Tekur áhættu Reimleikar í Feneyjum er að mati rýnis besta Poirot-myndin undir leikstjórn Kenneths Branagh.
Tekur áhættu Reimleikar í Feneyjum er að mati rýnis besta Poirot-myndin undir leikstjórn Kenneths Branagh.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin A Haunting in Venice / Reimleikar í Feneyjum ★★★·· Leikstjórn: Kenneth Branagh. Handrit: Michael Green. Aðalleikarar: Kenneth Branagh, Tina Fey, Kelly Reilly, Michelle Yeoh, Jamie Dornan, Riccardo Scamarcio, Kyle Allen og Jude Hill. 2023. Bandaríkin, Bretland og Ítalía. 93 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Belgíski rannsóknarlögreglumaðurinn Hercules Poirot og fræga yfirvaraskeggið mæta aftur til leiks í nýrri mynd, A Haunting in Venice eða Reimleikar í Feneyjum, sem er byggð á skáldsögu Agöthu Christie, Hallowe'en Party, frá 1969. Kenneth Branagh leikstýrir og leikur aðalhlutverkið líkt og fyrri endurgerðunum Dauðanum á Níl (2022) og Morðinu í Austurlandahraðlestinni (2017) sem báðar eru byggðar á skáldsögum eftir Agöthu Christie. Undirrituð man hins vegar alltaf bara eftir Kenneth Branagh í hlutverki vonlausa galdramannsins í bleiku jakkafötunum, Gilderoy Lockhart, í Harry Potter og leyniklefanum (Chris Columbus, 2002). Kamp húmorinn virðist fylgja Branagh en Lockhart og Poirot eru báðir hallærislega fyndnir.

Það er ekki vandræðalaust að yfirfæra Agöthu Christie í fjöldaafþreyingu á 21. öld og undanfarið hefur það reynst Kenneth Branagh erfitt en Reimleikar í Feneyjum er án efa besta Poirot-myndin sem hann hefur leikstýrt. Í síðustu mynd, Dauðanum á Níl, var óþarfa skjátíma eytt í baksögu Poirots sem bætti engu við heldur hægði aðeins á frásagnarframvindunni.

Sem betur fer er lögð áhersla á sakamálið en ekki Poirot í þessari mynd þó að áhorfendur fái aðeins að skyggnast inn í líf hans. Í Reimleikum í Feneyjum er Poirot til dæmis kominn á eftirlaun og er í eins konar sjálfskipaðri útlegð. Glæpasagnarithöfundur og gömul vinkona, þó að hann vilji ekki meina að hann eigi neina vini, Ariadne Oliver (Tina Fey) kemur í heimsókn og sannfærir hann um að mæta í hrekkjavökupartí á skyggnilýsingu. Poirot lætur freistast og langar að ljóstra upp um miðilinn Mrs. Reynolds (Michelle Yeoh), sem ætlar sér að ná sambandi við dóttur gestgjafans sem er nýlega fallin frá. Poirot áttar sig fljótlega á því að þetta mál er ekki eins auðleysanlegt og annað. Í hrekkjavökupartíinu er einstaklingur myrtur og Poirot neyðist til að taka skóna af hillunni og hefjast handa við að yfirheyra alla í húsinu.

Yngsti gesturinn er Leopold Ferrier sem er leikinn af barnaleikaranum Jude Hill sem lék sjálfan Branagh á yngri árum í glæsilegri mynd leikstjórans, Belfast (2022). Hill leikur hér allt annan karakter en í Belfast og sýnir þar með færni sína sem leikari þrátt fyrir ungan aldur. Jamie Dornan leikur svo niðurbrotinn föður Ferriers í Reimleikum í Feneyjum, Dr. Leslie Ferrier, en þeir léku líka feðga í Belfast. Það er greinilegt að sú reynsla hjálpaði þeim, því þeir eru mjög sannfærandi feðgar.

Það er erfitt að flokka Reimleika í Feneyjum eftir ákveðinni kvikmyndagrein. Augljósast væri að flokka hana sem glæpasagnamynd en í þetta skipti er að finna mörg einkenni úr hrollvekjunni sem undirrituð telur að hafi verið góð ákvörðun hjá leikstjóranum. Það býður til dæmis upp á mörg tækifæri í kvikmyndatökunni. Branagh og kvikmyndatökumaðurinn Haris Zambarloukos byrjuðu að vinna saman við myndina Sleuth (2007) og hafa nú unnið saman að níu kvikmyndum.

Branagh og Zambarloukos taka aðra stefnu með þessari mynd og leyfa sér að gera ýmsar tilraunir. Þeir nota til dæmis fiskiauga-linsur, leyfa rammanum að halla og sýna viðföngin frá mjög lágu og háu sjónarhorni, þ.e. allt verður mjög ýkt. Undirritaðri þykir hins vegar leiðinlegt að þeir hafi ekki skotið myndina upp á 70 mm filmu eins og síðustu tvær myndir. Í viðtali við Collider útskýrir Zambarloukos hins vegar af hverju þeir ákváðu að skjóta myndina með tökuvélinni Sony Venice 2. Samkvæmt honum vildu þeir skjóta myndina á stórri myndflögu sem væri næm fyrir ljósi og sú tökuvél hentaði best til að ná djúpum fókus í lítilli birtu. Sú ákvörðun er skiljanleg en þeir reyna alltaf að hafa eitthvað áhugavert í forgrunni, bakgrunni og mitt á milli, sem er kvikmyndatækni oft kennd við merka leikstjórann Orson Welles.

Reimleikar í Feneyjum er án efa besta Poirot-myndin undir leikstjórn Branaghs, hún er samt sem áður ekkert meistaraverk en það er ánægjulegt að sjá að hann þorir nú að taka meiri áhættu sem leikstjóri, sérstaklega með kvikmyndatökunni, og þær breytingar skila sér. Kvikmyndin er líka hryllileg sem er skemmtileg viðbót og inniheldur nokkur óþægileg atriði eins og klassíska speglaatriðið þar sem draugurinn birtist aðalleikaranum í speglinum. Það verður spennandi að sjá hver verða næstu skref hjá Branagh, kannski fær skeggið að fjúka í næstu mynd. Reimleikar í Feneyjum er einfaldlega mjög skemmtilega mynd og það er nú ekki verra að Hildur Guðnadóttur semur tólnlistina fyrir myndina.