Sólveig Bergþóra Eyjólfsdóttir fæddist 28. ágúst 1941. Hún lést 11. september 2023.

Útför Sólveigar fór fram 28. september 2023.

Ég vil stuttlega minnast tengdamóður minnar Sólveigar B. Eyjólfsdóttur sem kvaddi þessa jarðvist 11. september sl. Ég kom inn í fjölskyldu Sólveigar 1988 þegar ég var svo heppinn að fanga athygli elstu dóttur Sólveigar, hennar Kristjönu. Það var mikill heiður að fá að vera hluti af tengdasonafélagi Sólveigar eins og það var kallað. Sólveig og Kristján, fyrri eiginmaður hennar, eignuðust saman fimm börn á 14 árum. Sólveig var mikil fjölskyldukona og vildi hún helst hafa öll sín börn og barnabörn í kringum sig og oft var margt um manninn í Fögrubrekku þar sem þau Kristján bjuggu lengstan hluta þeirrar sambúðar. Tímarnir hafa breyst mikið á þeim árum frá því Sólveig og Kristján hófu sambúð og má ætla að oft hafi verið mikill hamagangur er fjölskyldan var að mótast og koma yfir sig þaki.

Þegar ég kom inn í fjölskyldu Sólveigar var hún starfandi hjá MS sem markaðs- og sölufulltrúi. Sólveig og ég áttum oft djúpar samræður um sameiginlega viðskiptavini og kom þá iðulega fram hvað hún hafði óbilandi metnað og áhuga og leiddist aldrei að tala um starf sitt. Tengdamanna vildi iðulega hafa mikið fjör og gleði og kallaði sig oft „ömmu villing“ og börnunum þótti ekkert skemmtilegra en að ærslast með Sólveigu. Henni þótti einstaklega gaman að syngja, svo ekki sé minnst á systrakórinn með systrunum Eygló, Helgu og Guðrúnu. Sólveig var mikill Austfirðingur og leit á sig sem Jökuldæling og var virkilega stolt af sínum uppruna og hélt tryggð við ættingja sína að austan.

Það var alltaf merkilegt hversu nýjungagjörn Sólveig var og snjalllausnir henni að skapi. Ég er þá ekki að tala um snjallsíma e.þ.h. heldur svona lausnir eins og „Sjónvarpsmarkaðurinn“ sem var og hét bauð upp á. Sjálfskúrandi og sjálfvindandi moppur, sjálflosandi ruslafötur, allt misgóðar uppfinningar sem áttu að gera lífið léttara. Svona uppfinningar náðu athygli Sólveigar og sýndi e.t.v. hversu opin hún var fyrir nýjungum og gaf þeim rými þó svo að hún festi ekki alltaf kaup á þeim.

Þegar aldurinn færðist yfir og amstur fjölskylduuppbyggingar að baki myndaðist gjá hjá tengdaforeldrum mínu sem leiddi til skilnaðar. En Sólveig fann ástina að nýju og auðvitað kom hún að austan. Á vegi Sólveigar varð Sigurður Þorkelsson, sigldur sjómaður fá Neskaupstað, þau giftust og nutu þess að ferðast og lifa saman í góðum félagsskap hvort annars. Dvöldu þau iðulega í húsi sínu í Neskaupstað yfir sumartímann og margan veturinn nutu þau hita og yls á Spáni. Sólveig sagði oft að það væri jafnlangt til Neskaupstaðar og til Reykjavíkur en þá var hún að kalla eftir heimsókn og félagsskap við dætur og syni. Ekkert þótti Sólveigu skemmtilegra en að vera í góðum hópi þar sem maður er manns gaman.

Takk fyrir samveruna elsku tengdamóðir, þú hefur ávallt verið mér kær og við oftast náð ágætlega saman, takk fyrir að gefa mér dóttur þína og þ.a.l. fjölskylduna sem ég á. Ég mun heiðra minningu þína eins lengi og ég lifi, hvíl í friði.

Magnús Rósinkrans Magnússon.

Elsku amma, þú kvaddir okkur allt of snemma. Þú varst reyndar vön því að ferðast hratt og ég man þegar ég klagaði þig í mömmu og sagði henni að þú keyrðir á einn fjórir núll upp í bústað! Þegar ég velti þessu betur fyrir mér hafðir þú sennilega engan tíma til þess að eyða á veginum, það var svo mikið af góðu fólki sem þú þurftir að umlykja með gleðinni þinni og kærleikanum. Ég held að ég geti talað fyrir hönd allra þeirra sem voru svo heppnir að fá að kynnast þér að þú varst algjörlega einstök og ég þekki engan sem ber nafn með jafnmikilli rentu. Þú lýstir upp ferðalagið okkar allra. Björt, ljúf og kát eins og sólin.

Því miður er það oft þannig að við áttum okkur of seint á að enginn lifir að eilífu. Ég sé mikið eftir þér því ég átti eftir að spyrja þig svo margra spurninga. Ég átti eftir að heyra svo margar sögur og vísur sem núna eru horfnar með þér. Ég ylja mér þó við minningar um margar gæðastundir sem við áttum saman í gegn um lífið. Það er bara þannig að með uppáhaldsfólkinu okkar fáum við aldrei nægilega mikinn tíma. Takk fyrir að veita mér skjól og ævintýraland í Fögrubrekkunni þar sem þú ræktaðir vínber og eplatré. Takk fyrir ferðirnar í Munaðarnes þar sem við tíndum plöntur og þurrkuðum og lékum fuglafit. Takk fyrir tímana á Sólsetri þar sem allt mátti. Þar sem fiskikar varð heitur pottur. Draumastaður sem var einn stór leikvöllur og gaf okkur frændsystkinunum sumar af okkar best varðveittu minningum. Takk fyrir að þagga aldrei niður í mér ef ég var hávær og hafa alltaf tíma til þess að hlæja með mér. Umfram allt takk fyrir að vera þú, trú, einlæg og hláturmildur prakkari fram á síðasta dag.

Þú ákvaðst að ferðast á sama hraða og þú ferðaðist í sveitina inn í Sumarlandið. Ég mun sakna þín alla daga en þú ert varðveitt í hjartanu.

Nú sól er í sæ runnin.

Þín

Unnur.

Þar sem öllum öðrum trjám

of lágt þótti að gróa

undir skuggaholtum hám,

hneppt við sortaflóa

sprastu, háa, gilda grön,

grænust allra skóga.

(Stephan G. Stephansson)

Elsku amma Sól, það sem ég gæfi til að geta setið með þér og lesið fyrir þig ljóð einu sinni enn. Það er ennþá svo óraunverulegt að þú sért farin frá okkur, en þú fórst alveg eins og þú lifðir með stæl og á hraðferð. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég kveð þig, takk fyrir allar minningarnar, takk fyrir að elska börnin mín eins mikið og þú gerðir, takk fyrir að nenna að spjalla í símann meðan ég eldaði, takk fyrir að kenna mér svo margt og takk fyrir öll hlátursköstin.

Þú varst villingur alveg í gegn og tókst á öllum þínum erfiðleikum með húmor, ég gleymdi aldrei þegar þú tilkynntir mér að þú værir með smá alzheimer (áreiðanlega ekki fyrsta sinn) og að þú ætlaðir aldrei að verða reið eða fúl yfir því, þú ætlaðir að hafa gaman vera jákvæð og hlæja þig í gegnum þetta. Það er ákveðin huggun að þú þurftir aldrei að týnast í þeim sjúkdómi og þú varst alltaf með húmorinn ráðandi. Ég sakna þess að heyra þig kalla mig Jófríði Snót, eins og þú gerðir síðustu fimmtán árin eða svo, þú valdir það nafn á mig um það leyti sem þú kenndir mér að drekka bjór, ég held ég hafi aldrei hlegið eins mikið og ég gerði með þér það sumar.

Ég elska þig, þín

Jófríður Snót (Júlía).

Þá er komið að kveðjustund, elsku amma mín.

