Vestri og Afturelding mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag á Laugardalsvelli. Það voru einhverjir sem gagnrýndu þetta nýja fyrirkomulag áður en mótið hófst en lagabreytingin um breytt mótahald í 1

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Vestri og Afturelding mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag á Laugardalsvelli.

Það voru einhverjir sem gagnrýndu þetta nýja fyrirkomulag áður en mótið hófst en lagabreytingin um breytt mótahald í 1. deildinni var samþykkt með miklum meirihluta á ársþingi KSÍ í Ólafssal í Hafnarfirði í febrúar 2022.

Vestri byrjaði tímabilið ekkert sérstaklega vel en liðið var með níu stig eftir fyrstu níu umferðirnar og sat í 9. sæti.

Á sama tíma fór Afturelding frábærlega af stað og var með átta stiga forskot á toppi deildarinnar eftir fyrstu 12 umferðirnar.

Ég sagði það við sjálfan mig í vikunni að þetta væri geggjað fyrirkomulag fyrir öll liðin í deildinni nema liðið sem endaði í 2. sætinu sem reyndist svo vera Afturelding. Ég hef skipt um skoðun.

Ég fór á blaðamannafund fyrir leikinn í höfuðstöðvum KSÍ á fimmtudaginn þar sem hitað var upp fyrir stórleikinn og þar var mikil stemning.

Þjálfarar og fyrirliðar liðanna sátu fyrir svörum sem og stuðningsmenn beggja liða.

Það verður fjölmennt á Laugardalsvelli í dag þegar leikurinn fer fram, bæði af Vestfirðingum og Mosfellingum, og stemningin verður án alls vafa frábær.

Þessi leikur lyftir svo sannarlega 1. deildinni á hærri stall og á sama tíma vekur hann mikinn áhuga á deildinni líka.

Vonandi sér knattspyrnuáhugafólk sér fært að mæta á Laugardalsvöll á eftir því þetta verður án alls vafa frábær skemmtun þar sem allt er undir hjá báðum liðum.