Ofbeldið Ulf Kristersson og Gunnar Strömmer á blaðamannafundi í gær.
Ofbeldið Ulf Kristersson og Gunnar Strömmer á blaðamannafundi í gær. — AFP/Anders Wiklund
„Svíþjóð er í afar óvenjulegri stöðu núna. Ofbeldisbylgjan sem við sjáum núna er fordæmalaus,“ sagði Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía á blaðamannafundi í gær. Fyrr um daginn hafði Kristersson fundað með Michael Bydén…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Svíþjóð er í afar óvenjulegri stöðu núna. Ofbeldisbylgjan sem við sjáum núna er fordæmalaus,“ sagði Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía á blaðamannafundi í gær. Fyrr um daginn hafði Kristersson fundað með Michael Bydén yfirhershöfðingja Svía og Anders Thornberg ríkislögreglustjóra og fulltrúum hersins til að reyna að finna lausnir á ofbeldishrinu glæpagengja sem ekki sér fyrir endann á. Kristersson segir að orsök ofbeldishrinunnar megi rekja til misheppnaðrar innflytjendastefnu forvera sinna í starfi.

Lögreglan þarf aðstoð

Kristersson sagði að það væru takmörk fyrir því hvað lögreglan gæti gert án aðstoðar og ákveðið hafi verið að athuga hvort hægt sé að fá herinn til aðstoðar til að styðja lögregluna í baráttunni við glæpina innan ramma sænskra laga. Dómsmálaráðherrann Gunnar Strömmer var með Kristersson á blaðamannafundinum og hann sagði að ríkisstjórnin kæmi saman í næstu viku og að tilkynnt yrði fljótlega eftir það hvernig nákvæmlega samstarfi lögreglu og hers yrði háttað og hvaða lagabreytingar gæti þurfti að leggja til.

Þegar er farið að skoða hvernig herinn gæti aðstoðað lögregluna og þá sérstaklega talað um eftirlitsverkefni, aðstoð við flutninga og greiningu á aðstæðum. Kristersson sagði að það væri ljóst að lögreglan gæti ekki sinnt þessu víðfeðma verkefni án aðstoðar og þótt ofbeldisverkin séu algengari á ákveðnum stöðum í Svíþjóð, eins og í úthverfum höfuðborgarinnar Stokkhólms og bæjum þar í kring, í kringum Gautaborg og síðan Malmö, þá eru samt ofbeldisverk framin út um alla Svíþjóð, eins og sjá má á meðfylgjandi korti með greininni. „Við verðum að gera allt sem við getum til að styðja lögregluna í þessu erfiða verkefni.“

Skipulögð glæpastarfsemi

Kristersson var harðorður þegar kom að greiningu á vandanum og sagði Svía hafa flotið sofandi að feigðarósi. „Skipulögð glæpastarfsemi hefur aukist gríðarlega undanfarinn áratug,“ sagði hann og bætti við að Svíar hefðu ekki hugsað dæmið til enda. „Óábyrg innflytjendastefna og algjörlega misheppnuð aðlögun innflytjenda er ástæðan fyrir því að við stöndum hér í dag. Það er ekkert í sænskum lögum sem tekur á glæpastríðum og barnahermönnum. En við ætlum að breyta því núna,“ sagði forsætisráðherrann í gær.

Kristersson vonast til að hægt verði að bæta löggjöfina, lengja þurfi fangelsisdóma þeirra sem tengjast brotum glæpasamtakanna og eru sænskir ríkisborgarar og vísa þeim úr landi sem ekki eru ríkisborgarar.

Vísað úr landi

Einn þáttur í auknu eftirliti er breyting á lögum sem gerir lögreglunni kleift að hlusta á símtöl grunaðra glæpamanna og að lögreglan geti beitt líkamsleit á þeim svæðum þar sem glæpir eru tíðir. Þá er kallað eftir harðari dómum fyrir endurtekin brot og jafnvel tvöföldum dómum fyrir ákveðin brot. Einnig var talað um að koma upp eftirlitsmyndavélum á opinberum svæðum og að það þyrfti að byggja sérstök unglingafangelsi.

„Við munum draga glæpamennina fyrir dóm. Ef þeir eru sænskir ríkisborgarar verða þeir lokaðir inni með langa dóma og ef þeir eru útlendingar verður þeim vísað úr landi,“ sagði Kristersson. Þá segir hann að útlendingum sem tengjast glæpasamtökum verði vísað úr landi, jafnvel þótt ekki sé vitað um að þeir hafi framið glæp.

150 heimilisföng

Lögreglan í Stokkhólmi og næsta nágrenni er með lista yfir 150 heimilisföng þar sem hætta er á að skot- eða sprengjuárásir dynji yfir fyrirvaralaust. Þau tengjast flest glæpagengjunum eða ættingjum þeirra. „Þetta eftirlit [með heimilisföngunum] framkvæmir almenna lögreglan samhliða öllum öðrum verkefnum sem hún sinnir. Eins og mönnunin er núna er algjörlega útilokað að fylgjast með þessu öllu,“ segir ónafngreindur heimildarmaður í lögreglunni við SVT.

Það er augljóst að staðan í Svíþjóð er erfið og glæpirnir algengastir í fátækari hverfum þar sem stór hluti íbúanna eru innflytjendur. Fjöldi saklausra ungmenna hefur látið lífið í átökunum, en lögreglan vonast til að hægt verði að ná til ungmennanna og fyrirbyggja að þau gangi til liðs við glæpagengin. Ástandið gæti þó versnað áður en árangur næst.