Íslandsmeistari kvenna 2023 Olga Prudnykova varð Íslandsmeistari kvenna í fyrsta sinn um síðustu helgi. Hún fékk 4½ vinning úr fimm skákum. Guðlaug Þorsteinsdóttir og Lenka Ptacnikova urðu í 2.-3. sæti.
Íslandsmeistari kvenna 2023 Olga Prudnykova varð Íslandsmeistari kvenna í fyrsta sinn um síðustu helgi. Hún fékk 4½ vinning úr fimm skákum. Guðlaug Þorsteinsdóttir og Lenka Ptacnikova urðu í 2.-3. sæti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland varð í 2.-4. sæti á HM öldungasveita sem lauk í Norður-Makedóníu á fimmtudaginn, hlaut 14 stig af 18 mögulegum, hlaut 24 vinninga af 36 og var einu stigi á eftir sveit Bandaríkjanna sem vann gullið en það var að flestra dómi alls ekki sannfærandi sigur

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Ísland varð í 2.-4. sæti á HM öldungasveita sem lauk í Norður-Makedóníu á fimmtudaginn, hlaut 14 stig af 18 mögulegum, hlaut 24 vinninga af 36 og var einu stigi á eftir sveit Bandaríkjanna sem vann gullið en það var að flestra dómi alls ekki sannfærandi sigur. Englendingar, með Michael Adams í banastuði á 1. borði, fengu silfrið eftir 4:0-sigur á kínversku kvennasveitinni í lokaumferðinni.

Í viðureign Íslands við sigurvegara mótsins vann bandaríska liðið heppnissigur en allt mótið var íslenska liðið í fararbroddi. Sveitin var í borðaröð skipuð greinarhöfundi, Jóhanni Hjartarsyni, Margeiri Péturssyni, Jóni L. Árnasyni og Þresti Þórhallssyni. Þrír liðsmanna unnu til borðaverðlauna: Þröstur fékk gull sem fyrsti varamaður, Margeir silfur á 3. borði og Jón L. brons á 4. borði. Liðsstjóri var Jón Gunnar Jónsson.

Ein viðburðaríkasta skák mótsins var tefld gegn liði Austurríkis í 3. umferð. Jón L. Árnason þurfti þá að kljást við byrjun sem hann beitti á æskuárum sínum, kóngsbragð. Hann svaraði á gamalkunnan hátt og valdi leið Fischers sem, eftir fræga tapskák fyrir Boris Spasskí, fullyrti að hrekja mætti kóngsbragðið með leiknum 3. … d6. Og mikið leggja „kóngsbragðsmenn“ á sig fyrir fegurðina; Austurríkismaðurinn leyfði Jóni að koma sér upp völduðu frípeði á f3. Einhvern veginn hvarflaði það að manni að þetta peð ætti eftir að renna alla leið upp borð sem varð reyndin. En meðhöndlun Jóns í byrjun var ekki alveg nógu góð og hann var greinilega kominn í vandræði eftir 13 leiki. En þá hófst líka atburðarás sem varð hin besta skemmtun:

HM öldungasveita í N-Makedóníu 2013; 3. umferð:

Friedrich Woeber – Jón L. Árnason

Kóngsbragð

1. e4 e5 2. f4 exf4 3. Rf3 d6 4. d4 g5 6. g3 g4 6. Rh4 f3 7. Rc3 Bg7 8. Be3 Rf6 9. Dd2 Rc6 10. 0-0-0 d5 11. exd5 Rxd5 12. Bg5 Rce7 13. He1 Be6

Svartur er í vanda staddur eftir 14. Bc4! Þá gengur ekki 14. … c6 vegna 15. Rxd5 cxd5 16. Bb5+ Kf8 17. Rf5! – tvöföld leppun sem gerir út um taflið. Sennilega hefði Jón leikið 14. … Dd7 en eftir 15. Rxd5 Rxd5 16. Rf5! er hvíta staðan áfram erfið.

14. Rxd5 Dxd5 15. c4

Hvítur sá fram á mannsvinning með þessari leið en svartur fær alltaf þrjú peð og teflanlega stöðu.

15. … Dxd4 16. Dxd4 Bxd4 17. Bxe7 Bxb2+ 18. Kxb2 Kxe7 19. Rf5+ Kf6 20. Rd4 Hd7 21. h3?

Veikir einungis stöðuna kóngsmegin. Hann heldur betra tafli 21. He4 og –Bd3.

21. … h5 22. Kc3 c5 23. Rb5 h4! 24. Rd6

24. … Bc6

Lítur vel út en einfaldara var 24. … hxg3! 25. Re4+ Kf5 26. Rxg3 Kf4 o.s.frv.

25. hxg4 hxg3 26. g5+! Kg6!

Snarplega teflt hjá báðum. Jón var nú orðinn nokkuð tímanaumur.

27. Bd3+ f5 28. He6+?

28. Rxf5 var betra segja „vélarnar“.

28. … Kxg5 29. Rf7+ Kf4 30. Rxh8 g2 31. Hh5

31. … Be4?!

Þessi leikur vakti mikla kátínu í okkar hópi eftir skákina, aðallega þó vegna vegna þess að Jón slapp með skrekkinn og vann en leikurinn er skemmtilega bíræfinn þegar horft er til þess að svartur er hrók og manni undir. Jón átti betri leik, 31. … Hxh8! sem vinnur.

32. Bxe4 fxe4 33. Hf6?

Hann gat unnið með 33. Rg6+!, t.d. 33. … Kg4 ( eða 33. … Ke3 34. Hxe4+! Kxe4 35. He5 mát ) 34. Hee5! f2 35. Heg5+ Kf3 36. Hh3+! og 37. Hxg2.

33. … Ke3 34. Hg6 Hf8 35. Hg4 f2

– og hvítur gafst upp.