Guðjón L. Sigurðsson
Guðjón L. Sigurðsson
„… með tilheyrandi kostnaði sem getur numið milljónum til að fæða eina myndavél í staur.“

Guðjón L. Sigurðsson

Umræðan um orkuskipti hefur meira og minna snúist um rafbílavæðingu og landtengingu skipa en lítið hefur borið á umræðu um aðra kosti við orkuskiptin. LED-væðing lýsingar sparar mikla orku en þótt hún jafnist ekki á við rafbílavæðinguna og landtengingu skipa þá gæti hún séð 30 þúsund rafmagnsbílum fyrir orku og sparað yfir milljarð króna á ári í eldsneytiskaupum.

Fyrir liggur að það þarf að skipta út yfir 300 þúsund lömpum í atvinnuhúsnæði og opinberum byggingum á næstu árum vegna flúrperubannsins sem tók gildi í lok ágúst 2023. Kostnaður við það er á bilinu 10-15 milljarðar króna, sem gæti reynst mörgum, og þá sérstaklega sveitarfélögum, þungur baggi. Ætla mætti að það væri möguleiki fyrir þau að sækja um styrk frá Orkusjóði en þegar hlutverk hans er skoðað þá er hann einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Í Evrópu eru veittir styrkir fyrir útskipti lampa yfir í LED og víða í Evrópu hafa sveitarfélög sérstaklega verið hvött til að sækja um styrki vegna endurnýjunar lampa í skólum. Það er hægt að sækja um slíka styrki hjá Evrópusambandinu en til þess myndi aðkoma til dæmis samtaka sveitarfélaga eða samtaka iðnaðarins hjálpa mikið, því það eru gerðar miklar kröfur um faglega aðkomu styrkþega sem snúa bæði að fjárhagslegum og tæknilegum atriðum, um góða ljósvist og um gæði þess búnaðar sem á að nota.

Á ferð minni um höfuðborgarsvæðið undanfarið hef ég tekið eftir því að gatna- og lóðarlýsing er víða logandi um hábjartan dag og á knattspyrnuleik voru fljóðljósin einnig á fullu þrátt fyrir sól og hábjartan dag. Margir rekstraraðilar malda í móinn og segja að það sé vegna viðhalds, að stýringin kosti svo mikið eða vegna kröfu frá KSÍ. Hér þurfa menn að beita almennri skynsemi í stað þess að sóa orku og líftíma búnaðar.

Mörg sveitarfélög hafa verið dugleg að undanförnu að LED-væða gatnalýsinguna og spara með því um og yfir 70% orku í gatnalýsingarkerfinu. Það þýðir að til verður talsverð orka fyrir annan búnað í þeim 100 þúsund ljósastaurum sem til eru á landinu öllu. Hingað til hefur kerfið verið þannig uppbyggt að staurarnir verða rafmagnslausir þegar slökkt er á lömpunum og annar búnaður í staurum því orðið rafmagnslaus um leið. Þetta hefur verið leyst með því að setja upp sólarsellur í staura eða fá heimtaug frá veitufyrirtækjum sem gefur fulla orku allan sólarhringinn með tilheyrandi kostnaði sem getur numið milljónum til að fæða eina myndavél í staur. Þetta er hægt að leysa á auðveldan hátt og með litlum tilkostnaði með því að breyta tengingum í kerfinu þannig að það verði bæði fast og rofið rafmagn í öllum staurum og nýta þannig orkuna og innviðina sem fyrir hendi eru mun betur. Nokkur sveitarfélög eru þegar farin að nýta sér þetta og tengja nú ærslabelgi, strætóskýli og snjóbræðsludælur við staurakerfið og sleppa við að grafa langar leiðir fyrir lögnum að heimtaugarskápum veitufyrirtækjanna.

Höfundur er ljósvistarhönnuður.