Á Kvennafrídaginn 24. október árið 1975 lögðu 90% allra íslenskra kvenna niður störf.
Á Kvennafrídaginn 24. október árið 1975 lögðu 90% allra íslenskra kvenna niður störf. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessar konur lifðu söguna og þurfa að segja sjálfar frá. Sagan yrði sögð á allt annan hátt eftir þeirra dag.

Kvikmyndagerðarkonurnar Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Pamela Hogan tóku höndum saman við gerð heimildarmyndarinnar um kvennafrídaginn, The Day Iceland Stood Still. Í myndinni eru viðtöl við kvenskörunga áttunda áratugarins sem lýsa aðdragandanum og deginum sjálfum á skemmtilegan hátt. Nokkrir karlmenn fá einnig orðið og má þar helst nefna Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins sem segir frá því hvernig hann fékk konur til að vinna um nóttina til þess að blaðið gæti komið út daginn eftir með flennistórum myndum frá þessum merka atburði. Án kvennanna hefði ekkert blað komið út.

Varð algjörlega heilluð

Við Hrafnhildur „hittum“ Pamelu í myndsímtali til Bandaríkjanna, en hún var að sjálfsögðu á leiðinni til landsins á frumsýninguna. Það er sannarlega stór stund því þær stöllur hafa verið sjö ár að vinna að þessari mynd. Auk fjölda viðtala má sjá gamlar ljósmyndir, myndbönd og eins eru teiknimyndir notaðar til að krydda sögurnar enn frekar.

Rekja má gerð myndarinnar til ferðalags til Íslands margt fyrir löngu.

„Við fjölskyldan komum hingað fyrir mörgum árum og keyrðum út um allt land. Eiginmaðurinn og sonurinn vildu sífellt vera að stoppa til að taka myndir þannig að á meðan las ég bók Lonely Planet um Ísland spjaldanna á milli. Alveg aftast í bókinni stóð að dag einn árið 1975 hefðu nánast allar konur á Íslandi tekið sér frí og að hér væri mestur jöfnuður kynjanna í heiminum. Ég varð algjörlega heilluð og vissi strax að ég yrði að gera heimildarmynd um þetta,“ segir Pamela. Stuttu síðar komst hún í kynni við Hrafnhildi og boltinn fór að rúlla.

„Ég kom hingað með teymi frá Bandaríkjunum og við byrjuðum að taka viðtöl og ég sá fljótlega að við værum með gott efni í höndunum. Þá byrjaði okkar sjö ára samstarf.“

Það er nú eða aldrei

„Mín fyrsta hugsun var hvernig konunum tókst að fá níu af hverjum tíu konum til að taka þátt í þessum degi. Það var mér ráðgáta hvernig hægt væri að skipuleggja svona um land allt á þessum tímum,“ segir Pamela og segist hafa lagt þessar spurningar fyrir viðmælendurna.

„Þá kynntumst við rauðsokkunum en þessi hreyfing var upp á sitt besta á þessum árum,“ segir hún og segir mjög nauðsynlegt að þessi saga fái að heyrast núna.

„Ef þessi saga er ekki sögð núna verður hún ekki sögð því fólkið er að eldast og nú þegar eru þrír af viðmælendum okkar látnir. Það er nú eða aldrei. Þessar konur lifðu söguna og þurfa að segja sjálfar frá. Sagan yrði sögð á allt annan hátt eftir þeirra dag,“ segir hún.

„Sagan verður einnig að heyrast vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í heiminum þar sem mikil afturför hefur orðið í kvennabaráttunni. Sjáðu hvað er að gerast í Bandaríkjunum með bann við fóstureyðingum,“ segir Pamela.

Sögulegur viðburður

Hrafnhildur leggur orð í belg.

„Pamela er með frábæra viðtalstækni og ég hef lært mikið af henni. Hún fann flesta viðmælendurna og það var nauðsynlegt að heyra í fólki sem áður hafði ekki tjáð sig um þennan dag. Mér fannst sérstaklega gaman að heyra viðhorf Styrmis sem sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því, fyrr en löngu síðar, hversu sögulegur þessi viðburður hafi í raun verið,“ segir Hrafnhildur.

„Ég spurði hann hvort Morgunblaðið hefði verið að fjalla um kvennahreyfinguna og hann svaraði því neitandi. Hann sagði að þau hefðu verið að fjalla um kalda stríðið,“ segir Pamela.

„Hann sá það seinna að blaðið hefði átt að sinna þessu betur. Sögur kvenna eru svo oft út undan.“

Með húmorinn að vopni

Hvað kom ykkur helst á óvart við gerð myndarinnar?

„Ég er dóttir femínista og baráttukonu sem fór fyrir hópi kvenna í Boston þegar ég var unglingur. Ég man hvað konur voru oft reiðar. Það sem kom mér á óvart við að heyra í íslensku konunum var hvað það var mikil gleði sem fylgdi þeim og hvað þær notuðu mikið húmor í sinni baráttu,“ segir Pamela.

„Ég held það sé nokkuð íslenskt að nota húmorinn sem vopn, ekki bara hnefann,“ segir Hrafnhildur.

„Það er alveg stórsnjallt,“ segir Pamela.

Blaðamaður hafði fengið forskot á sæluna og tjáði Pamelu að hann hefði fengið gæsahúð trekk í trekk við áhorfið.

„Það er ekkert sem þú gætir sagt sem gæti glatt mig meira!“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir