Háhyrningur Konurnar þrjár frá MAST komnar til móts við háhyrninginn til að koma honum af strandstað.
Háhyrningur Konurnar þrjár frá MAST komnar til móts við háhyrninginn til að koma honum af strandstað. — Ljósmynd/Landsbjörg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Staðan er sú að þetta tókst ekki, allar aðgerðir og undirbúningur gengu þó vel,“ segir Þóra J. Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun (MAST). Háhyrningur sem strandaði í Gilsfirði í fimm daga var á endanum aflífaður eftir…

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Staðan er sú að þetta tókst ekki, allar aðgerðir og undirbúningur gengu þó vel,“ segir Þóra J. Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun (MAST). Háhyrningur sem strandaði í Gilsfirði í fimm daga var á endanum aflífaður eftir umfangsmiklar aðgerðir til að koma honum til hafs á ný. Þetta er annar háhyrningurinn sem strandar í firðinum á fáeinum dögum. Þóra sérhæfir sig m.a. í velferð dýra.

Gul veðurviðvörun og leiðindaveður töfðu aðgerðir og gerðu dýrinu erfiðara að lifa strandið af. Klukkan hálfsex í gærmorgun lögðu starfsmenn á vegum MAST af stað til móts við hvalinn til að koma honum á flot. „Það var farið strax í að lyfta hvalnum upp með flotkútum frá Landhelgisgæslunni og settur dúkur undir dýrið til að ná honum af strandstað.“

Þóra segir að áskorunin við að koma hvalnum til hafs á ný hafi verið vegna brúarinnar í Gilsfirði. Á hástreymisflóði streymi mikill sjór inn í fjörðinn og aðeins hafi verið opinn hálftíma gluggi til að koma svona stóru dýri úr firðinum. „Þetta er allt of grunnt,“ segir hún.

Eftir að ljóst var að háhyrningurinn kæmist hvorki lönd né strönd þurfti að grípa til aðgerða. „Gilsfjörðurinn er algjör dauðagildra fyrir hvali, þeir komast inn en ekki út aftur.“ Ástand dýrsins var metið þokkalegt en tíminn til að bjarga því var naumur. „Um hálfþrjú á fimmtudag lögðum við af stað, þrjár konur, með háhyrninginn í taumi af strandstaðnum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef farið með háhyrning í göngutúr.“

Kostnaður sveitarfélaga

Tæki sem áttu að koma til bjargar biluðu einnig og því voru góð ráð dýr. „Okkur rak hratt undan vindi og það var talsverð ölduhæð.“ Konurnar og háhyrningurinn voru í vanda en það náist að koma dýrinu á öruggan stað án þess að það gæti synt til hafs á ný. „Það var ákveðið að aflífa dýrið. Það var fenginn dýralæknir með sérútbúið vopn til að geta gert það á mannúðlegan hátt og það tókst vel.“ Aflífunin var framkvæmd með velferð dýrsins í huga.

„Það eru stór vopn sem eru notuð, hreindýrarifflar eru til dæmis allt of litlir. Það þarf stórar kúlur og sérstaka þekkingu. Þetta var staðan sem við vorum að glíma við.“

Margir komu að björgunaraðgerðum, heimamenn og þrjár björgunarsveitir. Samkvæmt lögum er það á ábyrgð sveitarfélaga, í þessu tilfelli Rauðhólahrepps, að bregðast við og bera kostnaðinn af því þegar hvalir stranda og sjá um förgun þeirra ef illa fer. Endanlegur kostnaður vegna verkefnisins liggur ekki fyrir. „Við höfum óskað eftir við ráðuneytið að það verði stofnaður sjóður sveitarfélaga til að kosta björgun á villtum dýrum en það þarf lagabreytingar til,“ segir Þóra.

Háhyrningar hafa verið kallaðir úlfar hafsins og eru grimmar skepnur. Voru konurnar sem reyndu að bjarga dýrinu í hættu? „Ég myndi ekki segja það en ef þú myndir stinga hendinni upp í það gætir þú verið í hættu. Þetta dýr var mjög samvinnufúst, var besta skinn, og lyfti bæði haus og sporði þegar dúknum var komið undir hann.“