— Morgunblaðið/Ásdís
Segðu mér frá hljómsveitinni Virgin Orchestra? Til að byrja með vorum við tvö, ég og Stefanía Pálsdóttir, en við kynntumst í tónlistardeild LHÍ. Síðan bættist Rún Árnadóttir í hópinn, á selló, en ég er á gítar og Stefanía syngur og spilar á bassa

Segðu mér frá hljómsveitinni Virgin Orchestra?

Til að byrja með vorum við tvö, ég og Stefanía Pálsdóttir, en við kynntumst í tónlistardeild LHÍ. Síðan bættist Rún Árnadóttir í hópinn, á selló, en ég er á gítar og Stefanía syngur og spilar á bassa. Við fórum til Skotlands í júlí að spila á þrennum tónleikum og verðum svo með útgáfutónleika núna 3. október.

Hvaðan kemur nafnið?

Það er byggt á misskilningi. Við Stefanía vorum á bar eftir æfingu að reyna að finna nafn og hún sagði eitthvað sem ég ekki heyrði fyrir hávaða, en fannst hún segja Virgin Orchestra. Okkur fannst þetta bara gott nafn og héldum því.

Hvernig lýsir þú ykkar tónlist?

Þetta er tilraunakennt post-pönk en líka blandað við raftónlist.

Ertu pönkari í þér?

Já, ég myndi segja það. Sérstaklega er ég hrifinn af post-pönk.

Voru þið lengi að vinna að fyrstu breiðskífu
ykkar Fragments?

Þetta tók smátíma. Við tókum hana upp í fyrrasumar í Berlín og ákváðum svo að gefa hana út hjá Smekkleysu. Plata tvö er svo komin langt á leið.

Hvert stefnir þú í tónlist?

Aðalfókusinn er á hljómsveitina en ég hef líka verið mjög virkur í kvikmyndatónlist. Ég mun þar feta í fótspor Kjartans bróður míns. Draumurinn er að túra og semja plötur en í pásum verð ég í kvikmyndatónlist.

Nú ertu líka litli bróðir Georgs Holm bassaleikara Sigur Rósar. Kemst ekkert annað að hjá ykkur bræðrum en tónlist?

Ég veit ekki hvernig við enduðum allir í þessum sporum, en við virðumst vera með tónlistina í blóðinu.

Stefnir þú á heimsfrægð eins og Sigur Rós?

Við miðum hátt alla vega.

Útgáfutónleikar Virgin Orchestra verða í Kaldalóni í Hörpu 3. október kl. 20. Miðar fást á tix.is.