Hin rússneska útgáfa Ragnars Kjartanssonar af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara kemur við sögu í heimildarmynd.
Hin rússneska útgáfa Ragnars Kjartanssonar af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara kemur við sögu í heimildarmynd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég held að Rússar hafi haft skilning á framkomu og viðhorfum Trumps vegna áhrifa frá Santa Barbara-þáttunum.

Heimildarmyndin Soviet Barbara var frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni HotDocs í Toronto fyrr á árinu og hlaut í kjölfarið dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði. Myndin, sem er í leikstjórn Gauks Úlfarssonar, var frumsýnd í Bíó Paradís fyrir skömmu og heldur síðan á Nordisk Panorama.

Í lok árs 2021 hélt myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson til Moskvu til að setja upp fyrstu sýninguna í glæsilegri menningarmiðstöð í miðborginni. Miðstöðin, GES-2, var áður orkuver sem knúði Kreml. Stærsta listaverk Ragnars á sýningunni var lifandi skúlptúr þar sem hópur 70 listamanna, leikara og tæknimanna, lék, tók upp og framleiddi einn þátt á dag af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara á rússnesku. Í Soviet Barbara er fylgst með aðdraganda, opnun og eftirmála þessa sérstæða ævintýris en þegar Rússar réðust inn í Úkraínu var ákveðið að hætta sýningum.

Sérstök hrifning Rússa

Bandaríska sápuóperan Santa Barbara var sýnd í bandarísku sjónvarpi á árunum 1984-1993. Þar var fjallað um örlög hinnar vellauðugu Capwell-fjölskyldu sem bjó í Santa Barbara, Kaliforníu. Þættirnir voru sýndir í rúmlega fjörutíu löndum og unnu til tuttugu og fernra Emmy-verðlauna, auk fjölda annarra verðlauna.

Santa Barbara var fyrsta bandaríska sápuóperan sem var sýnd í rússnesku sjónvarpi eftir fall Sovétríkjanna. Sýningar hófust 2. janúar 1992, en ekki var byrjað á því að sýna fyrsta þáttinn heldur byrjað á þætti númer 217. Síðasti þátturinn, númer 2040, var sýndur 17. apríl 2002, tíu árum síðar. Um tíma var áhugi Rússa svo mikill að það þótti beinlínis harmsefni að hafa misst af þætti. Þegar sýningum lauk hafði hins vegar dregið nokkuð úr áhrifunum.

Sápuóperan Santa Barbara átti sér í mörg ár sérstakan stað í hjörtum Rússa og áhrifin voru áþreifanleg og vel sýnileg. Hárgreiðslustofur í Rússlandi voru nefndar Santa Barbara, það sama átti við um veitingahús og fatabúðir og meira að segja arkitektúr tók mið af Santa Barbara. Vinsæl rússnesk hljómsveit sendi frá sér lagið Santa Barabara þar sem ungar konur lýstu yfir eilífri ást á Mason Capwell, sem var persóna í þáttunum.

Trump úr Santa Barbara

Af hverju var þessi mikla þörf hjá Rússum til að endurskapa töfraheim Santa Barbara? Einn þeirra sem hafa mikið velt því fyrir sér er ljósmyndarinn Misha (Michael) Friedman, sem kemur fram í heimildarmyndinni. Hann er Rússi og búsettur í New York og byrjaði að safna myndum af áhrifum Santa Barbara í Rússlandi. Ásamt Mikhail Iossel birti hann grein um ást Rússa á Santa Barbara í tímaritinu Foreign Policy. Ragnar Kjartansson las þessa grein og hún kveikti áhuga hans á hinu sérstaka sambandi Santa Barbara og Rússa.

Blaðamaður hafði samband við Friedman og spurði hann um Santa Barbara-áhrifin sem hann hefur myndað. „Árið 2016 var ég var staddur í Úkraínu og uppgötvaði hverfi sem var greinilega undir miklum áhrifum frá Santa Barbara. Mér fannst þetta áhugavert og óvenjulegt. Ég lagðist í rannsóknir og komst að því að Santa Barbara-áhrifin var að finna á nokkrum stöðum, ekki bara í Úkraínu heldur í Rússlandi og líka Kasakstan. Í Santa Barbara sá fólk ameríska drauminn verða að veruleika,“ segir Friedman.

„Þetta var árið 2016, rétt fyrir bandarísku forsetakosningarnar. Trump var í framboði og hann var fulltrúi þeirra gilda sem ríktu í Santa Barbara. Klæðaburður hans var frá níunda áratugnum, viðhorf hans til kvenna endurspeglaði viðhorf karlanna í Santa Barbara-sjónvarpsþáttunum. Ég held að Rússar hafi haft skilning á framkomu og viðhorfum Trumps vegna áhrifa frá Santa Barbara-þáttunum. Trump, eins og persónur Santa Barbara, var með sérsvefnherbergi og átti morð fjár.

Mér fannst áhugavert að skoða og mynda Santa Barbara-áhrifin. Ég fór í nokkur hverfi og myndaði og hafði síðan samband við rithöfundinn Mikhail Iossel og við birtum grein um Santa Barbara-áhrifin í Foreign Policy í júlí árið 2017. Seinna sá Ragnar þessa grein og hafði samband við mig. Ég vann með honum í Soviet Barbara-verkefni hans en því lauk of snemma vegna innrásar Rússa í Úkraínu.“

Æsandi innsýn

Soviet Barbara hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda. Í Variety sagði: „Soviet Barbara veitir æsandi innsýn í tilraun til að byggja brýr með listinni milli menningarheima og þvert á pólitísk landamæri, en auðvitað kemur stríð algjörlega í veg fyrir allt slíkt samtal.“

POV magazine sagði: „Soviet Barbara er óvenjuleg mynd sem tvinnar saman myndlist, stjórnmál og gagnrýna hugsun á klókan og skarpan máta.“

Eins og áður sagði hlaut myndin dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg á Patreksfirði og í rökstuðningi sagði: Myndin er í senn hrífandi og óþægileg – einstaklega athyglisverð og marglaga frásögn sem vekur stórar og flóknar spurningar.“