Kristján Loftsson yrði að sjálfsögðu fenginn til að þjálfa liðið og sá myndi nú aldeilis leika stífan sóknarleik.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Það er í tísku að sameina. Menn sameina sveitarfélög, stofnanir, skóla, íþróttafélög og hvað þetta nú allt heitir. Svo rammt kveður að þessu að tveir menn mega varla koma lengur saman á götuhorni án þess að vera sameinaðir af þar til bæru stjórnvaldi.

Tveir kunningjar mínir lentu einmitt í þessu fyrir skemmstu, Mummi og Þórður. Þeir hafa nú verið sameinaðir undir nafninu Murður og fullvissaðir um að þetta sé á alla kanta til mikilla bóta fyrir þá báða, að ekki sé talað um hagræðinguna fyrir hið opinbera. Þó eru ýmis mál óleyst. Mummi er til dæmis mikill Boris Karloff-maður, meðan Þórður þolir ekki Boris Karloff. Hvernig leysa þeir það? Það fylgdi ekki með manúalnum frá ráðuneytinu.

Sumar sameiningar eru umdeildari en aðrar. Þannig hefur yfirvofandi sameining míns gamla skóla, Menntaskólans á Akureyri, og Verkmenntaskólans á Akureyri farið fyrir brjóstið á mörgum og ekki verður betur séð en að þar sé á ferðinni klassískt dæmi um fullkominn skort á sögulegri yfirsýn, eins og Styrmir kallaði það, þegar hann var að setja okkur unga fólkið hér á ritstjórninni inn í samhengi hlutanna. Annars vegar erum við með gamlan og virðulegan skóla og hins vegar ungan skóla og sprækan. Hagsmunum hvers þjónar sú sameining? Fyrst MA, stútfullur af menningu og sögu, hefur spjarað sig í áratugi, ef ekki aldir, hlýtur hann að ráða við það verkefni eitthvað áfram og hvers á VMA að gjalda, skóli sem lagt hefur mikla vinnu í að skapa sér öfluga sjálfsmynd á nýliðnum áratugum?

Hvað ætla menn svo að gera næst? Sameina íþróttafélögin KA og Þór, sem hvort um sig býr að ríkri sögu og ríg sem sett hefur skemmtilegan svip á bæjarlífið um áratuga skeið? Þetta skilur fólk sem ekki er frá Akureyri reyndar illa, þannig hefur mér margoft hér syðra verið óskað til hamingju með hina og þessa sigra KA, sem ég gleðst hreint ekkert yfir, ekkert frekar en KA-maður fagnar (fátíðum) sigrum Þórs. Ég gleymi aldrei jarðarfararstemningunni á Akureyrarvellinum haustið 1989, þar sem Þór var að leika, þegar vallarþulurinn tilkynnti að KA væri Íslandsmeistari í knattspyrnu.

Menn skilja þetta alla jafna betur þegar spurt er hvort ekki megi alveg eins sameina KR og Val? Já, þú meinar! Það yrði nú ekkert meðalfélag, undir nafninu Kvalur. Kristján Loftsson yrði að sjálfsögðu fenginn til að þjálfa liðið og sá myndi nú aldeilis leika stífan sóknarleik og hvetja leikmenn sína til að skjóta á markið. Mögulega yrði okkar maður Murður í fremstu víglínu. Sameinaður.