandi á kústi. Þær útbjuggu sérstakt flugsmyrsl fyrir slíkar ferðir, til að smyrja á kústinn svo flogið gætu til fundar við skrattann. Í þessu smyrsli átti að blanda saman stórhættulegum ofskynjunarplöntum og smyrslið smitaðist á slímhimnusvæði þeirrar nornar sem kústinum reið, á kynfærasvæði eða handarkrika, þar sem það átti greiða leið inn í blóðrásina. Að fara á ofskynjunarflug er eflaust í líkingu við kústaflug. Til er ótrúlega mikið af skrýtnum og stórhættulegum plöntum, svo ég þori ekki að upplýsa hvaða plöntum átti að blanda saman í þessu flugsmyrsli til helvítis, ég tek ekki sénsinn á því.“

Björk segir að í mörgum heimildum sé sagt frá jurtum sem hafi ákveðin galdraáhrif við ákveðna meðhöndlun, en ekki fylgi alltaf með hvernig sú meðhöndlun skuli vera.

„Til dæmis er til planta, jólarós, sem getur gert fólk ósýnilegt ef það kann að fara með hana. Þá átti að dreifa henni á ákveðinn hátt, en ekki er sagt hvernig. Vissulega er mjög bagalegt þegar leiðbeiningar hafa tapast niður í þessum efnum. Mér finnst skemmtilegt að oft er tekið fram að ef fólk vill komast yfir og nota alvöru galdraplöntu þá sé nauðsynlegt að finna hana fyrir slysni, fólk má ekki fara og sækja hana heldur þarf jurtin að koma til viðkomandi með því að verða óvænt á vegi hans, annars er galdramátturinn alls ekki nægilega mikill eða jafnvel enginn.“

Jóhannesarjurt í nærfötunum

Að lokum nefnir Björk jóhannesarjurt en hún er þekkt lækningajurt, til dæmis notuð gegn þunglyndi.

„Núna er hægt að fara í heilsubúð og kaupa hana, ýmist mulda eða sem þurrkuð lauf. Galdramáttur jóhannesarjurtar var sá að ef fólk vildi loka fyrir skyggnigáfu, álög eða annað slíkt, þá átti fólk að geyma jóhannesarjurt í nærfötunum,“ segir Björk og tekur fram að jurtin sú vaxi ekki villt á Íslandi.

„Margar íslenskar lækningajurtir eru algengar og auðvelt að ganga fram á þær, mér finnst skemmtilegt að pæla í hvaða galdraplöntur finnast í görðum fólks eða við túnfótinn, ég get lofað að nóg er af þeim. Til dæmis er vallhumall galdrajurt, en laufin af honum áttu að bægja nornum frá. Eins gat fólk öðlast skyggnigáfu ef það nuddaði vallhumli á augnlokin. Maríustakkur er líka mjög algeng íslensk jurt sem finnst víða og er talin máttmikil, hún er sögð geta unnið á nánast öllum sjúkdómum. Hún er oft kölluð kvennajurt, því hún getur komið reglu á blæðingar, en auk þess er hún bólgueyðandi og góð fyrir meltinguna. Döggin af maríustakk er talin innihalda lífsins elexír, lykilinn að ódauðleika. Maríustakkur heitir á latínu Alchemilla vulgaris, sem tengist gullgerð og alkemistum, en þeir trúðu því að döggin af maríustakk væri efnið sem þyrfti til að búa til gull úr óæðri málmum.“