Amma Sól var eins viðeigandi nafn og hægt er að hugsa sér. Þú baðaðir allt í birtu og yl og nærvera þín teygði sig í alla króka og kima. Ég gat því ekki annað en brosað þegar ég labbaði út af spítalanum og baðaði mig í septembersólinni eftir að hafa kvatt þig í síðasta sinn. Það var vissulega sorg í loftinu en samt var allt svo fallegt og bjart, alveg eins og þú. Það er merkilegt hvað gamlar minningar verða ljóslifandi þegar komið er að kveðjustund. Veikindi og erfiðir tímar virðast gufa upp og eftir stendur minning um skemmtilegustu ömmu í heimi. Allt bullið sem þér datt í hug og allar fáránlegu sögurnar af þér í ótrúlegustu aðstæðum. Þú kunnir sko að segja frá og það var alltaf svo gaman hjá þér. Við krakkarnir fengum að gera allt sem ekki mátti heima. Ég man það enn þá þegar ég og Unnur frænka fengum heilan poka af súkkulaðispónum og tvær skeiðar til að fara með út í garð. Eins þegar þú heimsóttir okkur fjölskylduna í Noregi og fórst í snjóboltastríð við vini mína. Það er ekki annað hægt en að brosa. Eftir því sem ég varð eldri áttaði ég mig á því hvað þú varst mikill skörungur. Þú varst með sterkar skoðanir sem þú komst svo vel frá þér og var oft á tíðum gaman að lenda í rökræðum við þig um allt milli himins og jarðar. Við vorum ekki alltaf sammála en það var líka bara allt í lagi því virðingin var alltaf til staðar. Í dag er ég þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem ég hef átt með þér. Heimsóknir austur á Neskaupstað, Ofríkiskórinn og kaffidrykkja við eldhúsborðið er mér ofarlega í huga. Bjarta brosið þitt sem þú tókst alltaf með þér hvert sem þú fórst. Fyrir það og allt sem þú kenndir mér verð ég ævinlega þakklát.

Nú er komið að kveðjustund elsku amma mín. Þrátt fyrir mikla sorg og mikinn söknuð ætla ég að halda í allt það góða og fallega sem þú skildir eftir þig og reyna eins og ég get að njóta lífsins eins og vel og þú.

Þín dótturdóttir,

Sara Ósk Kristjánsdóttir.

Hún stóra systir okkar var stór í sniðum. Hún elskaði heitt, lifði af ákefð, hló oft og innilega, sagði sögur af innlifun og var hrókur alls fagnaðar þegar okkar fólk kom saman. Líf hennar var ekki alltaf dans á rósum en hún vann stöðugt í því að hafa það skemmtilegt. Það gerði hún með því að vera hlý og örlát á sjálfa sig, fáa var betra að fá í heimsókn ef eitthvað amaði að, fáir skildu betur unglingaveiki eða vanlíðan, fáir voru jafn örlátir og hún á hrós og uppörvun. Og ef hún sá að ekki væri neitt stóralvarlegt að var snúið yfir í skemmtisögur og gleði. Samtöl enduðu oft í hlátursköstum.

Hún fæddist á Bergstaðastræti 32 á loftinu hjá Guðmundi afa, var elsta barn foreldra okkar. Hún var bráðger og talaði mikið við foreldra sína og aðra. „Eigum við að hafa smáþögn núna?“ sagði pabbi einu sinni við barnið. Hún horfði á hann alvarleg: „Ég kafna ef ég fæ ekki að tala.“ Hún giftist mjög ung og eignaðist fimm börn sem öll eiga stórar fjölskyldur. Það hefur verið tak að vera orðin fjögurra barna móðir 25 ára en aldrei fundum við annað en við værum aufúsugestir í Fögrubrekku, það er merkilegt hvernig alltaf var hægt að bæta við stól við hringlaga eldhúsborðið og spjalla og hlæja. Nokkru eftir skilnað þeirra Kristjáns Tryggvasonar kynnist Sólveig Didda, Sigurði Þorkelssyni eftirlifandi eiginmanni sínum, í sólarlandaferð. „Ég fann demant í sandinum,“ sagði hún síðar. Og Diddi kunni aldeilis að meta Sólveigu og fjölskylduna hennar sem tóku honum fagnandi í sinn hóp. Brúðkaup þeirra var haldið í Neskaupstað, heimabæ hans. Það er ógleymanleg sjón þegar þau komu gangandi björt og brosandi að kirkjunni þar á yndislegum sumardegi. Ég beið þín lengi lengi mín liljan fríð valdi Diddi að yrði spilaði í þeirri athöfn. „Sólveig talar stundum mikið,“ sagði pabbi okkar brosandi, þá orðinn gamall maður, einu sinni við Didda. „Já,“ sagði Diddi, „og alltaf er hún jafn skemmtileg!“

Þau Diddi undu í mörg ár hag sínum vel í Neskaupstað á sumrum og í Kópavogi og á Spáni á vetrum. Alls staðar eignaðist Sólveig vini, og var vinahópurinn stór fyrir, ættingjar þeirra beggja, nágrannar, vinnufélagar fyrr og síðar, vinir barna og systkina og venslafólk þeirra.

Síðustu árin þyngdust sporin. Við tókum eftir því í árlegum systraorlofum að Sólveig var orðin gleymin, ekki þó á fíflarí, frekar það sem við vorum nýbúin að ræða. Heilsa Didda var ekki jafn góð og áður. En alltaf var yndislegt að heimsækja þau í fallegu íbúðina þeirra. Rétt eins og forðum daga var alltaf hægt að bæta við stólum við borðið og gaman að spjalla.

Stóra systir okkar bjó yfir fallegri reisn. Á kveðjustund gleðjumst við innilega yfir að hafa átt hana að og þökkum af alhug samfylgdina. Í sálminum Langferð eftir Eygló heitna systur okkar segir:

Fuglar himins leysa festar

og lyfta okkur hátt á flug

svo undarlega undurhratt

ber okkur heim til þín

og blámi yfir vængjum.

Með þá mynd í huga er gott að hugsa til systra okkar í dag.

Helga Kristjana, Guðrún Svanfríður og Guðmundur Þorkell Eyjólfsbörn.

Það kom okkur systrunum á Franskamel skemmtilega á óvart þegar Diddi móðurbróðir okkar birtist með kærustu upp á arminn eftir sólarlandaferð haustið 1997.

Það er ekki öllum gefið að kynnast sínum lífsförunaut um sextugt og Sólveig reyndist Didda frænda mikill happafengur. Glögg og atorkusöm kona með stóra fjölskyldu sem tók Didda vel frá fyrstu stund og líf hans tók stakkaskiptum.

Þessi glaðlega og gestrisna kona var einstaklega orðheppin, fyndin og litrík persóna sem lá ekki á skoðunum sínum.

Við kynntumst Sólveigu fyrir alvöru þegar hún af rausn sinni bauð okkur bústaðinn sinn til að halda upp á þrítugsafmæli elstu systurinnar. Þar var farið í pottinn, grillað og trallað og þegar leið á kvöldið braust gleðskapurinn út í söng eins og góðri bústaðarferð sæmir. Þá komst Sólveig að því, sér til mikillar skelfingar, að við systurnar kunnum ekki textann við lagið Ljósbrá. Var þá brugðið á það ráð að raða okkur upp í sófanum og láta okkur syngja eina af annarri þar til við gátum sungið bæði lag og texta utanbókar og áreynslulaust, henni til mikils léttis. Þá gat gleðskapurinn haldið áfram!

Það var alltaf gott að koma á hlýleg heimili Sólveigar og Didda, hvort sem það var á Nesgötunni á Norðfirði eða í Kópavoginum. Við vorum svo heppnar að ná góðri heimsókn til þeirra í sumar þar sem Sólveig var glöð og gestrisin að vanda.

Elsku Didda, börnum Sólveigar og mökum, barnabörnum og systrum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Við minnumst Sólveigar með sól í hjarta.

Ljósbrá,

þá var sífellt sumar,

og sól í hjarta;

þú komst til mín.

Ennþá

fyllist sál mín sælu

er sit ég þögull

og minnist þín.

Þinn ástarbikar þú barst mér fullan

í botn ég drakk hann

sem gullið vín.

Ljósbrá,

meðan blómin anga,

með bljúgu hjarta

ég minnist þín.

(Ágúst Böðvarsson)

Systurnar á Franskamel,

Guðný, Sigríður,
Bryndís og Ólafía Zoëga.

Partíið byrjaði þegar Sólveig frænka mætti. Hún var elst af Akurgerðissystkinunum, hún setti tóninn fyrir okkur sem á eftir komum. Hlátrasköll og að sjá það fallega í tilverunni.

Ég hef svo ofsalega skýra mynd af henni í fallegu stofunni í Fögrubrekku þar sem hún situr í sófa í hvítri peysu með bleikan varalit drekkandi kaffi, jafnvel að stelast í eina Salem, hún alveg róleg yfir ysnum og þysnum sem fylgdi börnunum fimm og systkinabörnum sem hoppuðu upp og niður stigann í stofunni og dáðust að vínberjum sem uxu í sólstofunni.

Hún hvíslaði að mér að varalitirnir hennar væru í miðjuskúffunni á baðherberginu. Níu ára ég með stjörnur í augum yfir glæsilegu frænku minni sem leyfði mér að prófa varalitina sína. Það má deila um hvort þeir bleiku tónar sem hún notaði hafi farið rauðhausnum mér vel, en mér fannst ég glæsilegust af öllum því ég var eins og Sólveig frænka með skærbleikar varir að borða hnetutopp í eldhúsinu í Fögrubrekku við undirleik hlátursins í móðursystkinum mínum sem sátu í stofunni.

Það var alltaf gaman, alltaf hlegið. Rifjaðar upp sögurnar óteljandi af óhöppum og seinheppni. Þegar hún steyptist með höfuðið á undan í heita pottinn austur í hreppum, með lappirnar spriklandi út í loftið og systur hennar gátu ekki hjálpað því þær hlógu svo mikið. Þegar afgreiðslumanneskjan í bakaríinu bauð henni elliafslátt og hún svaraði strax: „Guð, þú sérð það nú ekki á mér.“ Hún lét ekki bjóða sér neina vitleysu. „Ég gæti aldrei búið hérna, uppþvottavélin er vitlausum megin.“

Hún kynntist Didda sínum, hæglátum og ljúfum. Þau áttu svo fallegt samband. Hann með sitt rólega fas á móti gassaganginum í henni móðursystur minni. Þau eyddu efri árunum saman og nutu samvistanna við skemmtilegu börnin hennar Sólveigar og barnabörnin og tengdabörnin. Maður sá myndir á netinu af henni og Didda, alltaf svo glöð, alltaf svo gaman og stundum sá maður púkaglottið hennar frænku þegar einhver hrekkur var í bígerð.

Ég sá hana síðast í útskriftarveislunni hennar Helgu minnar. Hún mætti með Didda sínum, svo fín og sæt eins og alltaf með bleikan varalit. Ég man ég hugsaði, nú getur partýið byrjað, Sólveig frænka er komin.

Hún lét öllum líða vel.

Mér finnst svo merkilegt að Helga mín, barnabarn systur Sólveigar, sagði við mig að henni þætti leitt að Daði hennar hefði aldrei kynnst Sólveigu frænku sem goðsögninni sem hún var. Þar er frænku rétt lýst.

Frænkan mín með bleika varalitinn hefur kvatt okkur, dillandi hláturinn, brosið í augunum, hlýjan í faðminum hennar, ég man það allt. Ég ætla að halda áfram að setja á mig varalit og maskara, setja hausinn undir mig og hoppa út í ævintýrin og sjá það fallega í hversdeginum eins og hún gerði.

Dreymi þig ljósið, elsku Sólveig frænka.

Svana Helgadóttir.

Nú hefur elsku Sólveig kvatt.

Þegar ég var lítil dáðist ég að þessari frænku minni. Hún var svo góð við okkur krakkana og skemmtileg. Þegar hún kíkti í kaffi til mömmu byrjuðu þær strax að flissa í forstofunni. Sólveig hafði líka einstaklega góðan húmor. Var algjör grallari. Þegar ég eltist dýpkaði vinátta okkar. Þá kallaði hún mig gjarnan villing og ég hana sömuleiðis. Við veltum fyrir okkur hvor væri þá meiri villingur en því var ekki auðsvarað eins og hún sjálf komst að orði.

En fyrst og fremst var Sólveig frænka hlý. Gat endalaust gefið af sér. Hún átti sterkt og gott samband við börnin sín, tengdabörn og barnabörn. Þessi stóri hópur naut góðs af elsku hennar, umhyggju og skemmtilegheitum.

Þau Diddi voru samheldin hjón og andrúmsloftið heima hjá þeim afslappað og notalegt. Bæði mjög gestrisin. Maður var alltaf velkominn, hvort sem það var í Kópavoginn eða í Neskaupstað. Sumar eftir sumar brunuðum við fjölskyldan austur og erfitt að segja hvort tilhlökkunin var meiri hjá börnum eða foreldrum.

Svo voru það kaffistundirnar í Kópavogi. Þangað gat maður kíkt hvenær sem var og oftar en ekki gestir þegar maður steig inn. Það fannst öllum gott að koma til Sólveigar og Didda.

Ef eitthvað kom upp á þá var gott að eiga frænku að. Hún var traust vinkona og djúp. Dæmdi ekkert. Reyndi frekar að finna lausnir. Og maður lifandi, hvað við gátum hlegið. Þessi galsi hennar var svo smitandi.

Þegar mamma mín fór að glíma við minnisbrest þá var það fastur liður hjá okkur að kíkja í heimsókn til Sólveigar. Þetta voru uppáhaldsstundir mömmu og þær frænkur spjölluðu og sungu. Sólveig var næm. Hún vissi hvað til þyrfti svo mömmu liði vel. Ég verð henni alltaf þakklát fyrir þessar gjafir sem og vináttu okkar í gegnum öll þessi ár.

Nú leitar hugurinn til Didda og þeirra stóru fjölskyldu. Missirinn er mikill.

Ég bið allt það góða að vera með þeim á þessum erfiða tíma.

Katla Margrét.