Einar E. Sæmundsen fæddist 5. mars 1941. Hann lést 15. september 2023.

Útför hans var gerð 27. september 2023.

Einar E. Sæmundsen frændi minn lést 15. september síðastliðinn og langar mig að minnast hans fáum orðum. Einar, sem alltaf var kallaður Bússi, var elstur í frændsystkinahópnum sem ólst upp saman á Nýbýlavegi 3 og 5 eftir að við fluttum í Kópavog frá Grettisgötu 67. Loftur húsasmíðameistari, faðir minn, byggði tvö hús fyrir fjölskyldurnar, en lést langt um aldur fram árið 1954. Nú tók við erfiður tími, en amma Guðrún flutti til okkar og hélt heimili með mömmu Dúnu, okkur bræðrum, mér, Einari og Yngva, ásamt frænda okkar Þorsteini Valdimarssyni sem bjó á efri hæðinni. Í hinu húsinu bjó móðurbróðir minn Einar G.E. Sæmundsen og kona hans Sigríður Vilhjálmsdóttir með börnum sínum Bússa, Óla, Villa og Diddu. Fjölskyldurnar voru einstaklega samheldnar og með útsjónarsemi og fyrirhyggju ólumst við upp í öruggu umhverfi þar sem allir lögðust á eitt um að hjálpast að. Bússi var elstur og foringi í hópnum og með sinni hógværð og látlausri framkomu náði hann að halda hópnum saman í skylduverkum og leik.

Það urðu kaflaskil þegar við elstu strákarnir héldum utan til náms, fyrst Bússi í garðyrkjunám og Óli í skógfræðinám í Noregi. 1967 stundaði Bússi landslagsarkitektanám í Kaupmannahöfn og bjó þar með Helgu og nýfæddum Einari Ásgeiri en ég var kominn til Jótlands í skógfræðinám. Við héldum sambandi og fór ég nokkrum sinnum til Kaupmannahafnar en alltaf var tekið vel á móti mér á þeirra heimili.

Fluttur heim til Íslands átti Bússi mikinn þátt í baráttunni um Fossvogsdalinn þegar til stóð að leggja hann undir hraðbraut, en með fagmannlegri úttektarvinnu og öflugum baráttuvilja tókst að koma í veg fyrir þau áform.

Önnur kaflaskil urðu í lífi fjölskyldnanna í kjölfar Vestmannaeyjagossins þegar landið í Fossvogsdalnum var skipulagt fyrir íbúðabyggð. Þarna verður til hugtakið „Torfan“ þegar Bússi, Helga, Didda, Óli K., Óli, Gurrý, Einar og María byggja hvert sitt hús neðan við gömlu húsin og upp vex ný kynslóð, alls 17 börn í nágrenni við ömmurnar. Það var ekki síst Bússa að þakka að „Torfusamtök“ fjölskyldunnar urðu jafn öflug og raun ber vitni.

Bússi stofnaði ásamt Yngva bróður og fleirum arkitektastofuna Landmótun sem á fáum árum varð afkastamikil á vettvangi skipulagsgerðar sveitarfélaga, ríkis og einstaklinga.

Á seinni árum var Bússi duglegur í grúski varðandi sögu ættarinnar og fjölskyldunnar og náði að kalla okkur saman til að kynna þetta efni bæði í máli og myndum. Með hans leiðsögn var farið í vettvangsferðir á slóðir forfeðranna í gömlu Reykjavík og haldið upp á 100 ára afmæli ömmu Dúnu og afa Lofts. Fyrir allt þetta vil ég þakka mínum kæra frænda því þetta hefur aukið samheldni fjölskyldunnar og náð að kynna söguna fyrir ungu kynslóðinni.

Bússi og Helga mættu alltaf á stórviðburði okkar fjölskyldu, allt frá brúðkaupi okkar Beritar í Noregi og þau voru fyrst til að þiggja boð í giftingarveislu Árna og Sögu okkar á Stóra-Sandfelli nú í ágúst, en snögg veikindi Bússa komu í veg fyrir að þau gætu mætt. Við Berit og fjölskyldan þökkum Bússa væntumþykju alla tíð.

Jón Loftsson.

Góður vinur, starfsbróðir og samstarfsmaður hefur nú kvatt okkur að loknum farsælum æviferli. Einar hefur sem landslagsarkitekt skilað miklu til samfélagsins, spor hans eru varanleg og liggja víða. Einar var einn fyrsti samstarfsmaður minn þegar ég árið 1963 hóf minn feril á Íslandi. Hann var þá enn í sínum námsferli, áhugasamur og hæfileikaríkur. Einar var viðloðandi teiknistofu mína fyrstu árin, hóf svo eigin rekstur, vann sem garðyrkjustjóri Kópavogs og stofnaði að lokum Landmótun, öfluga skipulags- og hönnunarstofu, sem þekkt er af verkum sínum. Sum stór í sniðum, eins og hálendisskipulag og perlur eins og útsýnispallur á Bolafjalli, svo eitthvað sé nefnt. Ég veit að starfsferli Einars verða örugglega gerð betri skil af öðrum.

Áhugasvið Einars var mjög vítt og ekki er hægt annað en dást að elju hans og dugnaði. Hátt ber hið mikla ritverk hans „Að búa til ofurlítinn skemmtigarð, íslensk garðsaga – landslagsarkitektúr til gagns og prýði“ (Hið ísl. bókmenntafélag, 2018). Bókin lýsir vel hæfileikum Einars til að sökkva sér djúpt í verkefnin. Við áttum mörg sameiginleg áhugamál, m.a. myndlist. Hjá mér á borðinu er gullfalleg vatnslitamynd eftir Einar sem færir hann nær mér á þessari stundu.

Fyrst og fremst vil ég þakka fyrir góða vináttu og uppörvandi samskipti gegnum árin. Árið 1978 vorum við fimm landslagsarkitektar á Íslandi sem stofnuðu Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA. Við héldum hópinn saman ásamt nánustu vinum. Nú erum við Auður Sveinsdóttir ein eftir af stofnfélögunum FÍLA. Við söknum Einars, en lífið heldur áfram. Við hlökkum til að hittast aftur með Helgu okkar í hópnum.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Reynir Vilhjálmsson.

Áratuga vinátta. Minningar um ótal atvik og atburði í okkar löngu vináttu og baráttu fyrir að byggja upp, efla og styrkja landslagsarkitektúr á Íslandi. Samfélaginu til góða.

Bæði vorum við tiltölulega nýkomin frá námi og störfum erlendis. Uppfull af nýjum áherslum og stefnum í skipulagi, náttúruvernd, landslagsarkitektúr, samspili manns og náttúru, sögu og menningu þjóðar. Það ólgaði í okkur áhugi og þörfin á að miðla þessu áfram hér á Íslandi. Skapa vettvang, gera fagið okkar sýnilegt og vera til gagns – vangaveltur um nafnið, hugtakið „landslag“ sem fagheiti var framandi því landslag var eitthvað ósnertanlegt og huglægt …
„hvað vildu líka kálarkitektar uppá dekk“! Með stofnun FÍLA ásamt reynsluboltunum og fagmönnunum Reyni Vilhjálmssyni og Jóni H. Björnssyni sýndi Einar strax hve mikill fagmaður og öflugur verkstjóri hann var, lét ekki staðar numið heldur hélt ótrauður áfram og hvatti okkur. Auk þess hafði landslagsarkitektinn Einar einnig átt sæti í Náttúruverndarráði og í stjórn Landverndar.

Við nutum góðs af veru okkar erlendis hvort í sínu landi og náðum að byggja upp gefandi og mikilvæg tengsl við kollega þaðan, sem studdu okkur, gáfu góð ráð og voru tilbúin að styrkja okkur og hið unga félag FÍLA. Í þeim samskiptum kom Einar sterkur inn.

Mörg spaugileg atvik rifjast líka upp þegar horft er yfir farinn veg. Sem dæmi má nefna þegar Einar lét sig hafa það að fara með Derek Lovejoy, þekktum breskum landslagsarkitekt og stjórnarmanni IFLA, í ferð austur fyrir fjall og gesturinn skildi ekkert í því að við landslagsarkitektar skyldum ekki umbylta Hellisheiðinni með gróðri – sá þar jafnvel fyrir sér stóran skrúðgarð.

Eða þegar garðyrkjustjóri Odense hélt fyrirlestur á Kjarvalsstöðum um nauðsyn þess að garðyrkjustjórar væru m.a. menntaðir landslagsarkitektar og missti slædsmyndabakkann sinn í gólfið. Einar bjargaði málum í rólegheitum; raðaði myndum einhvern veginn aftur í bakkann og hughreysti hinn danska vin okkar. Þannig var Einar; rólegur, fastur fyrir.

Öll okkar símtöl, nánast vikulega – skipulag, náttúruvernd, lögverndun starfsheitis, samskipti við aðrar starfsgreinar. Evrópski landslagssamningurinn, erlend samskipti, menntun, uppbygging náms, framtíð landslagsarkitektúrs á Íslandi. – Getum við gert eitthvað? Gerum eitthvað, tölum við þennan og hinn.

„Að búa til ofurlítinn skemmtigarð – Landslagsarkitektúr til gagns og prýði“ er titill þessa mikla ritverks um íslenska garðsögu og lýsir höfundinum, Einari E. Sæmundsen, afar vel. Hann var fræðimaður, hugsjónamaður, framsýnn, áhugasamur, hvetjandi, viðræðugóður, ákveðinn, fagmaður, listfengur, þrautseigur og hugsaði út fyrir boxið.

Það er margs að minnast eftir langa og góða vináttu. Ég mun sakna: „Nú verð ég að hringja í Einar,“ eða „Já, Einar hringdi og við erum að velta fyrir okkur …“

Látum minninguna um líf og störf Einars hvetja okkur áfram – ræktum garðinn okkar.

Auður Sveinsdóttir.

Kveðja frá FÍLA.

Landslagsarkitektar syrgja þessi dægrin fallinn félaga, okkar kæra Einar E. Sæmundsen sem lést 15. þessa mánaðar eftir stutt en erfið veikindi.

Einar nam sín fræði í landslagsarkitektúr við Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn og útskrifaðist hann árið 1972. Starfsferill Einars innan fagsins voru fimm ár á teiknistofu Reynis Vilhjálmssonar eftir heimkomu 1972, rekstur eigin teiknistofu 1977-1987, garðyrkjustjóri Kópavogs um sex ára skeið og að lokum teiknistofan Landmótun sf. sem hann stofnaði árið 1994 ásamt kollegum sínum Gísla Gíslasyni og Yngva Þór Loftssyni. Stofan er enn í fullum rekstri í höndum nýrra eigenda. Áður en Einar hóf nám í landslagsarkitektúr hafði hann lokið námi í KÍ árið 1961 og í garðyrkjufræðum í Danmörku og Noregi 1961-1964.

Einar var einn fimm stofnfélaga Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) árið 1978 og frá upphafi var hann ötull í starfi fyrir félagið. Hann átti frumkvæði að mörgum málum, sat í ótal nefndum og stóð að undirbúningi ráðstefna þar sem lögð var áhersla á fagið og þátttöku landslagsarkitekta. Hann var einnig mjög virkur í erlendu samstarfi og kynnti FÍLA og íslenskan landslagsarkitektúr á þeim vettvangi. Hann var tvívegis formaður FÍLA, árin 1980-82 og 2005-2008, og á aðalfundi félagins árið 2015 hlaut hann nafnbótina heiðursfélagi FÍLA. Einar hafði m.a. frumkvæði að því að láta þýða Evrópska landslagssamninginn (ELC) yfir á íslensku og vann ötullega að því að fá samninginn undirritaðan hér á Íslandi.

Garðsaga Íslands var Einari mjög hugleikin. Árið 2018 leit dagsins ljós bókin Að búa til ofurlítinn skemmtigarð og þá samglöddumst við félaga vorum, enda er bókin, sem telur tæpar 400 síður, afrakstur margra ára vinnu við heimildaöflun um garðsöguna hérlendis. Einar leiddi vinnu garðsöguhóps FÍLA við gerð og útgáfu greinargerðar um Garða – lifandi minjar í samstarfi við Minjastofnun, útgefin 2019.

Öll þau sem kynntust landslagsarkitektinum Einari E. urðu þess fljótt áskynja að þar var maður sem unni fagi sínu heitt og vildi framgang þess sem mestan. Kennarinn blundaði ávallt í Einari og hann kom t.d. að kennslu á umhverfisskipulagsbraut við LbhÍ á Hvanneyri þar sem hann gerði sitt til að fræða framtíðarlandslagsarkitekta og vísa þeim réttan veg í landslaginu.

FÍLA-félagar lúta höfði í dag og minnast vinar sem gott var að vera návistum við á gleðistund og líka þegar þurfti að ræða erfið mál í félaginu, t.d. þegar þurfti að bretta upp ermar og fá löggildingu á starfsheitinu landslagsarkitekt, þar barðist Einar þar til árangri var náð og við þökkum fyrir. Hann var með duglegri félagsmönnum að mæta á viðburði félagsins og hvetja kollega til góðra verka, félaginu og fagi til heilla. Fyrir það þökkum við af djúpri virðingu.

Kæru Helgu, Þorvaldi, Signýju, Sólrúnu og félaga okkar Einari Ásgeiri vottum við dýpstu samúð, megi ljúfar minningar um góðan mann sefa sárustu sorgina.

F.h. FÍLA,

Ómar Ingþórsson formaður.

Andlát Einars E. Sæmundsens landslagsarkitekts kom mér á óvart. Í mínum huga var hann enn á besta aldri og gat farið að horfa um öxl á mikið og vel heppnað ævistarf. Við kynntumst á áttunda áratugnum þegar náttúruvernd var að fá byr meðal almennings. Sama ár sem Einar útskrifaðist sem landslagsarkitekt í Kaupinhöfn 1972 efndi Þingvallanefnd undir forystu Eysteins Jónssonar til skipulagssamkeppni um Þingvelli. Sá sem þetta skrifar tók þátt í henni með nokkrum kunningjum. Við lögðum líklega fyrstir manna opinberlega til að miðstöð fyrir Þingvallaþjóðgarð yrði vestan Almannagjár skammt frá Hakinu, en Völlunum yrði þyrmt við frekari mannvirkjagerð. Síðar átti undirritaður sæti í Þingvallanefnd í tólf ár, 1980-1992. Það kom í hlut Einars ásamt Reyni Vilhjálmssyni sem sérfróðra starfsmanna á vegum Þingvallanefndar 1985-1988 að móta tillögu að aðalskipulagi fyrir þjóðgarðssvæðið, m.a. með það í huga að menningarmiðstöð þjóðgarðsins yrði vestan Almannagjár. Þetta starf fórst þeim vel úr hendi. Eftir almennar umræður og kynningu var staðfest vorið 1988 fyrsta formlega skipulagið fyrir Þingvallaþjóðgarð og næsta nágrenni. Það er til marks um gildi þessarar niðurstöðu, að margoft hafa síðan komið upp hugmyndir um byggingar niðri á Völlunum, en sem betur fer verið kveðnar í kútinn eftir nánari skoðun og umræðu.

Samstarfið í þriggja manna Þingvallanefnd þennan röska áratug með Heimi Steinssyni sem þjóðgarðsverði og úrvali sérfróðra er meðal ánægjulegustu verkefna sem undirritaður hefur komið að. Þar var Einar á réttum stað. Í framhaldi af þessum áfanga gerðist hann sjálfstætt starfandi landslagsarkitekt og styrkti stöðu þeirrar starfsgreinar m.a. með fyrirtækinu Landmótun.

Síðasta stórvirki Einars birtist árið 2018 með bókinni „Að búa til ofurlítinn skemmtigarð“ sem HÍB gaf út. Þar fengum við glæsilegt yfirlitsverk um sögu og þróun garðhönnunar hérlendis. Í samantektina lagði höfundurinn mikinn metnað og niðurstaðan er bæði einstaklega fróðlegt og fallegt rit.

Í skipulagi Þingvalla á Einar arkitekt gildan minnisvarða, sem ekki verður frá honum tekinn. Það kom síðar í hlut sonarins Einars sem þjóðgarðsvarðar að hlúa að minningunni um starf föður síns.

Samúðarkveðjur til allra aðstandenda.

Hjörleifur Guttormsson.

Farsælu og góðu lífi Einars E. Sæmundsen er lokið og það er með trega og söknuði sem þessar línur eru settar á blað til að minnast kærs vinar og samferðamanns í lífinu í 50 ár.

Frá því að við, hollsystur, lukum hjúkrunarnámi í mars '66 höfum við og makar okkar staðið þétt saman og notið skemmtilegra samverustunda. Og margar ferðirnar höfum við „holl '66“ farið saman, bæði innanlands og utan. Ekki hvarflaði það að okkur að ferðin til Akureyrar nú í vor yrði hinsta samvera okkar með Einari. Þar var hann, eins og venjulega, með sinn skemmtilega húmor, kátur og hress. Já, endalausar minningar leita á hugann, allar svo góðar og ljúfar.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg

og myndir horfinna daga

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Elsku Helga og fjölskylda. Við erum þátttakendur í sorg ykkar. Við geymum í huga okkar allar góðu og skemmtilegu samverustundirnar í návist ykkar og minnumst þeirra með þakklæti.

Við biðjum Einari blessunar á leið til nýrra heima og trúum því að hans bíði verkefni á æðri stigum. Hans er og verður sárt saknað.

Fyrir hönd holls '66,

Edda, Þórdís og Unnur Ragnars.

Við vorum 13 saman Íslendingar á Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn, Konunglegu akademíunni, á árunum í kringum 1970, stúdentauppreisnir, gengisfellingar og allt innifalið. Við komum með mismunandi undirbúning, vorum á ýmsum deildum skólans, áherslur einstaklingsbundnar, hefðbundinn arkitektúr, borgarskipulag, landslagsarkitektúr, iðnhönnun og húsgagnahönnun. Við höfðum mismunandi veganesti að heiman, stúdentspróf, trésmíði, garðyrkju og fjölbreytta reynslu. Einar E. Sæmundsen sem við kveðjum í dag kom bókstaflega úr skóginum, fæddur og uppalinn á Vöglum í Fnjóskadal fyrstu árin og með kennaramenntun hér heima og garðyrkjumenntun frá Danmörku og Noregi og var á skipulags- og landslagsdeildinni með áhrifamiklum kennurum á því sviði.

Á þessum árum myndaðist vinátta og samhugur innan þessa hóps, þó stundirnar væru kannski ekki margar þá voru þær vel nýttar og af ýmsu tagi. Skólaumhverfið okkar var danskt eins og það gerist best en það fór ekki á milli mála að hjá flestum var hugurinn heima og umræðan snerist oftar en ekki um það sem þar var að gerast og möguleikana sem þar væru frekar en í Danmörku eða öðrum löndum. Heima væri verk að vinna. Skrifaðar voru greinar og tekið þátt í samkeppnum þegar færi gafst.

