<div>Haustar að Haustið heilsar í Húnabyggð og þá er uppskerutími, fé komið af fjalli, hey í skjól og akrar slegnir.</div>
Haustar að Haustið heilsar í Húnabyggð og þá er uppskerutími, fé komið af fjalli, hey í skjól og akrar slegnir.
— Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
September er á enda og tungl sem kviknaði í norðri var fullt í gær. 92 dagar lifa af þessu ári og 697 karlar og 601 kona í sveitarfélaginu horfa fram á óræðan vetur. Haustið er mætt og teygir sig í gróðurinn sem lifnaði í vor og málar hann mörgum litum

Úr bæjarlífinu

Jón Sigurðsson

Blönduósi

September er á enda og tungl sem kviknaði í norðri var fullt í gær. 92 dagar lifa af þessu ári og 697 karlar og 601 kona í sveitarfélaginu horfa fram á óræðan vetur. Haustið er mætt og teygir sig í gróðurinn sem lifnaði í vor og málar hann mörgum litum. Ilmur haustsins liggur í loftinu og minnir okkur á lífsins gang. Það er svo margt sem hefur orðið á vegi manns gegnum tíðina. Þó ég fari ekki jafn víða og áður þá rekur alltaf eitthvað merkilegt á fjörur manns. Það er hávær mávahlátur, gelt í nágrannahundum, smellir í lúpínum þegar þær losa fræ úr belgjum sínum og áhyggjulaus ungmenni.

Ég hitti á tvo drengi um daginn sem fóru um götuna mína með gleði, hrópum og hetjusögum. Ég ávarpaði þá og átti ekki von á neinum viðbrögðum því börnum hefur verið uppálagt að hundsa eldri menn því þeir geta haft eitthvað misjafnt í huga. En þessir drengir svöruðu mér og sögðu mér frá sér og skólastarfinu í vetur. Þeir voru yfirvegaðir og óþvingaðir og ræddum við m.a. um skófir á vegg og það sem þeir kviðu mest fyrir í vetur í skólanum en það var kynfræðslan. Þeir óttuðust ekkert meira en að sjá nakta konu fyrir neðan mitti. Þetta urðu áhugaverðar umræður og að þeim loknum kvöddumst við með virktum. Skólinn sem þessir ungu menn sækja heitir nú Húnaskóli eftir sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduóss. Núna er hafið annað starfsár skólans og stunda 180 nemendur þar nám í 1.-10. bekk. Fyrir sameiningu voru um 140 nemendur í Blönduskóla.

Nú er veiði lokið í helstu laxveiðiám Húnavatnssýslna og á næstu dögum taka við samræmdar aðgerðir veiðifélaga, Landssambands veiðifélaga og Fiskistofu við að hreinsa eldislax úr ám þar sem hans hefur orðið vart. Alls hafa veiðst rúmlega 3.000 laxar í sjö helstu laxveiðiám í Húnavatnssýslum og er það um 1.200 færri laxar en í fyrra. Mest hefur veiðst í Miðfjarðará eða 1.199 laxar, þá í Laxá á Ásum 630 laxar og í Víðidalsá hafa veiðst 599 laxar. Blanda stendur í 359 löxum, Vatnsdalsá í 344, Hrútafjarðará í 145 og Svartá í 92. Í öllum þessum ám er veiðin slakari en í fyrra.

Leigutakar Blöndu heimila eingöngu fluguveiði og setja stífan kvóta til að rífa ána upp úr öldudal. Þetta var árið 2019. Það er athyglisvert að skoða árangur hinna nýju reglna nýrra leigutaka og bera saman laxveiðar í Svartá og Blöndu árið 2015 og í Blöndu í sumar. Munurinn er stórbrotinn því 2015 veiddust 4.549 laxar en í ár eru 418 laxar færðir til bókar. Hér á árum áður þegar Blanda rann óbeisluð til sjávar var mjög algengt að um 2.000 laxar veiddust plús eða mínus ár hvert og engum laxi hlíft. Þetta hrun í laxveiði í Blöndu er rannsóknarefni frá öllum hliðum séð.

Kormákur/Hvöt sem er sameiginlegt knattspyrnulið Blönduóss og Hvammstanga lauk frábæru tímabili sínu í 3. deild með góðum sigri á Augnabliki á Blönduósvelli fyrr í mánuðinum. Með sigrinum gulltryggði liðið sæti í 2. deild að ári og verður spennandi að fylgjast með framtíð þessara húnvetnsku sameinuðu liða

Sveitarstjórn Húnabyggðar hefur áréttað mikilvægi Blönduósflugvallar. Völlurinn sé sá eini á svæðinu milli fjallvega um Holtavörðuheiði, Þverárfjall og Vatnsskarð og gegnir því mikilvægu
hlutverki sem sjúkraflugvöllur. Tilefnið er alvarleg umferðarslys á þjóðvegi 1 að undanförnu. Í bókun sveitarstjórnar segir að það sé gríðarlega mikilvægt að áform sem fram koma í drögum að samgönguáætlun um lagningu bundins slitlags á Blönduósflugvöll nái fram að ganga.

Haustið er uppskerutími. Fé komið af fjalli, heyforði kominn í skjól og akrar slegnir. Bláber og krækiber finnast varla og blár fuglaskítur er sjaldséður á bekkjum bæjarins. En þrátt fyrir allt og allt eru íbúar Húnabyggðar nokkuð bjartsýnir og vænta mikils af mikilli uppbyggingu í gamla bænum.

Höf.: Jón Sigurðsson