Flug Hætta átti áætlunarflugi Ernis til Húsavíkur um mánaðamótin.
Flug Hætta átti áætlunarflugi Ernis til Húsavíkur um mánaðamótin. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Áætlunin er inni til áramóta,“ segir Einar Hermannsson, sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins Ernis, varðandi áætlun Húsavíkurflugsins með flugfélaginu. „En ef það kemur ekkert strax eftir helgi frá Vegagerðinni þá tökum við hana…

„Áætlunin er inni til áramóta,“ segir Einar Hermannsson, sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins Ernis, varðandi áætlun Húsavíkurflugsins með flugfélaginu. „En ef það kemur ekkert strax eftir helgi frá Vegagerðinni þá tökum við hana bara út aftur.“

Í samtali við Morgunblaðið segir Einar að verið sé að leggja drög að samningi er varðar aðkomu Vegagerðarinnar og innviðaráðuneytisins að málinu, til að tryggja samgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur, í það minnsta þar til gerð verði verðkönnun eða útboð á fluginu.

Flugfélagið tilkynnti um niðurfellingu áætlunarflugsins fyrr í mánuðinum og gaf þær útskýringar að reksturinn stæði einfaldlega ekki undir sér, en flugið hefur til þessa verið rekið á markaðslegum forsendum, án ríkisstyrkja.

Var tilkynnt að áætlun flugfélagsins myndi ljúka um mánaðamótin september og október, en Einar tjáði þá mbl.is að til greina kæmi að halda fluginu áfram ef hið opinbera væri reiðubúið að veita því styrki.

Hann segir ekki liggja nákvæmlega fyrir með hvaða hætti aðkoma Vegagerðarinnar og ráðuneytisins verði en að um sé að ræða einhverskonar fjárveitingar.

Hann telur margt koma í ljós í upphafi næstu viku, en kveðst geta staðfest að hinsta flug Ernis til Húsavíkur hafi ekki enn átt sér stað.