Að loknu prófi 1972 hóf Einar fyrst störf hjá Reyni Vilhjálmssyni m.a. við stóru skipulagsverkefnin sem þá var unnið að, t.d. Seljahverfi í Breiðholti. Síðan sjálfstætt m.a að skipulagi þjóðgarðsins við Jökulsárgljúfur og með öðrum að skipulagi þjóðgarðsins á Þingvöllum og fleiri skipulagsverkefnum auk hefðbundinna hönnunarverkefna. Sem garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar um sex ára skeið vann hann m.a. að aðalskipulagi Kópavogs auk skipulags og hönnunar skólasvæða, útivistarsvæðisins við Kópavogslæk og umhverfis Kópavogskirkju. Hann stofnaði ásamt öðrum Landmótun sf. og vann þar m.a. að skipulagi miðhálendisins með góðum hópi félaga sinna, var lektor og síðar stundakennari við Landbúnaðarháskólann um nokkurra ára skeið.

Í mörg ár vann Einar öllum stundum sem gáfust að sögu íslenskrar garðahönnunar, landslagsarkitektúrs, að leita uppi og finna heimildir, teikningar, ljósmyndir og ná saman í eina heild í eina bók, Að búa til ofurlítinn skemmtigarð – íslensk garðsaga – landslagsarkitektúr til gagns og ánægju. Það er mikið fagnaðarefni að hann skyldi takast þetta verk á hendur og ljúka því með þessari glæsilegu bók, sem kom út 2018 og varðveitir sögu þess starfs hér heima sem hann gerði að sínu ævistarfi og var hans brennandi áhugamál.

Vináttan og samhugurinn sem mótaðist fyrir þessum mörgu árum hélst með þessum hópi eftir að heim var komið og hefur haldist alla tíð ekki síst vegna sameiningarafls Einars. Hann var sá sem hafði reiður á aðventuboðum og sumargrillum og öllu þar á milli, hélt utan um vináttuböndin, passaði að þau slitnuðu ekki og bundnar væru slaufur með reglulegu millibili. Við kveðjum Einar með djúpum söknuði og þakklæti fyrir vinarhug, samstarf og samveru margra áratuga og vottum Helgu og börnunum og fjölskyldum þeirra samúð okkar og samhug.

Árni, Björn, Dagný, Finnur, Guðbjörg, Guðni, Halldór, Hilmar, Stefán og Stefán Örn.

Ég kynntist Einari E. Sæmundsen árið 1979 þegar ég var í starfsnámi hjá Reyni Vilhjálmssyni. Þá var teiknistofa Reynis í Skipholti og deildi Einar með honum húsnæði. Það var lærdómsríkt að detta inn í heimilislegt andrúmsloft og átta sig á samstarfi landslagsarkitekta við arkitekta og verkfræðinga. Einar hafði árið áður stofnað Félag íslenskra landslagsarkitekta ásamt fjórum frumkvöðlum þessarar nýju starfsgreinar. Einar var mikill félagsvera og bar í brjósti metnað fyrir faginu og félaginu. Á þessum tímum sendibréfa hafði hann yfirsýn yfir vaxandi hóp námsmanna sem lögðu stund á nám í landslagsarkitektúr erlendis og gerði sér far um að vera í sambandi við okkur og upplýsa um félagið og tengsl við systurfélög á Norðurlöndum.

Í litlum hópi landslagsarkitekta þurfti að skipta með sér verkum í félagsstörfunum. Þegar horft er til baka var ótrúlega miklu áorkað samhliða brauðstritinu, svo sem að halda norræna ráðstefnu, sjónþing um starfsferil Reynis og kynna íslenska garðsögu á Ítalíu sem varð til þess að Skrúður í Dýrafirði hlaut virt verðlaun Carlo Scarpa árið 2013. Þarna var Einar ávallt á bak við tjöldin. Nú síðast í fyrra minnti hann kollega sína á aldarminningu Jóns H. Björnssonar frumkvöðuls í landslagsarkitektúr á Íslandi og úr varð myndarleg sýning um ævistarf Jóns. Einar talaði fyrir samstarfi í græna geiranum í heild sinni eins og skrúðgarðyrkjumeistara og garðplöntuframleiðenda. Um tímabil var blómlegt samstarf innan græna geirans, sem því miður hefur dvínað á liðnum árum.

Einar var lengst af sjálfstætt starfandi landslagsarkitekt, en var einnig um tíma garðyrkjustjóri Kópavogs. Og auðvitað stofnaði hann til samstarfs á landsvísu undir merkjum Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra. Einar var öflugur bakhjarl náms í umhverfisskipulagi (síðar landslagsarkitektúrs) við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og kenndi þar um tíma. Lengstum vann Einar þó með félögum sínum á Landmótun.

Ofan á allt tókst Einari líka að vera fræðimaður í þeim þröngu skorðum sem manni eru settar í fullu ráðgjafarstarfi. Hann hélt vel utan um garðsögu á Íslandi og áorkaði að skrifa yfirgripsmikið fræðirit sem kom út árið 2018 og ber heitið «Að búa til ofurlítinn skemmtigarð». En hann skrifaði líka eigin sögu með verkum sínum við skipulag og hönnun. Við eigum Einari mikið að þakka og ekki síst þátt hans í að móta daglegt umhverfi okkar í byggðu umhverfi og úti í náttúrunni. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Einari í gegnum fagið og félagslífið. Þrátt fyrir að vera í samkeppnisrekstri í litlu samfélagi þá höfum við alltaf getað unnið saman að hagsmunum fagsins þvert á daglegan rekstur og amstur.

Síðast en ekki síst þekkti ég Einar sem mikinn fjölskyldumann, sögumann og húmorista sem gaman var að spjalla við. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu Einars, eftirlifandi stofnfélaga FÍLA og félaga hans á Landmótun.

Þráinn Hauksson.

Nú kveðjum við vin okkar og samstarfsfélaga til margra ára, Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt. Einar var einn af fyrstu landslagsarkitektunum á Íslandi og brautryðjandi í faginu en hann útskrifaðist sem landslagsarkitekt frá Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1972. Hann var einn af stofnfélögum Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) 1978 og Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga (SAMGUS) 1992. Árið 1994 stofnaði hann ásamt fleirum teiknistofuna Landmótun í kringum Skipulag miðhálendis Íslands. Einar var stoltur af Landmótun, til merkis um það stóð hann fyrir útgáfu bókar um stofuna á 20 ára afmæli Landmótunar.

Starfsferill Einars spannar rúm 50 ár og verkefnin orðin ótalmörg. Flestir kannast við Bernhöftstorfuna í Reykjavík, Fossvogskirkjugarð, útsýnispalla við Dettifoss og lóð Háskólans í Reykjavík svo örfá dæmi séu nefnd. Einar var í forsvari fyrir hóp sem vann 1. verðlaun fyrir tillögu um Geysi í Haukadal árið 2014 og fylgdi því verkefni fram á síðasta dag.

Einar hafði óendalegan áhuga á sögunni, sérstaklega hvað varðar ræktun og gerð skrúðgarða. Hann kom þessari þekkingarleit sinni í veglega bók, „Að búa til ofurlítinn skemmtigarð“, sem kom út árið 2018. Einar hefur undanfarin ár verið í forsvari fyrir Garðsöguhóp FÍLA sem hefur unnið að verndun og friðun lifandi minja.

Einar hafði mikinn áhuga á samfélaginu og umhverfinu sem við lifum í. Hann taldi að við værum að hanna hversdagsumhverfi og ættum að gera vel. Hann hafði óslökkvandi áhuga á nýjum straumum og stefnum og var alltaf tilbúinn að tileinka sér nýungar – hvort sem væri hugmyndafræði eða tækni. Einar var duglegur að miðla reynslu og þekkingu. Hann hafði gaman af kennslu og mikla trú á nemendum sínum.

Allt til síðustu daga var Einar að sinna verkefnum, deila hugmyndum og veita okkur hér á stofunni innblástur og aðhald. Þó að verkefnum hans hefði fækkað á undanförnum árum, þá kom hann reglulega við og tók þátt í því sem var að gerast, alltaf til í spjall og vangaveltur. Það er erfitt að koma í orð þeirri tilfinningu að eiga ekki lengur von á því að hann kíki til okkar.

Um leið og við sendum aðstandendum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur þá þökkum við Einari fyrir samfylgdina. Takk fyrir innblásturinn, hugmyndirnar, gleðina, handleiðsluna og endalausa þekkingarleitina sem þú ýttir okkur út í. Takk fyrir allt sem þú lagðir fram í faginu okkar, við og samfélagið allt erum ríkari fyrir vikið.

F.h. Landmótunar,

Aðalheiður, Áslaug, Margrét,
Óskar og Þórhildur.

Fyrstu kynni okkar Einars voru þegar þau Helga komu í heimsókn í þjóðgarðinn í Skaftafelli sumarið 1979 með alla fjölskylduna og ég var starfandi landvörður. Þau hjón voru kornung með mikinn barnaskara; fjóra glókolla sem allir voru eins. Einar var á þessum árum fulltrúi í Náttúruverndarráði og að vinna að skipulagsmálum í öllum þjóðgörðum landsins. Kynnin héldu síðan áfram þegar ég fór í framhaldinu að starfa á skrifstofu Náttúruverndarráðs og kynntist í fyrsta sinn fagmanni sem bar þetta undarlega starfsheiti landslagsarkitekt. Einar á þannig sök á því að ég fór sjálfur til náms í landslagsarkitektúr 1988.

Þegar ég kem úr námi 1991 æxluðust mál þannig að ég fór að leigja vinnuaðstöðu með Einari og náfrænda hans Yngva Þór Loftssyni landslagsarkitekt á Skólavörðustíg 28. Einar hafði þá nýlega hætt störfum sem garðyrkjustjóri hjá Kópavogsbæ og hafið nýjan sólóferil. Við félagar unnum fljótlega saman eins og einn aðili sem leiddi til þess að við gengum formlega í eina sæng vorið 1994 og stofnuðum Landmótun ehf., teiknistofu landslagsarkitekta. Mikil vinna fór í að velja nafnið á félagið en málamiðlunin var að nafnið hefði skírskotun til grunnmenntunar stofnenda; landslagsarkitektúrs, landafræði og jarðfræði. Landmótun hefur síðan farnast einstaklega vel og jafnan verið í fremstu röð á sínu sviði. Fyrsta verkefni stofunnar var svæðisskipulag miðhálendis Íslands.

Einar var mikill fagmaður og gæddur fjölbreyttum hæfileikum, jafnvígur á skipulag og hönnun. Hann hafði mikið jafnaðargeð, eins og þeir frændur báðir, sem gat komið sér vel í önnum dagsins. Hann var mjög vinnusamur, grúskari og fræðimaður og óspar á að miðla þekkingu til annarra. Hann skilur eftir sig mikið og ómetanlegt ævistarf og ruddi brautina, ásamt örfáum öðrum, fyrir landslagsarkitektúr á Íslandi, fagheiti sem flestir þekkja í dag.

Einari er hér þökkuð löng og farsæl samfylgd í rúm 40 ár. Nú hafa glókollarnir hans náð góðum þroska, hver á sínu sviði, og þekkjast orðið í sundur. Við Gústa sendum Helgu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur á þessum tímamótum. Minning um góðan dreng lifir.

Gísli Gíslason.