Frá æfingu Röggsama Bambalína stýrir auðvitað hestvagninum, Kalli er farþegi og Gunni hangir aftan á.
Frá æfingu Röggsama Bambalína stýrir auðvitað hestvagninum, Kalli er farþegi og Gunni hangir aftan á. — Ljósmyndir/Ólafur Már Svavarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við í Gaflaraleikhúsinu erum miklir talsmenn íslenskrar barnamenningar og höfum gert mikið af því að gera leikgerðir upp úr íslenskum barnabókum

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Við í Gaflaraleikhúsinu erum miklir talsmenn íslenskrar barnamenningar og höfum gert mikið af því að gera leikgerðir upp úr íslenskum barnabókum. Það er eitthvað einstakt við það þegar bækur sem börnin okkar lesa lifna við á leiksviði. Að finna út úr því hvernig maður setur myndabók á svið hefur alveg verið smá áskorun,“ segir Björk Jakobsdóttir, leikstjóri barnaleikritsins Drottningin sem kunni allt nema …, sem Gaflaraleikhúsið frumsýnir í dag, sunnudag, í Bæjarbíói.

Leikritið er byggt á samnefndri myndabók eftir Gunnar Helgason og Rán Flygenring sem kom út árið 2021. Í leikritinu rétt eins og í bókinni segir frá Bambalínu drottningu sem fær boð um að opna leikskóla og þar sem drottningar fá mjög sjaldan að leika sér vill hún endilega þekkjast boðið. Hún og Kalli aðstoðarmaður ásamt hundinum Snúllu þurfa svolítið að drífa sig því opnunin á að vera klukkan tólf. Ná þau í tæka tíð þó að Bambalína þurfi að borða morgunmat og klæða sig og … gera við hestakerru? Alveg sjálf! Og hvað er höfundurinn að þvælast með í leikritinu? Og hvað er það sem hún kann ekki? Þannig hljómar kynning á leikritinu.

Að leyfa hlutum að fæðast

„Þetta hefur ekki verið hefðbundið samtalsdrifið leikrit þar sem handrit er fullbúið áður en æfingar hefjast,“ segir Björk. „Leikhópur, höfundar og listrænir stjórnendur hafa unnið verkið saman og við leyfum leik, tónlist, myndlist og leikmunum að kveikja hugmyndir út frá bókinni og þannig hefur verkið mótast. Útgangspunkturinn var „persónur lifna við í hinum teiknaða heimi“ en þegar unnið er á þennan máta verður maður svolítið að sleppa stjórninni og leyfa hlutum að fæðast. Við reynum bara að taka okkur ekki of alvarlega og finna barnið í okkur í þykjustuleik þar sem allt má,“ segir Björk og bætir við að það hafi verið gaman að heyra á forsýningu að unglingar og fullorðið fólk virtust ekkert skemmta sér minna en þau yngri.

„Vonandi höfum við náð markmiði okkar, sem var að búa til skemmtilega sýningu þar sem öll fjölskyldan getur upplifað skemmtilega leikhússtund saman og fengið stórkostlegu lögin hans Mána Svavars á heilann. Já og talandi um lögin hans Mána, þá má finna þau á Spotify undir titlinum Drottningin sem kunni allt nema … Þar eru lög bæði með og án söngs, sem fjölskyldan getur sungið saman áður en farið er í leikhúsið. Að þekkja lögin sem eru í verkinu er alltaf gaman fyrir leikhúsgesti. Þar fyrir utan eru þetta líka tilvalin lög til að syngja í leikskóla og á yngsta stigi grunnskóla.“

Húsnæði Gaflaraleikhússins í Hafnarfirði var nýlega selt til að rýma fyrir stækkun hótels í nágrenninu og fyrir vikið er Gaflaraleikhúsið í millibilsástandi að leita að nýjum lausnum.

„Við erum núna í samstarfi við Bæjarbíó og fáum að setja leikritið um Bambalínu upp þar. Bæjarbíó er dásamlegt upprunalegt gamalt bíó og leikhús, en býður ekki upp á neinar stórar leikmyndir. Eins er geymslupláss fyrir leikmynd ekkert og við þurftum að hugsa uppfærsluna út frá þeim aðstæðum. Nýjar áskoranir kalla á nýjar lausnir sem er bara frábært. Við erum að vinna með einfalt leikhús upp á gamla mátann og ég er mjög ánægð með umgjörðina. Bæjarbíó á nýjan og glæsilegan myndvarpa og við erum með bakgrunn sem Rán Flygenring teiknaði af sinni alkunnu snilld. Svo er Embla Vigfúsdóttir að vinna með mjög skemmtilega tvívíða teiknaða leikmynd sem er algerlega töfrandi, það kemur til dæmis heill hestvagn inn á svið.“

Vex ekki upp úr barninu

Í hlutverki Bambalínu er Halla Karen Guðjónsdóttir en Ásgrímur Gunnarsson leikur Kalla aðstoðarmann hennar. Þriðja persónan er leikin af bókarhöfundi, Gunnari Helgasyni.

„Aumingja Gunni lendir svolítið inni í eigin leikriti, en hann er kominn sem virðulegur höfundur í leikhúsið til að horfa á sýninguna. Hann slysast upp á svið og er með alla sýninguna, en gerir nokkrar tilraunir til að komast út aftur, sem gengur ekki vel. Bambalína og Kalli halda nefnilega að Gunni sé hundapassarinn. Af hverju halda þau það? Fólk verður bara að koma í leikhúsið til að sjá það,“ segir Björk og hlær.

„Ég verð að viðurkenna að sem leikstjóri vildi ég endilega hafa Gunna með. Hann er bara svo dásamlegur í að skemmta börnum, hann virðist aldrei vaxa upp úr barninu í sjálfum sér og prumpubröndurum. Ég sé börnin veltast um af hlátri, enda er húmorinn hjá Gunna á sama stað og hjá þeim. Eldri krakkar þekkja hann og bækurnar hans vel og mörg íslensk börn sofna á kvöldin með Gunna Helga í eyrunum, hann er orðinn þriðja foreldrið sem svæfir á mörgum heimilum,“ segir Björk og bætir við að þau hlakki til að bjóða fjölskyldum að koma í Bæjarbíó og sjá sýninguna um Bamablínu. „Þetta er skemmtun þar sem er mikið hlegið og krakkar fá að taka þátt.“

Frumsýning verður í Bæjarbíói í Hafnarfirði í dag kl. 15. Næstu sýningar eru 8. og 15. október kl. 15.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir