Ólöf Ólafsdóttir fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 21. júní 1937. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða Ísafirði 14. september 2023.

Foreldrar hennar voru Elínborg Katrín Sveinsdóttir símstöðvarstjóri, f. 12.10 1897, d. 11.5. 1955, og Ólafur Jónsson húsasmiður, f. 12.5. 1892, d. 30.12. 1967. Systkini Ólafar eru Ingvi, f. 1922, d. 2005, Sveinn, f. 1924, d. 2018, Björgvin, f. 1924, d. 2017, Þórey Hrefna, f. 1925, d. 2019, Höskuldur, f. 1927, Jónas, f. 1928, d. 1928, Jónas, f. 1929, d. 2016, Sylvía, f. 1931, d. 2022, Ingibjörg, f. 1932, Sigríður Ingibjörg, f. 1935 d. 2017, María, f. 1939, og Guðrún, f. 1944 d. 1960. Hálfsystkini Ólafar, börn Ólafs, eru Hrefna, f. 1915, d. 1918, Kjartan, f. 1918, d. 1991, og Þórir, f. 1931, d. 1990.

Ólöf giftist 12.10. 1957 Guðmundi Ingvarssyni, stöðvarstjóra Pósts og síma, f. 12.4. 1935, frá Syðra-Lóni á Langanesi. Foreldrar hans voru Sigríður Guðmundsdóttir, f. 10.8. 1911, d. 8.9. 2013, og Ingvar Einarsson, f. 1.11. 1906, d. 1.8. 1946.

Börn Ólafar og Guðmundar eru: 1) Ingvar, f. 1956. 2) Ragnar Ólafur, f. 1959, maki Snædís Gíslín Heiðarsdóttir, f. 1962. Börn þeirra eru: a) Guðný Ösp, eiginmaður hennar er Fannar Hjálmarsson, b) Elín Björg, sambýlismaður hennar er Jón Ævar Tómasson, c) Guðmundur, sambýliskona hans er Sigríður Margrét Ágústsdóttir. 3) Guðrún, f. 1960, maki Kristinn Jón Traustason, f. 1936, d. 2013. Dóttir Guðrúnar er Ólöf María, sambýlismaður hennar er Henrik Severström. 4) Sigurður Borgar, f. 1965, maki Gerður Gísladóttir, f. 1964. Börn þeirra eru: a) Karitas, sambýlismaður hennar er Mikkel Jahn Riboe, b) Guðmundur Gauti.

Langömmubörnin eru níu, Freyja Björk, Þiðrik, Alexandra Guðrún, Iðunn, Almar Freyr, Eric Ás, Íris Edda, Kári Snær og Gauti Hrafn.

Ólöf eða Olla eins og hún var jafnframt kölluð ólst upp á Þingeyri og gekk í barnaskólann þar. Til stóð að hún færi í Núpsskóla en vegna veikinda móður sinnar hætti hún við að fara og var henni til aðstoðar heima fyrir. Í framhaldi af því hóf hún störf hjá Símanum, sem talsímavörður, og seinna hjá Pósti og síma þar sem þau hjónin störfuðu saman til starfsloka.

Útför Ólafar fer fram frá Þingeyrarkirkju í dag, 30. september 2023, klukkan 14.

Hlekk á streymi má nálgast á mbl.is/andlat.

Það var mér mikil harmafregn þegar pabbi hringdi og tilkynnti mér að mamma hefði orðið bráðkvödd. Ég sem var svo langt í burtu og fékk ekki að kveðja hana, það er svo sárt.

Það var gott að alast upp í litlu þorpi vestur á fjörðum, mamma vann á símstöðinni og þar áttum við líka heima svo það var alltaf stutt að sækja mömmu ef þess þurfti, alltaf var morgunkaffi, hádegismatur, kaffi, kvöldmatur og kvöldkaffi og séð til þess að maður væri nú ekki svangur. Mamma brýndi fyrir mér að vera duglegur í skólanum og að vinna og hjálpaði mér ef þess þurfti.

Við mamma vorum mjög náin en ég var litli strákurinn hennar, hún vildi alltaf vita hvað ég væri að gera hverju sinni og sýndi því áhuga. Hún brýndi fyrir mér hagsýni og að fara vel með hlutina, hún var umhyggjusöm og átti mikla hlýju sem við fjölskyldan fengum að njóta.

Minningar um mömmu eru margar, til dæmis þar sem hún situr og prjónar lopapeysur. Ég og hún að horfa saman á fótboltann í sjónvarpinu, mamma í gönguferðum og sundi á hverjum morgni en það mátti ekki klikka, mamma að hjóla á fína hjólinu sínu, fara í ræktina, mamma á gönguskíðum og keppa í Boccia, henni var mjög umhugað um að halda sér í góðu formi og það gerði hún svo sannarlega. Mamma að hlusta á pabba spila á harmonikkuna og syngja eða dansa með, mamma að baka kleinur og vínarbrauð og allar ferðirnar með fellihýsið um landið.

Mamma vildi frekar ferðast um landið sitt en fara til útlanda en samt fór hún nokkrum sinnum og man ég eftir að hún var mjög hrifin af ferð sem þau pabbi fóru um Íslendingabyggðir í Kanada.

Núna ert þú komin í sumarlandið elsku mamma mín þar sem þú hefur væntanlega fengið höfðinglegar móttökur frá foreldrum þínum og öllum systkinum þínum sem þangað voru komin á undan þér.

Minningin um þig mun lifa í hjörtum okkar.

Mamma, elsku mamma,

man ég augun þín

í þeim las ég alla

elskuna til mín.

Mamma, elsku mamma,

man ég þína hönd,

bar hún mig og benti

björt á dýrðarlönd.

Mamma, elsku mamma,

man ég brosið þitt,

gengu hlýir geislar

gegnum hjartað mitt.

Mamma, elsku mamma,

mér í huga skin

bjarmi þinna bæna,

blessuð versin þín.

Mamma, elsku mamma,

man ég lengst og best

hjartað blíða, heita,

hjarta, er sakna´ég mest.

(SH)

Þinn sonur,

Sigurður Borgar.

Þakklæti, væntumþykja og hlýja er mér efst í huga þegar ég kveð elskulegu tengdamóður mína, hana Ollu. Ég held að ég hafi unnið í lottóinu þegar ég fékk hana fyrir tengdamömmu, hún tók mér opnum örmum og urðum við strax góðar vinkonur.

Olla var óspör á að veita okkur unga fólkinu góð ráð þegar við vorum að byrja búskap og var dugleg að hringja og athuga hvort við værum nú ekki örugglega búin að borga reikningana okkar eða ættum nægan mat og svo voru sendir til okkar heilu dunkarnir af smákökum, kleinum og vínarbrauði fyrir jólin enda engar smákökur betri og var því beðið eftir þeim fyrir hver jól. Einnig tók sonurinn ekki annað í mál en að mömmuísinn yrði búinn til fyrir jólin þegar ég ætlaði að fara að gera minn eigin Toblerone-ís, nei, það skyldi nú vera ísinn hennar mömmu með suðusúkkulaðinu í, enda hefur enginn annar jólaís verið gerður síðan og börnin taka ekki annað í mál.

Olla var húsmóðir af gamla skólanum, hún tók slátur og eldaði allt frá grunni, bakaði kleinur og vínarbrauð og frystikistan var full af fiski og kjöti, hún var hagsýn og nýtin, en hún vann líka alltaf fullan vinnudag, fyrst sem talsímavörður og seinna hjá Pósti og síma.

Alltaf var gott að koma vestur á Þingeyri að heimsækja Ollu og Gumma og börnin nutu góðs af því að fá að koma á sumrin og dvelja hjá þeim í einhvern tíma. Þegar við vorum á leið vestur voru ófá símtölin frá Ollu þar sem hún vildi vita hvert við værum nú komin og beið okkar alltaf matur eða kaffi við komuna sama á hvaða tíma við mættum.

Þegar Olla og Gummi hættu að vinna keyptu þau sér fellihýsi og voru ófáar ferðirnar farnar á sumrin á hestamannamót eða harmonikkumót. Við heimsóttum þau oft og fengum að gista með börnin í fellihýsinu og eru mér minnisstæð harmonikkumótin þar sem var sungið og dansað, þar var Olla í essinu sínu og naut sín vel.

Olla var mikil hannyrðakona og hún var alltaf með lopapeysu á prjónunum, við nutum góðs af því og eigum öll lopapeysur eftir hana. Henni var líka umhugað um heilsuna og stundaði líkamsrækt, hjólaði, fór á gönguskíði og alla morgna fór hún í sund og svo stundaði hún boccia síðustu ár sem henni fannst skemmtilegt.

Ollu var umhugað um velferð okkar og hringdi oft til að vita hvernig gengi. Hún var dugleg að heyra í barnabörnunum í Danmörku og fá af þeim fréttir. Eric Ás langömmustrákur naut góðs af hlýju hennar þau ótal skipti sem hann fékk að fara með vestur á Þingeyri og spurði hún alltaf um hann þegar hún hringdi enda mikill langömmustrákur.

Það var henni mjög þungbært þegar heilsan fór að gefa sig og hún gat ekki lengur prjónað eða farið í sundferðirnar sínar, en aldrei heyrði ég hana kvarta.

Elsku Olla mín, ég mun sakna stundanna okkar og hlýja faðmlagsins, það verður skrýtið að koma vestur og þú verður ekki þar, en þar verður Gummi tengdapabbi og við munum hugsa vel um hann fyrir þig.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

(VB)

Þín tengdadóttir,

Gerður.

Heimsóknir til Ollu frænku á Þingeyri voru eitt af ævintýrum æskunnar. Alltaf farið síðsumars svo hægt væri að komast í berjamó með þeim Ollu og Gumma. Þau sjálf með stórt heimili, fjögur börn: Ingvar, Ragga, Gunnu og Sigga. Svo bættust foreldrar mínir við með sín þrjú börn í kannski heila viku. Utan um allt þetta hélt Olla. Með sínu rólyndi sá hún til þess að ærslin og lætin í krakkaskaranum færu ekki úr böndunum.

Lífið virtist ekki flókið. Hún sótti eggin út í hænsnakofann, náði í kartöflurnar út í garðinn á Oddanum – þær gerðust ekki betri, nýuppteknar – labbaði niður á bryggju, hitti á einhvern bátinn, kom með fisk til baka, og svo var kannski staldrað við í kaupfélaginu. Bóndinn kom akandi úr sveitinni með mjólkurbrúsann og eftir að búið var að vinna úr berjunum var það saftsúpa.

Þegar hún sá strandferðaskipið út um eldhúsgluggann koma siglandi inn Dýrafjörðinn var kallað: Esjan er að koma! Við krakkarnir hlupum niður á bryggju að fylgjast með öllu umstanginu.

Heimsókn í hesthúsið, þar sem Gummi var höfðinginn. Við krakkarnir fengum að fara á hestbak, fullorðna fólkið í útreiðartúr. Og ef við vorum heppin um kvöldið tók Gummi fram nikkuna.

Svo tóku við hin daglegu skyldustörf. Vinnan hennar var í hinum enda hússins. Þau hjónin bjuggu nefnilega á símstöðinni, sem einnig var pósthús, í húsi sem afi hafði byggt. Þangað var stöðugt rennirí af fólki. Þau voru póst- og símstöðvarstjórar í uppgangsplássinu Þingeyri, þorpi með 350 íbúa og öfluga sveit á bak við sig þar sem bjuggu 250 manns beggja vegna fjarðar.

Þegar ég hafði sjálfur fullorðnast og stofnað eigið heimili nutum við áfram þeirra rausnarlegu gestrisni. Fyrsta heimsókn okkar hjóna með ungar dætur er eftirminnileg því þær hlupu strax í fangið á Ollu og fóru að leiða hana, þótt þær væru að sjá hana í fyrsta sinn. Þær fundu greinilega skyldleikann við sína eigin ömmu enda Olla sú systir móður minnar sem var einna líkust henni í fasi og útliti.

Reglulegar heimsóknir héldu áfram, nánast á hverju ári gafst mér tækifæri til að eiga með þeim notalega stund á heimili þeirra, síðast tveimur vikum fyrir andlát hennar. Í stofunni fékk ég byggða- og samgöngumál Vestfirðinga beint í æð og Olla lét ekki sitt eftir liggja en samt með jafnaðargeði. Oft var þetta undanhald, kaupfélagið fór, togararnir fóru, flugið hætti.

En það voru líka framfarir. Fólkið grét af gleði þegar Dýrafjarðarbrúin kom. Svo kom sundlaugin frábæra, sem Olla hafði yndi af sem fastagestur. Og langþráð Dýrafjarðargöngin.

Ólöf Ólafsdóttir er síðust sem fellur frá af systkinunum þremur úr stórum barnahópi afa míns og ömmu sem byggðu heimili sitt á Þingeyri. Áður voru Jónas og Sylvía látin. Með fráfalli Ollu verða því ákveðin þáttaskil. Eftir lifir minning um heilsteypta og dugmikla konu sem verður sárt saknað.

Kristján Már Unnarsson.

Við fráfall Ólafar móðursystur minnar, Ollu á Stöðinni eins og hún var alltaf kölluð, leitar hugurinn til baka.

Hún upplifði það rétt komin af unglingsaldri að missa móður sína og kom það í hennar hlut að halda heimili fyrir föður sinn og tvær yngri systur. Um sama leyti var hún sjálf að stofna sína eigin fjölskyldu, jafnframt því að vinna á Símstöðinni sem var í sama húsi og heimili þeirra.

Á Símstöðinni var mikill gestagangur, einkum á sumrin, og sinntu Olla og systur hennar þessum þætti heimilishaldsins af stakri prýði en eftir að systurnar fóru að heiman til náms hafði frænka ávallt stúlku sér til hjálpar við heimilishaldið.

Á þessum árum sótti ég talsvert út á Stöð og var þar iðulega heilu og hálfu dagana. Ég man eftir hlöðnu kvöldverðarborði með súrum hval, soðnum eggjum, hafragraut og brauði með alls konar áleggi. Mesta undrun og aðdáun vakti hjá drengnum þegar afi með einu handbragði mundaði borðhnífinn og skar eggið í tvo hluta. Hef oft reynt þetta en aldrei tekist.

Ég gekk þarna út og inn eins og einn af heimilisfólkinu. Ég man að Olla kallaði oft á mig til að halda í lopahespu til að vefja hnykil. Þær stúlkurnar á símanum notuðu nefnilega hverja lausa stund milli símtala til að prjóna. Aldrei amaðist frænka mín nokkurn tímann við mér og var mér ljúf og góð. Vorið sem ég varð sex ára gaf hinn afinn mér splunkunýtt tvíhjól. Þetta var eðal gripur sem ekki hafði sést áður á Eyrinni. Eftir nokkrar vikur og ég ekkert farinn að nota gripinn fannst frænku ekki tiltökumál að koma inn eftir milli vakta á símanum og kenna drengnum að hjóla. Olla frænka tók virkan þátt í uppeldi mínu fyrstu 10-12 árin. Þegar ég lít til baka finnst mér að hún hafi verið önnur mamma mín.

Um tíu ára aldurinn var ég ráðinn að Símstöðinni í sumarvinnu til að bera út skeyti og kvaðningar. Við þetta styrktist samband okkar frænku enn frekar. Þetta starf var svolítið bindandi að því leyti að viðkomandi þurfti að vera í kallfæri. Það kom fyrir að ungur drengur gleymdi sér við leik úti við og náðist ekki í hann. Frænka tók þessu með jafnaðargeði og leiðbeindi mér af ljúfmennsku.

Ég man snemma á sjöunda áratug síðustu aldar. Við ókum inn á Skeiði til að brenna rusl. Frænka ný orðin 25 ára sjálfstæð þriggja barna móðir á nýrri Volkswagen-bjöllu. Hvað ég leit upp til þessarar flottu frænku minnar.

Ég hef verið þeirrar gæfu njótandi að geta heimsótt heimaslóðir á hverju ári áratugum saman. Oftast hitt frænku og fylgst með henni og fjölskyldu hennar. Nokkur síðustu ár hafði Olla átt við vanheilsu að stríða og kom því ekki alveg á óvart brotthvarf hennar úr þessum heimi.

Ég er þakklátur fyrir þátt Ollu frænku í uppeldi mínu, minnist sómakonu með gleði og bið henni Guðs blessunar.

Við Gerður vottum Guðmundi og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúð.

Ólafur Bjarnason.

Elsku, elsku Olla mín!

Þegar ég lít til baka er svo margt sem kemur upp í hugann. Ég kom til ykkar 16 ára, til að passa börnin og hjálpa til í eldhúsinu þegar þú varst að vinna. Heimili ykkar var alltaf mitt annað heimili. Þú kenndir mér svo ótal margt í matargerð og heimilishaldi, þú varst svo skipulögð og myndarleg húsmóðir. Þið hjónin reyndust mér sem foreldrar þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn og hafið alla tíð síðan reynst mér þannig. Svo líða árin og við förum að vinna saman hjá Pósti og síma, og síðan hjá Póstinum. Þá var oft glatt á hjalla, mikið spjallað og mikið prjónað. Auðvitað áttum við ekki að prjóna í vinnunni, en við höfðum svo yndislega góðan yfirmann sem hljóp í verkin okkar svo ekki yrði lykkjufall.

Elsku Guðmundur og fjölskylda! Ég samhryggist ykkur öllum innilega.

Ykkar missir er mikill.

Olla mín, takk fyrir allt og allt.

Þín

Ingibjörg Þorláksdóttir.