Sigríður Hugrún Björnsdóttir fæddist 17. júní 1957. Hún lést 20. september 2023.

Útför Sigríðar fór fram 28. september 2023.

Lítið blóm óx á köldum mel. Lífið þar var stundum erfitt, en birti inn á milli. Litla blómið var harðgert og lifði af. Það fauk úr einum stað á annan leitandi að skjóli. Og hún fann sitt skjól. Litla blómið okkar hafði fest rætur. Og nú fór sólin að skína. Sigríður mín fann sér lífsförunaut sem reyndist henni afar vel. Þau áttu gott samband. Saman áttu þau sitt bú á Bústöðum. Einnig sáu þau um greiðasölu í Jökulsárgilinu fyrir ferðalanga í rafting-ferðum. Síðar fóru þau að framleiða heilsupúða, sem fóru víða. Þau voru búin að vinna vel og nú fór heilsan að gefa sig. Sigurbergur dó 2015, þá flutti Sigríður út á Krók. Þar festi hún ekki rætur, saknaði dalsins síns. Minningar fylgdu henni þaðan. Heilsuleysi sótti á og þar háði hún harða baráttu. Sigríður lést 20. september síðastliðinn.

Jóhanna Sigríður Sigurðardóttir frá Miklabæ þakkar Sigríði fyrir vináttu og tryggð.

Ég kveð litla blómið á melnum og þakka fyrir mig. Aðstandendur fá innilegar samúðarkveðjur.

Helga Bjarnadóttir
frá Frostastöðum.