Halldór Árnason fæddist 18. mars 1953. Hann lést 27. ágúst 2023.

Útför Halldórs fór fram 26. september 2023.

Ég kynntist Halldóri Árnasyni þegar ég hóf störf á fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins 1992, þar sem hann var skrifstofustjóri. Það var gott að starfa með Halldóri og kynnast eldmóði hans og krafti. Hann gerði miklar kröfur til sín og setti sig vel inn í öll þau verkefni sem hann tók sér fyrir hendur og leiddi umfangsmiklar breytingar á fjárlagagerð ríkisins. Má þar nefna stór skref sem tekin voru í að koma fjárlagagerð á rekstrargrunn, innleiðingu og gerð á nýjum hugbúnaði til að halda utan um fjárlagagerðina og síðast en ekki síst innleiðingu rammafjárlagagerðar. Allt hefur það staðist tímans tönn og er enn grunnurinn að fjárlagagerðinni, þó að hún hafi að sjálfsögðu þróast síðan og tekið breytingum. Það voru oft langir vinnudagar og unnið um kvöld og helgar og var ekki annað en hægt að dást að þrautseigju og einurð Halldórs. Undir forystu hans tókst að ná markverðum árangri í fjárstjórn ríkisins og áætlanagerð, sem var hluti af stærra verkefni undir formerkjum nýsköpunar í ríkisrekstri. Ég kynntist Halldóri vel og héldum við áfram sambandi eftir að hann hætti hjá fjármálaráðuneytinu og ég var farinn til annarra starfa. Gaman var að ræða við Halldór um málefni líðandi stundar, en hann hafði mikinn áhuga á efnahags- og þjóðfélagsmálum og voru umræðurnar oft fjörugar. Halldór var traustur og úrræðagóður og vílaði ekki fyrir sér að takast á við ný verkefni eins og sást af krafti hans og áhuga á öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem hann tók sér fyrir hendur. Hafði hann sterkar taugar til heimabæjar síns, Stykkishólms. Kom það vel fram þegar við hittumst hve annt honum var um að stuðla að atvinnuuppbyggingu þar og að leggja sitt af mörkum í þeim efnum. Þó að efnahagsmál á víðum grunni hafi einkennt umræðurnar kom einnig fram hve stoltur hann var af börnum sínum og hve mikill fjölskyldumaður hann var. Ég var heppinn að kynnast Halldóri og fá að njóta mannkosta hans bæði í leik og starfi. Blessuð sé minning hans.

Ég sendi Önnu Björgu og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólafur Hjálmarsson hagfræðingur.

Ég á Halldóri Árnasyni mikið að þakka. Halldór lét mig trúa að ég væri með leiðtogahæfileika og saman skipulögðum við starf Drengjakórs Reykjavíkur ásamt öðru góðu fólki. Halldór hafði mikinn metnað fyrir DKR og utanlandsferðirnar sem við fórum saman í voru sambland af landkynningu og skemmtun fyrir unga drengi og okkur sem skipulögðum ferðirnar. Hann var fullkomin blanda af skipulögðum og formföstum einstaklingi og hjartahlýjum fjörkálfi. Halldór vissi, held ég, hvað ég átti honum mikið að þakka og hvað mér þótti vænt um hann. Hann fylgdist vel með mér í námi og síðar í starfi og hvatti mig til dáða. Halldór sýndi mér að hann væri stoltur af mér og ég er þakklát fyrir að hafa verið hans lærlingur í stjórn Drengjakórs Reykjavíkur. Takk fyrir að hafa gefið mér vettvang til að efla mig og hugmynd um að ég gæti gert hvað sem er. Takk, elsku Halldór.

Ólöf Breiðfjörð.

Í dag kveðjum við Halldór Árnason sem kallaður var burt allt of fljótt frá fjölskyldu sinni og vinum. Blessuð sé minning hans.

Ég kynntist Halldóri þegar hann tók til starfa fyrir Hafnarfjarðarbæ sem fjármálastjóri. Bæði vorum við að byrja störf á nýjum vettvangi. Alltaf hafði ég á tilfinningunni að það væri alveg sama hvaða verkefni Halldór fengi í hendurnar, hann leysti þau á skjótan og farsælan hátt. Vegna framgöngu Halldórs í starfi fékk ég óbilandi traust á honum.

Hann reyndist alltaf tilbúinn til að aðstoða ef á þurfti að halda. Ég naut einnig aðstoðar hans í störfum hjá Íslensku menntasamtökunum. Á síðasta ári hóf hann að skipuleggja ferð á slóðir Vestur-Íslendinga ásamt Almari Grímssyni.

Báðir þessir fararstjórar höfðu um árabil sinnt stjórnunarstörfum til styrktar tengslum Íslendinga við Vesturheim. Naut ferðahópurinn góðs af tengslum þeirra við Vestur-Íslendingana. Ferðin var skipulögð fyrir eigendur Annríkis og þjóðbúningahóps á þeirra vegum, þar sem ég var þátttakandi. Allir helstu staðir meðal Vestur-Íslendinga voru heimsóttir. Þjóðbúningahópurinn tók m.a. þátt í tveimur skrúðgöngum á Íslendingadegi í Mountain og Gimli í byrjun ágúst sl.

Fundur var haldinn í vor sem var seinni undirbúningsfundurinn fyrir ferðina og þá hittist hópurinn í Annríki ásamt fararstjórum okkar. Ég vissi ekki af veikindum Halldórs og gerði mér ekki grein fyrir alvarleika þeirra, heldur talaði um að ég hlakkaði til samverustunda með þeim hjónum. Það var því mikið áfall að heyra af því að þau gátu ekki komið með vegna alvarlegra veikinda hans. Við þökkum Halldóri fyrir hans framlag við undirbúning og skipulag þessarar ferðar fyrir okkur sem var ógleymanleg í alla staði. Þegar við komum heim frá Kanada og Bandaríkjunum var Halldór því miður lagður af stað í sína hinstu ferð. Ég kveð góðan vin. Megi Guð styrkja Önnu Björgu og fjölskyldu við fráfall elskulegs eiginmanns og fjölskylduföður.

Steinunn Guðnadóttir og fjölskylda.

Við keyrum inn í Stykkishólm. Það var komið kvöld og fegurð staðarins blasti við okkur. Staðurinn sem var Halldóri svo kær. Halldór tók á móti okkur með bros á vör og bauð okkur velkomin á sinn hlýja hátt. Við vorum svo velkomin og við skynjuðum það svo vel. Þetta var ein heimsókn af mörgum í Hólminn. Það var gott að heimsækja Halldór og Önnu Björgu. Hvort heldur í Hólminn eða á heimili þeirra á Seltjarnarnesi eða í Reykjavík. Gestrisni þeirra var einstök og voru þau höfðingjar heim að sækja.

Vinátta okkar nær áratugi aftur í tímann. Mikill samgangur var á milli fjölskyldna. Heimboð og ferðalög og deildum við gleði og sorg.

Halldór var umhyggjusamur um sína nánustu vini og jafnvel þegar hann var sem veikastur spurði hann um hagi okkar barna og barnabarna.

Hann var skipulagður og duglegur og virtist hafa fleiri tíma í sólarhringnum en við hin. Þrátt fyrir krefjandi vinnu og fjölmörg nefndarstörf og verkefni sem hann var í forsvari fyrir bitnaði það ekki á fjölskyldu eða vinum.

Halldór var mikill fjölskyldumaður og svo endalaust stoltur af Önnu sinni og börnum og barnabörnum. Halldór og Anna voru samhent og stigu lífsdansinn saman í takt og sést það á börnum þeirra, sem hafa erft þeirra góðu kosti.

Halldór var fróðleiksfús og duglegur að afla sér þekkingar og miðla til annarra. Hann hafði sterkar skoðanir sem hann átti auðvelt með að rökstyðja og oft var rökrætt. En skoðanir annarra voru alltaf virtar.

Halldór sýndi einstaklegt æðruleysi í veikindum sínum eins og hann gerði allt sitt líf. Hann kvaddi of snemma, hann átti svo mikið eftir. Eftir sitjum við sorgmædd en samt svo endalaus þakklát fyrir að hafa kynnst honum. Mest er þó sorg Önnu Bjargar og barna þeirra, Ingibjargar Jónu, Karenar Evu, Friðriks Árna, Mörtu Maríu og fjölskyldna þeirra.

Eva og Jakob.

Halldór Árnason hefur verið einn helsti máttarstólpi Þjóðræknisfélags Íslendinga undanfarin ár. Hann vann ötullega fyrir félagið, var harðduglegur, ósérhlífinn og samviskusamur.

Halldór var tengiliður forsætisráðuneytisins við afkomendur Vestur-Íslendinga á árunum 2003-2009, sat í stjórn Þjóðræknisfélagsins 2008-2018, þar af formaður 2011-2017. Hann var formaður stjórnar Snorrasjóðs 2010-2019 og formaður heiðursráðs Þjóðræknisfélagsins 2018-2021. Á Þjóðræknisþinginu 21. ágúst 2022 var Halldór gerður að heiðursfélaga ÞFÍ. Eftirlifandi eiginkona Halldórs, Anna Björg Eyjólfsdóttir, átti stóran þátt í starfi hans fyrir félagið. Þau ferðuðust víða um slóðir afkomenda Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku, en þangað stýrði hann mörgum ferðum fyrir ýmsa hópa. Þau opnuðu árlega heimili sitt fyrir ungum þátttakendum í Snorraverkefnunum og fjölmörgum öðrum ættingjum okkar og vinum frá Vesturheimi.

Við sem nú sitjum í stjórn félagsins minnumst hans með hlýju og þakklæti fyrir hans vel unnu störf við að rækta tengslin við Vesturheim um leið og við vottum fjölskyldu hans og vinum innilega samúð okkar.

F.h. Þjóðræknisfélags Íslendinga,

Hulda Karen Daníelsdóttir, fv. formaður.