„Það er alltaf gaman að koma með splunkunýja bók og ég veit að ég á dyggan lesendahóp þarna úti,“ segir Sigrún.
„Það er alltaf gaman að koma með splunkunýja bók og ég veit að ég á dyggan lesendahóp þarna úti,“ segir Sigrún. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar kemur að því að auglýsa barnabækur þá eru kannski afar og ömmur öflugasti markhópurinn og miklar líkur á að þau viti og skilji hversu mikilvægar bækur eru börnum.

Barnabókahöfundurinn vinsæli Sigrún Eldjárn hefur sent frá sér nýja bók, Fjaðrafok í mýrinni, og þar er að finna sömu persónur og í bók hennar Ófreskjan í mýrinni sem kom út í fyrra og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.

„Bækurnar fjalla um uppátækjasama krakka. Einn þeirra er hann Móses sem á þrjár mömmur. Það er fremur óvenjulegt en þannig stendur á því að þrjár konur sem búa saman í bláu húsi í jaðri mýrarinnar fundu einn góðan veðurdag körfu á dyraþrepunum hjá sér og í henni var lítill drengur. Enginn virtist kannast við að eiga þetta barn svo þær tóku hann að sér. Síðan eru liðin allmörg ár og Móses kallar þær allar mömmur sínar. Þetta eru þær Una mamma, Dúa mamma og mamma Mía.

Svo eru það félagar hans, þríburarnir Stella, Bella og Elli, sem eru nýflutt með pabba sínum í gráa húsið við mýrina. Mamma þeirra flutti ekki með þeim en í nýju bókinni birtist hún eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þetta er ofurhress og frekar erfið kona sem stendur stöðugt í einhverjum leynilegum verkefnum og veldur usla í þessu samfélagi.

Pandóra er roskin kona sem á tvo hunda sem heita Grýla og Leppalúði og svo er þarna hann Þorfinnur furðudýrafræðingur. Ófreskjan í mýrinni kemur vitanlega líka við sögu. Hún er orðin að gæludýrinu hans Mósesar en hún telur reyndar að það sé hann sem er gæludýrið hennar. Inn í þetta persónugallerí fléttast svo lævís bókabílstjóri og síðast en ekki síst fuglamorðingi! Sagan hverfist um mýrina þar sem eru hættuleg fen og pyttir og ýmislegt dularfullt og merkilegt á seyði,“ segir Sigrún.

Hluti af þríleik

Vinnutitill bókarinnar var Blóðslettur í mýrinni en hún endaði sem Fjaðrafok í mýrinni. „Rauðar slettur eru gegnumgangandi í þessari bók. Það er ekki strax ljóst hvers eðlis þær eru, þær gætu verið tómatsósa eða jarðarberjasulta, nú eða þá blóð. Þessar slettur koma mikið við sögu og sömuleiðis fuglar og fuglamál. Þorfinn furðudýrafræðing, sem giftist Pandóru í fyrri bókinni, langar til að yrkja til hennar ástarljóð en gengur það afskaplega illa. Hvernig sem hann reynir tekst honum ekki að yrkja nógu fallegt ástarljóð handa Pandóru. En þegar hann heyrir fallegan fuglasöng er hann viss um að ef hann getur lært fuglamál þá verði enginn vandi fyrir hann að yrkja ljóð í stíl við hann. Hann finnur leiðbeiningar á netinu um það hvernig hægt sé að læra fuglamál og þær eru fengnar úr þjóðsögum Jóns Árnasonar. Útkoman verður athyglisverð!“

Eins og áður í bókum Sigrúnar er mikið af myndum í þessari nýju bók. „Þær skipta töluverðu máli. Í mínum huga eru þær nánast jafn mikilvægar og textinn.“

Sigrún er byrjuð á þriðju bókinni um sömu persónur. „Ég hef gert allnokkrar seríur sem eru þríleikir og þetta verður ein af þeim,“ segir hún.

Öflugasti markhópurinn

Hún er þrautþjálfaður barnabókahöfundur og teiknari og spurð hvort hún sjái miklar breytingar á starfi barnabókahöfunda á Íslandi segir hún: „Nú eru fleiri góðir íslenskir höfundar að skrifa og teikna barnabækur sem er mjög gott því börn þurfa margar bækur. Barn sem lýkur við skemmtilega bók vill strax finna aðra. En það verða fáir ríkir af því að stunda þessa iðju. Það er frekar ánægjan við vinnuna sem heldur fólki gangandi við barnabókaskrif en veraldlegur auður. Önnur breyting er auðvitað sú að barnabækur eru í auknum mæli í samkeppni við svo margt annað, alls konar tómstundastarf og tæki og tól. Börnin hafa ekki endalausan tíma frekar en annað fólk.

Mér finnst afskaplega mikilvægt að börn haldi áfram að lesa og að það sé lesið fyrir þau. Á þann hátt verða til fullorðnir lesendur og þannig höldum við íslenskunni vakandi. Þegar kemur að því að auglýsa barnabækur þá eru kannski afar og ömmur öflugasti markhópurinn og miklar líkur á að þau viti og skilji hversu mikilvægar bækur eru börnum. Þau eiga að vera dugleg að gauka bókum að börnum. Þótt það sé dásamlegt að kúra í friði í sófanum með spennandi bók þá skiptir líka máli að krakkar og fullorðnir lesi saman. Það eru nóg tækifæri til þess, krakkarnir lesa fyrir fullorðna fólkið til dæmis í heimalestri fyrir skólann og fullorðnir lesa fyrir börnin á rólegum samverustundum. Það er um að gera að byrja að lesa fyrir börn þegar þau eru mjög ung, jafnvel bara nýfædd, og fletta með þeim bókum og ég held að það sé reyndar töluvert gert af því. En bók er ekki bara bók, börn þurfa vandaðar og vel gerðar bækur. Þegar kemur að lestri barna er ég alls ekki svartsýn, ég held að það sé bara um að gera að vera bjartsýn og halda áfram að skrifa og teikna fleiri sögur.“

Sigrún í safninu

Sigrún, sem er dóttir Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar og forseta og Halldóru konu hans, ólst upp í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og er að skrifa bók um þá reynslu. „Mér er svo sem ekkert vel við að vera að tala um bækur sem ekki eru tilbúnar en þetta er verk sem mig hefur lengi langað til að vinna. Ef allt fer að óskum kemur sú bók út næsta vor og mun heita Sigrún í safninu. Í stuttu máli fjallar hún um líf mitt þegar ég átti heima í Þjóðminjasafninu, frá fæðingu til fjórtán ára aldurs. Þetta er sjálfsævisöguleg frásögn, textinn er ekki langur því bókin er skrifuð fyrir börn, bæði börn sem eru ennþá börn og fullorðna sem voru einhvern tíma börn. Þarna verður fullt af myndum, bæði gamlar ljósmyndir, teikningar og ýmislegt annað. Ég vona að einhverjum muni þykja hún skemmtileg!“

Spurð hvort sú bók verði sú persónulegasta sem hún hafi skrifað segir Sigrún: „Örugglega. Ég ætlaði reyndar aldrei að fara að skrifa neitt um sjálfa mig en svo áttaði ég mig á því að þó mér hafi þótt eðlilegt að búa á safni á meðan á því stóð þá er það nú líklega frekar óvenjulegt. En mér fannst það sjálfsagt því ég hafði ekki prófað neitt annað!

Það er alltaf gaman að koma með splunkunýja bók og ég veit að ég á dyggan lesendahóp þarna úti sem mun taka vel á móti Fjaðrafoki í mýrinni. Hóp sem auðvitað endurnýjast hratt og það er gaman að hugsa til þess að börnin sem lásu fyrstu bækurnar mínar eru nú löngu orðin fullorðin og eru að lesa nýjustu bækurnar fyrir börnin sín og jafnvel barnabörn. Mín fyrsta bók, Allt í plati, kom nefnilega út 1980 og þær hafa komið nánast árlega allar götur síðan, stundum fleiri en ein á ári. Ég er hvergi nærri hætt og hef hugsað mér að skrifa margar bækur í viðbót! Ég á nóg af hugmyndum í hugmyndabankanum mínum.“