Rauðvín Silfurdrengurinn Alexander Petersson, sem eldist eins og gott rauðvín, sækir að marki Framara á Hlíðarenda í gærkvöldi.
Rauðvín Silfurdrengurinn Alexander Petersson, sem eldist eins og gott rauðvín, sækir að marki Framara á Hlíðarenda í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur er áfram eina liðið með fullt hús stiga í úrvalsdeild karla í handbolta eftir 34:30-heimasigur á Fram í skemmtilegum Reykjavíkurslag á Hlíðarenda í gærkvöldi. Framarar jöfnuðu metin skömmu fyrir leikslok, en Valur sigldi enn einum sigrinum í höfn með góðum endaspretti

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valur er áfram eina liðið með fullt hús stiga í úrvalsdeild karla í handbolta eftir 34:30-heimasigur á Fram í skemmtilegum Reykjavíkurslag á Hlíðarenda í gærkvöldi. Framarar jöfnuðu metin skömmu fyrir leikslok, en Valur sigldi enn einum sigrinum í höfn með góðum endaspretti.

Þjálfarinn Óskar Bjarni Óskarsson á hrós skilið fyrir byrjun Valsmanna, en hann tók við af Snorra Steini Guðjónssyni fyrir tímabilið. Snorri gerði magnaða hluti með Valsliðið og ekki öfundsvert að taka við af landsliðsþjálfaranum.

Sumt hefur þó ekki breyst á Hlíðarenda. Magnús Óli Magnússon leikur enn þá vel og skoraði hann níu mörk í gær. Þá eldist Björgvin Páll Gústavsson eins og gott rauðvín og varði silfurdrengurinn 19 skot í markinu. Alexander Petersson eldist ekki síður vel. Hann skoraði þrjú mörk í gær, þrátt fyrir að vera fimm árum eldri en Björgvin.

Framarar ætluðu sér stóra hluti fyrir tímabilið, en liðið hefur ekki alveg náð að smella til þessa, þrátt fyrir ágæta kafla í gær. Þrír leikir í röð án sigurs eru vonbrigði hjá Framliðinu.

Einar hetja KA-manna

Einar Rafn Eiðsson var hetja KA gegn Stjörnunni, en hann skoraði sigurmark norðanmanna í 27:26-heimasigri á Garðbæingum hálfri mínútu fyrir leikslok. Norski markvörðurinn Nicolai Kristensen á einnig sinn þátt í sigrinum, því hann varði frá Agli Magnússyni í síðustu sókn gestanna.

KA-liðið var í basli stóran hluta síðustu leiktíðar en fer vel af stað í vetur. Er KA eina liðið fyrir utan Val sem enn er taplaust. Halldór Stefán Haraldsson fer vel af stað sem þjálfari liðsins.

Stjörnumenn eru hins vegar í basli, með aðeins einn sigur í fyrstu fjórum leikjunum. Það stefnir í langan vetur hjá Patreki Jóhannessyni og lærisveinum hans.

Stórsigur Hauka

Loks unnu Haukar sannfærandi 33:21-útisigur á nýliðum Víkings, þar sem Haukar voru allan tímann með undirtökin. Hafnarfjarðarliðið hefur unnið tvö af þremur neðstu liðum deildarinnar til þessa, en tapað hinum tveimur leikjunum. Það er því erfitt að átta sig á því hvar Haukaliðið er statt í dag. Víkingar hafa alls ekki náð að fylgja eftir sigrinum glæsilega á ÍBV á dögunum, heldur fengið tvo þunga skelli síðan. Hinn 19 ára gamli Össur Haraldsson fór á kostum fyrir Hauka og skoraði 10 mörk.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson