[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bækur hafa ávallt skipt mig miklu máli sem er ekki skrítið þar sem ég kem af mjög bókelskandi fólki. Ég les því mikið og les alls konar bækur. Ég lauk fyrir stuttu lestri bókarinnar Í hennar skóm eftir Jojo Moyes sem kom út nú í sumar

Bækur hafa ávallt skipt mig miklu máli sem er ekki skrítið þar sem ég kem af mjög bókelskandi fólki. Ég les því mikið og les alls konar bækur.

Ég lauk fyrir stuttu lestri bókarinnar Í hennar skóm eftir Jojo Moyes sem kom út nú í sumar. Hún var aðeins öðruvísi en fyrri bækur þess höfundar að því leyti að hún var spennandi og lítið um atriði sem fá mann til að tárast sem mér þótti góð tilbreyting. Ég ákvað að halda mig við svipaða bók þegar ég valdi þá næstu til að lesa en ég var að byrja á bókinni Fólk sem við hittum í fríi eftir Emily Henry. Ég kann að meta góðar ástarsögur og svokallaðar „skvísubókmenntir“ og er ávallt ánægð þegar slíkar bækur koma út í íslenskri þýðingu. Þessi er vissulega nokkurs konar sumarfrísbók en ég tel ávallt viðeigandi að lesa slíkar bækur, sérstaklega á haustin þegar það er farið að kólna. Fínt að fá sér góðan kaffibolla og skella sér í sófann með bók þar sem fólk lendir í ævintýrum í heitu landi.

Eftirminnilegasta bókin sem ég hef lesið undanfarið er bókin Fourth Wing eftir Rebeccu Yarros. Sú bók sló í gegn í bókakimum samfélagsmiðla og það skiljanlega. Þetta er fantasíubók af bestu gerð. Hún er grípandi, spennandi og ég get ekki beðið eftir framhaldinu, Iron Flame, sem kemur út í nóvember. Það er langt síðan ég beið svo spennt eftir framhaldsbók. Ég er líka spennt fyrir að hefja lestur á annarri bókaseríu sem er The Ravenhood-serían eftir Kate Stewart en fyrsta bókin í þeirri seríu, Flock, er tilbúin heima í bókabunkanum yfir þær bækur sem á eftir að lesa.

Á hverju ári les ég talsvert af bókum. Því þykir mér mikilvægt að halda lestrardagbók og hef ég gert það á myndrænu formi á samfélagsmiðlinum Instagram undir aðganginum @janahjorvarreads. Það er góð leið til að muna hvað maður les og hvað manni fannst. Ég get ekki mælt nógu mikið með að fólk prófi að halda úti slíkri lestrardagbók. Sérstaklega svo að aðrir bókaormar eins og ég geti fengið hugmyndir að bókum til að lesa.