Í Nýlistasafninu Listamennirnir Sigurður Ámundason, Hugo Llanes og safnstjórinn Sunna Ástþórsdóttir.
Í Nýlistasafninu Listamennirnir Sigurður Ámundason, Hugo Llanes og safnstjórinn Sunna Ástþórsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er síðasta sýningarhelgi gottfariðillailla í Nýlistasafninu. Þetta er samsýning fjögurra listamanna sem eru Anna Reutinger, Sigurður Ámundason, Brák Jónsdóttir og Hugo Llanes. Listamennirnir voru valdir úr stórum hópi umsækjenda í opnu ferli á síðasta ári

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Nú er síðasta sýningarhelgi gottfariðillailla í Nýlistasafninu. Þetta er samsýning fjögurra listamanna sem eru Anna Reutinger, Sigurður Ámundason, Brák Jónsdóttir og Hugo Llanes. Listamennirnir voru valdir úr stórum hópi umsækjenda í opnu ferli á síðasta ári. „Þeim var boðið að vinna í samvinnu að þessari sýningu og um leið hófst ákveðið ferli þar sem þau kynntust hvert öðru. Mitt hlutverk var að mestu leyti að búa til aðstæður fyrir samstarf og samtal þeirra á milli,“ segir Sunna Ástþórsdóttir safnstjóri. „Anna er búsett í Brussel en þau voru í miklum rafrænum samskiptum og fundu í gegnum samtalið snertifleti og áhugasvið sem þau gátu sameinast um við gerð sýningarinnar.

Sýningin heitir gottfariðillailla og er skapandi könnun á eðli samstarfs. Við þekkjum flest söguna um Jónas og hvalinn sem gleypti hann, en hún er oft notuð sem myndlíking um það þegar í öngstræti er komið og það virðist engin útleið. Sýningin staðsetur sig í maga hvalsins og tekur sér stöðu þeirra sem eru étnir í lífkerfinu í stað þeirra sem alltaf eru að éta aðra eða neyta. Listamennirnir vinna með stöðu mannsins í umhverfi sínu og eru alltaf með það í huga að það er á einhvern hátt óyfirstíganlegt fyrir okkur að laga allan þann skaða sem maðurinn hefur valdið í heiminum af því við erum alltaf að hugsa út frá okkur sjálfum. Verkin eru þó vissulega ólík og benda í ýmsar áttir innan rammans.“

Sama setningin aftur og aftur

Hugo Llanes er frá Mexíkó og býr hér og starfar. Hann vinnur aðallega með innsetningar, vídeóverk og nýmiðla og fjallar í verkum sínum oft um félagslegar aðstæður og vald.

Vídeóverk hans á sýningunni heita „Color of Moonshine 1 og 2“. „Þessi verk opinbera hversu einstaklingar eru uppteknir af sjálfum sér,“ segir hann. „Í hvoru vídeóverkinu fyrir sig sést kona segja sömu setninguna á ensku hvað eftir annað: „I am a fucking good person.“ Þessar konur vilja sannfæra bæði sjálfar sig og áhorfandann um að þær séu verulega góðar manneskjur, þær endurtaka sömu setninguna aftur og aftur og aftur og opinbera um leið eigið varnarleysi. Verkið setur á leikandi hátt fram spurningar um eðli þess að gera gott.

Svo er ég með stóra ljósainnsetningu með blómi sem ég hef gefið mennskt form. Á samfélagsmiðlum er hægt að nota filtera á margs konar hátt en ég vil sýna hvernig við þurfum að manngera allt, kannski svo við skiljum það betur.

Ég sýni líka ljósmynd af höndum sem halda á stórum hníf og tilfinningin sem skapast er að viðkomandi, sem ekki sést hvort er karl eða kona, vilji búta eitthvað í sundur.

Svo er verk þar sem samstarfskona mín Ronja breytti popplagi eftir Rihönnu. Textinn er pólitískur og fjallar meðal annars um mengun, innflytjendur og peninga.“

Kunnugleg andlit

Sigurður Ámundason sýnir fimm stórar teikningar af Hollywood-aukaleikurum sem eru ekki frægir en þó kunnugleg andlit. Þar má til dæmis nefna leikarann sem lék svo eftirminnilega afar þreytandi sölumann í Groundhog Day.

„Þessar teikningar spretta af skilningsleysi mínu á því af hverju fólk skapar portrett af frægu fólki eins og Marilyn Monroe og Bob Marley. Persónulega hef ég engan áhuga á að gera það en kvöld eitt var ég að horfa á kvikmynd og hugsaði þegar ég sá þar aukaleikara: Þessi leikari, ég kannast við hann! Ég fékk þá hugmynd að fjalla um í verki aukaleikara sem maður kannast við og eru hvítir miðaldra karlmenn með skalla. Það er skalli í fjölskyldu minni og ég er 37 ára og verð að horfast í augu við framtíð mína sem hvítur miðaldra karl. Allir þessir fimm leikarar eru mjög fjölhæfir og geta leikið venjulegan pabba en líka raðmorðingja.“

Sigurður sýnir einnig litla teikningu sem er DVD-kápa með texta bæði að framan og aftan. „Þarna eru stórleikararnir Angelina Jolie og Anthony Hopkins í hlutverki í mynd sem ég skáldaði sem er léleg vísindaskáldsögukvikmynd.

Þannig að á þessari sýningu eru Hollywood-stórleikararnir komnir í B-mynd og B-myndaleikararnir fá risastóra portrettmynd af sér.“

Skemmtileg óræðni

Anna Reutinger og Brák Jónsdóttir höfðu ekki tök á að vera á safninu þegar blaðamaður mætti þangað en Sunna tók að sér að lýsa verkum þeirra.

„Anna sýnir bútasaumsverk sem eru unnin úr fundnum textílefnum sem hún hefur litað sjálf með náttúrulegum efnum. Hún fékk að skyggnast í skissubók Sigurðar Ámundasonar og útsaumurinn á teppum hennar byggist á teikningum frá Sigurði í bland við hennar eigin.

Verkin eru femínísk og formin vísa í sköp kvenna eða eru listfræðileg og söguleg vísun í sárin á líkama Krists sem í dag eru líka tengd við hinseginleika.“

Brák Jónsdóttir sýnir skúlptúra á sýningunni. „Verkin á sýningunni spretta upp úr þessu samtali um hvaða heim við erum að skilja eftir okkur,“ segir Sunna. „Fyrir mér eru skúlptúrar Brákar bæði steingervingar sem geta verið útdauðar dýrategundir, leifar þar sem nýjar lífverur geta nærst og dafnað, en vísa líka á sama tíma í eitthvað sem er mjög framúrstefnulegt.

Þarna er þessi skemmtilega óræðni í því hvort verkin vísa aftur í tímann, í einhvers konar rústir eða fornminjar, eða einhvers konar vísindaskáldskap, framúrstefnuleg farartæki, tækniframfarir eða von um annars konar líf í framtíðinni. Verkin eru beingrá á litinn og vísa í dauða en þau roðna líka, sem sýnir ákveðið lífsmark. Líf sem sprettur upp úr dauðanum.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir