Píanisti Domenico Codispoti.
Píanisti Domenico Codispoti. — Morgunblaðið/Golli
Kammermúsíkklúbburinn hefur vetrarstarf sitt með tvennum tónleikum um helgina. Í dag, laugardag, leika Domenico Codispoti og Esteban Ocaña á tvö píanó umritanir á tónlist eftir Astor Piazzolla og á morgun, sunnudag, leikur Codispoti píanótríó eftir…

Kammermúsíkklúbburinn hefur vetrarstarf sitt með tvennum tónleikum um helgina. Í dag, laugardag, leika Domenico Codispoti og Esteban Ocaña á tvö píanó umritanir á tónlist eftir Astor Piazzolla og á morgun, sunnudag, leikur Codispoti píanótríó eftir Smetana og Brahms ásamt Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara og Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara. Tónleikarnir hefjast kl. 16 í Norðurljósum Hörpu báða dagana.

„Ítalinn Domenico Codispoti hefur löngu unnið sér sess í hérlendu tónlistarlífi. Allt frá árinu 2000 hefur hann haldið fjölda einleikstónleika á Íslandi, verið einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leiðbeint ungum píanóleikurum á meistaranámskeiðum. Codispoti er í hópi fremstu píanóleikara Ítala. Spánverjinn Esteban Ocaña er sömuleiðis meðal athyglisverðustu píanista sinnar þjóðar. Hann hefur komið fram víða um heim sem einleikari og kammertónlistarmaður og stjórnar píanódeildinni við Alþjóðlega háskólann í Andalúsíu,“ segir í viðburðarkynningu.

Þar kemur fram að Smetana hafi verið einn af merkisberum rómantískrar þjóðlegrar tónlistar á 19. öld og jafnan talinn faðir tékkneskrar tónlistar. „Píanótríóið í g-moll var samið á tímum mikilla persónulegra erfiðleika,“ segir í kynningu og bent á að sökum þessa hvíli „yfir þessu ægifagra verki söknuður og tregi“. Johannes Brahms lauk við fyrsta píanótríó sitt, sem samið er í H-dúr, nokkrum mánuðum eftir að hann hafði kynnst hjónunum Clöru og Robert Schumann.

„Kammermúsíkklúbburinn var stofnaður árið 1957 og hefur staðið fyrir reglulegu tónleikahaldi í Reykjavík allar götur síðan. Árgjald klúbbsins, sem veitir aðgang að öllum sex tónleikum vetrarins, er 17.500 kr. á hvern félaga. Eins og áður er klúbbfélögum boðið að taka unglinga úr fjölskyldum sínum með á tónleika klúbbsins fyrir aðeins 500 kr. á mann,“ segir í tilkynningu, en miðar eru einnig seldir á staka tónleika í miðasölu Hörpu. Allar nánari upplýsingar um vetrarstarfið og skráning er á kammer.is.