Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokks lagði fram fyrirspurn til Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og menntamálaráðherra, í vikunni þar sem hann kallaði eftir skriflegum upplýsingum um hvaða reglur giltu um heimsóknir og fræðslu félaga- og hagsmunasamtaka í leik- og grunnskólum landsins

Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokks lagði fram fyrirspurn til Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og menntamálaráðherra, í vikunni þar sem hann kallaði eftir skriflegum upplýsingum um hvaða reglur giltu um heimsóknir og fræðslu félaga- og hagsmunasamtaka í leik- og grunnskólum landsins. Birgir vildi m.a. vita hvort allt kennsluefni væri yfirfarið af Menntamálastofnun og hvaða viðmið stofnunin hefði um kennsluefni. Hann segir að kveikjan að fyrirspurninni hafi verið umræðan um kynfræðslu í skólum og hinseginfræðslu.

„Í ljósi umræðunnar síðustu daga um útvistun á fræðslu í grunnskólum til hagsmunasamtaka tel ég eðlilegt að ráðuneytið upplýsi um það hvaða reglur gilda í þessum efnum og hvort fyrirkomulagið samræmist grunnskólalögum. Ef svo er þá er mikilvægt að gæta jafnræðis milli félaga- og hagsmunasamtaka. Á því hefur verið misbrestur.“ Birgir nefnir í því sambandi að Reykjavíkurborg hafi bannað trúfélagi að heimsækja grunnskólana og færa nemendum Nýja testamentið að gjöf, eins og hafi verið fyrir til fjölda ára, en nýverið lagði Birgir, ásamt nokkrum þingmönnum, fram frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla sem lúta kennslu um trúarbrögð og vildi sjá að orðunum „kristnifræði og“ væri bætt framan við orðið „trúarbragðafræði“.

„Samtökin ’78 eru mikilvæg hagsmunasamtök. Hins vegar má spyrja sig hvort samtökin eigi að sjá um fræðslu um hinseginleikann í grunnskólum. Kennarar ættu að geta séð um þá fræðslu eins og hvað annað ásamt því að upplýsa um tilvist og þjónustu Samtakanna ’78. Þetta snýst um jafnræði í mínum huga.“

Birgir segir það mikilvægt að fá svör við því hvort foreldrar fái að kynna sér það kennsluefni sem félaga- og hagsmunasamtök leggja fram í kennslunni.