Skurður Hálfa aðra til tvær klukkustundir tekur að skera hvern hval, en dýrin eru um og yfir 60 fet að lengd.
Skurður Hálfa aðra til tvær klukkustundir tekur að skera hvern hval, en dýrin eru um og yfir 60 fet að lengd. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Hvalur 9 kom að landi aðfaranótt fimmtudagsins með tvo hvali sem veiðst höfðu suður af landinu, en á þeim slóðum hafa hvalbátarnir stundað veiðar á yfirstandandi vertíð. Í gær, föstudag, voru hvalbátarnir báðir, Hvalur 8 og Hvalur 9, svo aftur komnir á miðin og þegar síðast spurðist til þeirra um miðjan dag í gær voru þeir komnir hvor með sinn hvalinn.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Hvalur 9 kom að landi aðfaranótt fimmtudagsins með tvo hvali sem veiðst höfðu suður af landinu, en á þeim slóðum hafa hvalbátarnir stundað veiðar á yfirstandandi vertíð. Í gær, föstudag, voru hvalbátarnir báðir, Hvalur 8 og Hvalur 9, svo aftur komnir á miðin og þegar síðast spurðist til þeirra um miðjan dag í gær voru þeir komnir hvor með sinn hvalinn.

Halda átti leit áfram á meðan birtuskilyrði leyfðu. Því hafa alls veiðst 23 langreyðar í september, en gæftir hafa verið stopular þar sem ekki er unnt að stunda veiðarnar nema í sæmilega lygnum sjó. Veðráttan hefur því ekki verið að hjálpa til við hvalveiðarnar á þessari stuttu veríð.

Að sögn Kristjáns Loftssonar, framkvæmdastjóra Hvals hf., var von á bátunum til hafnar aðfaranótt laugardags og gerði hann ráð fyrir að þeir yrðu í höfn til sunnudagskvölds, en áformað er að senda hvalbátana út til veiða þá um kvöldið, enda útlit fyrir að veður verði skaplegt á miðunum á mánudag.

Það er hins vegar ljóst að hvalveiðivertíðin verður varla mikið lengri þetta árið, enda styttast nú dagarnir og veður og öldufar er orðið ótryggara og hentar síður til veiðanna.

Fjarlægðin á miðin suður af landinu er um 100 til 120 sjómílur frá Hvalfirði, en bátarnir ganga um 10 sjómílur á klukkustund, þannig að gert er ráð fyrir að þeir verði komnir á veiðislóðina í birtingu á mánudagsmorgun og hefji veiðarnar þegar skotljóst er orðið.

Það var nóg að gera í hvalstöðinni eldsnemma á fimmtudagsmorguninn þegar blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins voru þar í heimsókn, eins og meðfylgjandi myndir bera með sér, og fumlaus handtök starfsmanna Hvals leyndu sér ekki. Gengið var hratt og örugglega til verks, hvalurinn limaður sundur og afurðunum, kjöti og spiki, komið í hús til vinnslu og síðan komið fyrir í frystigeymslum Hvals. Það tekur eina og hálfa til tvær klukkustundir að gera að hvalnum á planinu og koma kjöti og spiki í hús. Langreyður er þó engin smásmíði, á bilinu 60 til 63 fet að lengd að jafnaði. Þegar hvalurinn hefur verið limaður sundur er planið spúlað og gert klárt fyrir næsta hval.

Hjá Hval starfa alls um 150 manns á vertíðinni. Þar af eru um 100 við störf í Hvalfirði, 13 eru á hvorum bátanna og um 25 vinna í starfsstöð fyrirtækisins í Hafnarfirði.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson