RÚV Stjórnendur Silfursins í vetur.
RÚV Stjórnendur Silfursins í vetur. — Ljósmynd/RÚV
Þegar RÚV gerir meiri háttar breytingar á dagskránni þá er þjóðinni ekki sama, fólkinu sem ber skylda til að greiða afnotagjaldið. Gjaldendur hafa margir hverjir látið í sér heyra eftir að Silfrið var lagt niður í þeirri mynd sem birtist landsmönnum …

Björn Jóhann Björnsson

Þegar RÚV gerir meiri háttar breytingar á dagskránni þá er þjóðinni ekki sama, fólkinu sem ber skylda til að greiða afnotagjaldið. Gjaldendur hafa margir hverjir látið í sér heyra eftir að Silfrið var lagt niður í þeirri mynd sem birtist landsmönnum á sunnudagsmorgni með Egil Helgason við stjórnvölinn. Egill er því miður fjarri góðu gamni en honum fórst vel úr hendi að stýra líflegum umræðum. Hyggst hann einbeita sér að Kiljunni og öðrum verkefnum.

Færsla Silfursins yfir á mánudagskvöld, eftir tíufréttir, hefur skiljanlega farið illa í fólk. Enda byrjaði nýr stjórnandi, Bergsteinn Sigurðsson, á að afsaka útsendingu þetta seint að kvöldi. Viðmælendur héldu haus í fyrsta þættinum og dottuðu ekki, en hætt er við að á þessum tíma dags mæti þeir þreyttir eftir langan vinnudag. Enn meiri hætta er á að áhorfendur sofni í sófanum áður en yfir lýkur.

Ljósvaki veit sem er að dagskrárstjórn á RÚV er í höndum reynslubolta og spáir því að fyrr en varir verði Silfrið komið í beina útsendingu á sunnudagsmorgnum. Þá verður aftur hægt að hafa það kósí, koma sér fyrir í sófanum í náttfötunum með rjúkandi kaffi í hendi, og jafnvel croissant. Hálfellefu á mánudagskvöldum er Ljósvaki farinn að hrjóta.