„Sem leikari er maður alltaf að bera eitthvað á borð sem er persónulegt í þeirri von að það gæti snert einhvern, talað til einhvers; hvatt einhvern eða hjálpað,“ segir Aníta Briem, leikkona og handritshöfundur.
„Sem leikari er maður alltaf að bera eitthvað á borð sem er persónulegt í þeirri von að það gæti snert einhvern, talað til einhvers; hvatt einhvern eða hjálpað,“ segir Aníta Briem, leikkona og handritshöfundur. — Morgunblaðið/Ásdís
Það var erfitt, en ég vildi fara djúpt. Við erum umkringd glansmyndum af fólki í brúðkaupum og sólarlandaferðum þar sem allir eru að springa úr hamingju, alltaf.

Uppi í risi í fallegu húsi í Vesturbænum er gott að spjalla við kertaljós um lífið og listina við leikkonuna Anítu Briem. Hún kemur til dyranna eins og hún er klædd, í báðum merkingum orðatiltækisins. Aníta tekur brosandi á móti blaðamanni, ómáluð og ljósa hárið örlítið úfið. Það vantar þó ekkert upp á sjarmann hjá þessari ástsælu leikkonu og einlægnin í frásögn hennar skín í gegn. Aníta talar hispurslaust um anorexíu á unglingsárum, stjörnulífið í Hollywood og um lífið á Íslandi þar sem hún kann að meta litlu hlutina. Hún vill nú hvergi annars staðar vera og stjörnulífið vestanhafs heillar hana ekki, enda fylgi því dökkar hliðar.

Aníta hefur verið áberandi undanfarin ár í íslenskum kvikmyndum og sjónvarpi og er þakklát fyrir þær móttökur sem hún hefur fengið hér eftir að hafa búið erlendis hálfa ævina. Sjónvarpssería sem hún bæði skrifar og leikur í, Svo lengi sem við lifum, verður frumsýnd á Stöð 2 þann áttunda október. Handritið var sjö ár í vinnslu og nýtti Aníta þar eigin reynslu í bland við skáldskap. Þar kryfur hún ástina til mergjar og leggur öll sín spil á borðið.

Kom hingað með tvær ferðatöskur

Líf Anítu er kaflaskipt, kannski meira en hjá okkur hinum, en hún hefur búið lengi bæði í London og Los Angeles. Hún er nú komin aftur heim og er alsæl með þá ákvörðun.

„Það er æðislegt að búa í Vesturbænum en þegar ég kom heim að leika í fyrstu seríu af Ráðherranum var mér úthlutað þessari íbúð. Ég áttaði mig strax á því að ég hafði alltaf verið Vesturbæingur en vissi bara ekki af því,“ segir Aníta og hlær.

„Ég fékk svo aftur þessa íbúð þegar ég lék í Skjálfta og er hér enn,“ segir hún en hún kom til landsins árið 2020. Í Los Angeles skildi hún eftir hús í byggingu og frama í kvikmyndum en það var alltaf á dagskrá að fara aftur út.

„Ég kom hingað með tvær ferðatöskur og hef ekki farið til baka. Ég hef verið að átta mig á því hvað maður þarf í raun lítið,“ segir Aníta en hún býr með níu ára gamalli dóttur sinni í þessari notalegu íbúð, langt frá glaumi og glys Hollywood.

„Hér er frelsi og öryggi fyrir börn og ég elska þennan lífsstíl hér.”

Þurfti að fletta upp hverju orði

Við förum aðeins aftur í tímann. Aníta segist hafa vitað eitt sem barn; hún ætlaði ekki að vera listakona. Sem dóttir trommarans Gunnlaugs Briem og Ernu Þórarinsdóttur bakraddarsöngkonu stefndi hugur Anítu í allt annað en listir.

„Það gekk líka svona vel,“ segir hún og hlær.

„Það mótaði mig að alast upp í mikilli list,“ segir Aníta sem var einbirni til fjórtán ára aldurs. Þá eignaðist hún systurina Katrínu og fann til mikillar ábyrgðar.

„Katrín er manneskjan sem ég treysti best fyrir öllu, en hún var hluti af klippiteyminu í Svo lengi sem við lifum. Hún er með háskólagráðu í stærðfræði en er rosalega mikill listamaður.“

Þegar Aníta var sextán ára flutti fjölskyldan til London og ári síðar skildu foreldrar hennar. Aníta var þá í listamenntaskóla og stefndi á leiklistina, en hún hafði leikið í Þjóðleikhúsinu frá níu ára aldri; fyrst í hlutverki Ídu í Emil í Kattholti.

„Börn vilja oft vera uppi á sviði til að fá athygli en ég vildi ganga úr skugga um það að ég væri að fara í leiklistina af réttum ástæðum. Ég skynjaði fljótt að það var svo og tók þá skarpa stefnu á leiklist, en mig langaði að læra í Bretlandi. Ég var fyrst í listamenntaskóla og undirbjó mig svo fyrir að sækja um í Royal Academy of Dramatic Art í London,“ segir Aníta, en þess má geta að gríðarlega erfitt er að komast inn í þann virta skóla.

„Ég þurfti að læra einræður eftir Shakespeare og ég komst ekki í gegnum eina setningu án þess að fletta upp hverju einasta orði! Ég þurfti að leggja verulega mikið á mig bara til að öðlast skilning á textanum; hvað þá til að geta flutt hann þannig að hann væri í flæði,“ segir Aníta.

„Mig óraði ekki fyrir að komast inn í þennan skóla í fyrstu tilraun. Sá Íslendingur sem var þarna á undan mér var Gunnar Eyjólfsson, einn af mínum lærimeisturum. Hann hafði verið þar hálfri öld fyrr og hjálpaði mér og var mjög stoltur af mér.“

Er svo hörð við sjálfa mig

Unglingsár Anítu voru ekki bara dans á rósum því hún veiktist af anorexíu fimmtán ára gömul, rétt áður en ævintýrin í Englandi hófust.

„Ég var nýbyrjuð í menntaskóla þegar ég var lögð inn á BUGL þar sem ég var í nokkra mánuði. Það stokkaði öllu upp og kannski af því ég lenti í svona alvarlegum veikindum þorði ég svo síðar að hugsa út fyrir kassann. Þetta er mjög erfiður sjúkdómur. Ég var einstaklega heppin að vera gripin strax,“ segir Aníta og segist oft hugsa um hvað hefði gerst ef hún hefði þurft að bíða í marga mánuði eftir innlögn.

Hefurðu hugsað út í hvað hafi verið rótin að veikindinum?

„Já, ég hef hugsað það mjög mikið. Mjög mörg persónueinkenni mín spiluðu inn í, eins og keppnisskap, járnagi og fullkomnunarárátta. Þegar þau einkenni fengu að beina athygli sinni á þetta olli það mér miklum skaða. En þessi sömu einkenni nota ég í leiklistinni; ég djöflast áfram og gefst ekki upp. Og ég er svo hörð við sjálfa mig og mjög oft er ég vond við sjálfa mig. En þessu fylgir mikið afl og kraftur og ég reyni nú að beina þessum krafti að einhverju jákvæðu og uppbyggilegu,“ segir Aníta og nefnir að upphafið að veikindunum hafi verið að kynnast stúlku sem var að kljást við anorexíu.

„Það kveikti á þessari hugmynd. En fyrir mig snerist það aldrei um að líta betur út og það er skrítið að segja það, en það var aldrei útlitstengt heldur árangurstengt. Ég uppgötvaði svo síðar að eina leiðin til að „vera bestur í anorexíu“ væri bara að deyja,“ segir hún og rifjar upp eina heimsókn sína og mömmu sinnar til sálfræðings.

„Hann sagði að ég væri á góðu róli og að það yrði í lagi með mig. Ég fór heim og var alveg eyðilögð því mér fannst ég svo ömurlegur anorexíusjúklingur. Ég teldist ekki með! En þegar ég var svo orðin það veik að ég var í raun nauðungarvistuð á spítala með næringu í æð kom yfir mig þvílíkur léttir. Mér fannst ég vera komin með verðlaunavott yfir hvað ég hefði staðið mig vel og fann að nú gæti ég hætt. Ég var búin að áorka einhverju; ég var rosalega flinkur anorexíusjúklingur,“ segir Aníta og segir ótrúlegt nú að hugsa til baka til þessara brengluðu hugsana.

„Ég komst í gegnum þetta með hjálp fjölskyldu minnar og alls heilbrigðisstarfsfólksins. Svo var gott fyrir mig að flytja til London og skipta um umhverfi. Það gaf mér leyfi til að enduruppgötva sjálfa mig. Ég hef ekki lent í því að detta aftur í þetta far því allur minn fókus fór í leiklistina. Ég setti leiklistina í fyrsta sæti og til þess þarf ég að vera heil.“

Hvernig hefur gengið, fyrir manneskju með fullkomnunaráráttu, að fá gagnrýni eða mistakast í lífinu?

„Ég er að verða betri í því með aldrinum og auknum þroska. Ég er mjög meðvituð í því að æfa mig í að sýna mér mildi.“

Vara en ekki manneskja

Árin í Hollywood segir Aníta hafa verið bæði ævintýraleg og lærdómsrík fyrir margar sakir.

„Ég var þarna í rosalega skrítnu og skökku umhverfi í Los Angeles og í iðnaðinum í Hollywood. Að vera ung kona þarna fyrir MeToo-byltinguna var hreinlega mannskaðandi, í hreinskilni sagt. Það meiddi sálina mikið,“ segir Aníta en hún var aðeins rúmlega tvítug þegar hún fór þangað fyrst.

„Það voru engin plön í raun að fara þangað þar sem ég var að gera alls konar skemmtilega hluti; ég var að leika á West End og í Þjóðleikhúsinu. En þá bauðst mér að leika í sjónvarpsseríunni The Evidence og síðar var mér boðið í prufur fyrir The Journey to the Center of the Earth og fékk það hlutverk. Þá var mér spýtt upp stigann; beint á efstu hæð, og allt í einu rigndi inn tölvupóstum frá lögfræðingum, fjölmiðlum, stílistum og umboðsmönnum. Þarna voru miklir peningar í húfi og stundum verður umhverfið brútalt þegar leikarinn er orðinn meiri vara en manneskja.“

Aníta ber Brendan Frasier vel söguna, en hann lék á móti Anítu í fyrrnefndri kvikmynd.

„Hann var yndislegur og var ákveðinn í að ég fengi hlutverkið, en hann var líka framleiðandinn. Þetta var ótrúlega mikið ævintýri! Þetta er alls ekki mynd sem ég hélt ég myndi finna mig í, en ég er stolt af þessari mynd og hún gekk rosalega vel,“ segir Aníta og segir tökurnar hafa verið ótrúlega skemmtilegar.

„En um leið og við kláruðum fór í gang mikil pressa um hvort ég yrði stjarna eða ekki. Það fannst mér mjög óþægilegt. Ég var dressuð upp af stílistum og sagt að mæta í kokteilboð en það er mér ekki eðlislægt því ég er mikill intróvert. Ég þurfti að fara þetta á hnefanum.“

Kunni ekki að „spila leikinn“

Aníta segist hafa fundið vel fyrir valdamismunun og misbeitingu valds á þessum árum.

„Ég fann mikið fyrir kynferðislegri áreitni og ef maður er endalaust að fá þau skilaboð þá er það stórkostlega niðurlægjandi,“ segir hún og útskýrir hvernig hlutirnir gengu fyrir sig.

„Ég var boðuð á fundi með karlkyns leikstjórum eða framleiðendum sem voru oft á hótelherbergjum eða hótelbörum. Mér var sagt að mæta klædd á ákveðinn hátt, undir því yfirskini að það væri vegna hlutverksins. Mér var kannski sagt að mæta í einhverju þröngu og þá gekk ég inn í aðstæður þar sem ég var óörygg og berskjölduð. Í sumum tilvikum vorum við ekkert að tala um verkefnið lengur, heldur var aðilinn, sem átti að verða yfirmaður minn, farinn að reyna við mig. Þegar yfirmenn þínir haga sér á þennan hátt er mikið valdamisræmi og misbeiting valds,“ segir Aníta og segist eitt sinn hafa átt að hitta frægan leikara á hótelherbergi en leið mjög illa yfir þeirri tilhugsun.

„Ég leitaði ráða hjá umboðsmanni og hann sagði hreint út við mig: „Svona virkar heimurinn.““

Fórstu að hitta hann?

„Nei. Ég fann að allt sem á undan var gengið, milljón smærri atriði, leiddi mig að þessari stundu. Í hvert skipti sem innsæið öskrar á þig að eitthvað sé ekki rétt, og þú hlærð að því eða sópar því undir teppið, skekkist normið. Innsæi mitt vissi alltaf að það væri eitthvað að en stóra og valdamikla fólkið sagði: „Svona er þetta bara. Þetta er leikurinn.“ Og ég heyrði oft að ég kynni ekki að spila leikinn,“ segir Aníta og segist meðal annars hafa hitt Harvey Weinstein nokkrum sinnum.

„Hann hrósaði mér í hástert fyrir frammistöðu mína í kvikmyndinni og vildi að ég myndi leika Brigitte Bardot, sem var aldrei að fara að gerast. Eftir að afbrot hans komu í ljós var ég mjög hugsi yfir því hvað hefði getað gerst ef hann hefði beðið mig að hitta sig uppi á hótelherbergi. Hvað ef það hefði gerst?“

Að treysta eigin innsæi

Eftir Hollywood-árin og uppgjörið sem átti sér stað við MeToo-byltinguna segist Aníta hafa verið í sárum en skrifin hafi hjálpað sér. Hún segist þó hafa verið lengi að finna sjálfstraustið í því að geta kallað sig handritshöfund.

„Þegar ég fór að skrifa fann ég hvað ég hafði lært mikið af að vera í þessari borg þar sem allt snýst um bíómyndir, alla daga, alltaf,“ segir Aníta og segist eftir reynsluna í Hollywood hafa gert sér grein fyrir hversu mikilvægt sé að fylgja innsæinu.

„Innsæið segir þér alltaf sannleikann. Þetta var ferðalagið mitt til að læra að treysta mínu innsæi. Þegar ég kom heim fann ég ótrúlega sterkt að hér vildi ég vera, hér vildi ég vinna og hér vildi ég ala upp barnið mitt. Ég var líka bara frekar hugrökk að taka þetta skref.“

Handritshöfundurinn Aníta telur nauðsynlegt að konur skrifi sögur því heimsmyndin sé mjög skökk.

„Í kvikmyndasögunni er allt sem við höfum verið að taka inn sem menningarlegan áttavita í okkar hversdagslega lífi níutíu prósent skrifað, leikstýrt og framleitt af karlmönnum og oftast með karlmenn í aðalhlutverkum. Hvaða áhrif hefur það ómeðvitað á okkur konur og hvaða skilaboð er verið að senda?“

Vonarsaga um ástina

Eftir heimkomuna fékk Aníta strax fjölmörg bitastæð hlutverk í íslenskum kvikmyndum og seríum, en hún hefur leikið í Skjálfta, Svari við bréfi Helgu, Berdreymi, Villibráð, Ráðherranum og Venjulegu fólki, svo dæmi séu tekin. Aníta segist ekki hafa átt von á svo góðum móttökum.

„Alls ekki, bara alls ekki. Þetta hefur verið ein mesta gjöf lífs míns hvernig iðnaðurinn hér tók mig í fangið og ég hef verið að takast á við djúpstæðari og hrárri sögur en ég var nokkurn tímann að gera í Ameríku. Það er allt öðruvísi að vinna í þessum evrópska menningarheimi og miklu meira krefjandi. Ég hef verið ótrúlega lánsöm og hef unnið með frábæru fólki,“ segir hún og sér ekki eftir að hafa flutt heim.

„Það er kannski aðeins erfiðara að sjá fyrir sér, en það sem snýr að listinni hefur verið þúsund sinnum gjöfulla.“

Talinu víkur að nýju sjónvarpsseríunni Svo lengi sem við lifum sem landsmenn fá að sjá á næstunni.

„Þættirnir fjalla um ástina en hugmyndin kviknaði þegar ég var á erfiðum stað í lífinu. Það komu upp í hugann stórar og erfiðar spurningar og ég byrjaði að skrifa í fyrstu persónu, eins og litla skáldsögu. Ég hafði áhuga á því af hverju fólk í langtímasamböndum lendir í miklum lægðum og dölum. Á þetta sér einhverjar útskýringar og get ég fundið einhver svör?“ spyr Aníta og segist hafa farið að grúska í alls kyns efni um hvað það er sem laðar fólk hvort að öðru og hvað gerist svo þegar allt breytist og ástin dvínar.

„Ein spurning leiddi svo að annarri og það eru margar spurningar sem ég er að leggja á borðið. Mín æðsta von er að fólk sem horfir á þættina taki upp samtal um eitthvað sem það hefur ekki haft nógu mikið hugrekki til að tala um áður,“ segir Aníta og segir að skrifin hafi verið ákveðin þerapía fyrir sig.

„Að skrifa var mín leið til að segja hluti upphátt, því þegar maður ber þá inni í sér þá verða þeir að einhverju svo stóru og erfiðu. En með því að segja hlutina minnka þeir og verða jafnvel að einhverju fallegu. Það var tilgangur minn og þó að sagan sé vissulega myrk á köflum, þá er þetta vonarsaga.“

Allir litirnir fallegir

Aníta stendur á tímamótum en hún og barnsfaðir hennar skildu í sumar. Hún viðurkennir að sitthvað í þáttunum sé sótt í eigin reynsluheim.

„Auðvitað er sjónvarpsserían mjög persónuleg en mikið er líka skáldskapur. Hún er ósegjanlega berskjaldandi og ég geng hér um húsið andvaka um nætur og hugsa um hvað ég hafi verið að hugsa,“ segir Aníta og hlær.

„En á hinn bóginn lifir maður í listinni og það er berskjaldandi. Sem leikari er maður alltaf að bera eitthvað á borð sem er persónulegt í þeirri von að það gæti snert einhvern, talað til einhvers; hvatt einhvern eða hjálpað,“ segir Aníta og segir það hafa verið heilandi fyrir sig að skrifa.

„Þráhyggjan fór að fleyta mér áfram og ég fór að eiga samtöl við alls konar fólk og komst að því að allir höfðu sína sögu og tengdu við þessar tilfinningar sem ég upplifði. Mér fannst það svo ótrúlega fallegt og það hvatti mig áfram við skrifin. Það var erfitt, en ég vildi fara djúpt. Við erum umkringd glansmyndum af fólki í brúðkaupum og sólarlandaferðum þar sem allir eru að springa úr hamingju, alltaf. Og þegar manni líður ekki þannig, þá er maður svo aleinn í heiminum. Mér finnst allir litirnir fallegir; líka þeir dökku og skítugu. Að ákveðnu leyti vildi ég heiðra það. Mér finnst ég ekki hafa skilið neitt eftir,“ segir Aníta og segist mjög stolt af verkinu. Þess má geta að Aníta var tilnefnd til Norrænu sjónvarpshandritaverðlaunanna fyrir handritið og segir hún það einn mesta heiður sem sér hafi hlotnast.

„Það var ótrúlegt. Ekkert annað hefur haft eins mikla merkingu fyrir mig.“

Þakklát fyrir að eldast og þroskast

Kominn er tími til að slá botninn í samtalið, en ekki er úr vegi að spyrja hvað fleira sé á döfinni hjá leikkonunni í litlu risíbúðinni í Vesturbænum.

„Ég og fyrrverandi maðurinn minn erum að vinna saman að sjónvarpsseríu sem er byggð á hugmynd eftir mig en hann skrifar. Serían heitir Fjörðurinn og er krimmasería með öðruvísi tvisti og ég leik í henni, en ég er núna í tökum í Ráðherranum 2,“ segir Aníta og segist ætla að passa upp á að hlúa vel að sér í vetur á milli taka.

„Það tekur svo á í svona tökutímabilum því maður fer oft inn í flóknar og erfiðar tilfinningar. Ég þarf að passa mig að hvíla mig inn á milli,“ segir Aníta.

„Eftir að hafa búið í kúltúrnum í Hollywood, þar sem það að eldast var fyrir konur eins og að vera með sjúkdóm, finn ég hvað ég er þakklát að eldast. Ég finn að ég er að þroskast og get tekist betur á við hluti. Allt sem maður gengur í gegnum þroskar mann og er mikil gjöf. Ég hef sankað að mér mikilli reynslu og nú kann ég meira,“ segir Aníta og segir mikilvægt að nýta alla reynslu til góðs.

„Öllu sem maður upplifir, og kannski sérstaklega því erfiða, getur maður umbreytt í eitthvað jákvætt.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir