Söngkona Erla Þorsteins ung að árum og á toppi stutts ferils.
Söngkona Erla Þorsteins ung að árum og á toppi stutts ferils.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Erla var ein ástsælasta dægurlagasöngkona okkar á 20. öldinni og við ætlum að heiðra minningu hennar með því að rekja feril hennar í tali og tónum,“ segir Hulda Jónasdóttir sem stendur að tónleikum í Salnum í Kópavogi 7

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Erla var ein ástsælasta dægurlagasöngkona okkar á 20. öldinni og við ætlum að heiðra minningu hennar með því að rekja feril hennar í tali og tónum,“ segir Hulda Jónasdóttir sem stendur að tónleikum í Salnum í Kópavogi 7. október þar sem flutt verða lög sem Erla Þorsteins söng á sínum tíma. Naut hún mikilla vinsælda og var gjarnan nefnd stúlkan með lævirkjaröddina.

Kynnir á tónleikunum verður Valgerður Erlingsdóttir og um tónlistina sér fimm manna hljómsveit undir stjórn Magnúsar Þórs Sveinssonar. Nokkrir ungir söngvarar munu flytja lög Erlu, þau Una Torfa, Svavar Knútur, Hreindís Ylva og Daníel Arnar.

„Þau munu flytja margar af fallegustu perlum Erlu,“ segir Hulda og nefnir þar lög eins og Kata rokkar, Draumur fangans, Litla stúlkan við hliðið, Vaki vaki vinur, Vagg og velta og Þrek og tár.

Aðeins fimm ára ferill

Erla fæddist á Sauðárkróki árið 1933 og hóf snemma að syngja og leika á gítar á heimaslóðum en að sögn Huldu fékk hún gítarinn í fermingargjöf.

Átján ára fluttist Erla til Danmerkur til að starfa við þjónustu en söngferill hennar hófst mjög snögglega, og fyrir alvöru, er henni bauðst að syngja og leika á gítar í dönskum útvarpsþætti snemma árs 1954. Flutti hún lögin Til eru fræ og Kvöldið var heiðskírt og hljótt.

„Í beinu framhaldi opnuðust henni fjölmargar gáttir og tækifæri til að koma sér á framfæri, og í kjölfarið einnig að syngja inn á plötur,“ segir Hulda.

Erla var sem fyrr segir kölluð stúlkan með lævirkjaröddina. Hið merkilega við söngferil hennar er að í raun spannaði hann aðeins fimm ár. Hætti hún að syngja opinberlega 26 ára gömul og fór að sinna fjölskyldu sinni.

„Þrátt fyrir það náði hún að gefa út fjölmargar smáskífur á þeim tíma og á þeim er að finna fjöldann allan af lögum sem hún gerði ódauðleg,“ segir Hulda en sem dæmi komu út þrjár plötur með söng Erlu árið 1956. Söng hún íslensk lög á þeim öllum, við undirleik hljómsveitar Jörns Grauengårds en Fálkinn gaf út. Lögin voru tekin upp snemma árs og seldust plöturnar allar mjög vel, að sögn Huldu. Þannig varð ein platnanna, með lögunum Heimþrá og Hljóðaklettar, söluhæsta plata ársins 1956 á Íslandi.

Margir tónlistarmenn hafa tekið lögin sem Erla söng til endurvinnslu, má þar nefna Björk og Tríó Guðmundar Ingólfssonar á plötunni Gling gló. Tvöföld safnplata, Stúlkan með lævirkjaröddina, kom út árið 2000 og er á henni að finna flest af lögum Erlu. Lög hennar hafa enn fremur ratað inn á ýmsar safnplötur í seinni tíð. Þá gaf söngkonan Hreindís Ylva út plötuna Á góðri stund árið 2011 þar sem hún syngur ellefu lög sem Erla gerði vinsæl.

Erla Þorsteins lést í Danmörku haustið 2022, á nítugasta aldursári.