„Þarna er ég eins og bóndi sem þekkir allt sitt fé af karakter,“ segir Hans um strokhljóðfærin sem hann hefur smíðað.
„Þarna er ég eins og bóndi sem þekkir allt sitt fé af karakter,“ segir Hans um strokhljóðfærin sem hann hefur smíðað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mig er búið að dreyma í nokkuð mörg ár hvernig það væri að heyra stóra hljómsveit þar sem einungis væri leikið á strokhljóðfæri sem ég hef tálgað í gegnum áratugina.

Rösklega fjögurra áratuga starfsferli Hans Jóhannssonar fiðlusmiðs verður fagnað dagana 1.-15. október. Í Ásmundarsal verður sýning á tugum hljóðfæra, allt frá barokkhljóðfærum til klassískra strengjahljóðfæra, auk tilraunahljóðfæra og hljóðskúlptúra í anda 21. aldar. Samhliða sýningunni verður boðið upp á viðburði í hádeginu alla daga meðan á hátíðinni stendur og eina kvöldtónleika í Hannesarholti og eftirmiðdagstónleika í Hörpu.

Hátíðin nefnist Ómur aldanna – fiðlusmíði í 40 ár og í gegnum yfirlitssýningu, viðburðaröð og fjölda tónleika er markmiðið að segja sögu fiðlusmíði undanfarinna 500 ára í gegnum kviksjá starfsferils Hans, auk þess að varpa ljósi á nýsköpun og framtíðarmöguleika í hönnun og þróun þeirra strengjahljóðfæra sem notuð eru til að þjóna klassískum tónlistararfi.

Hans er fiðlusmiður en í því starfsheiti felst ekki að hann smíði einungis fiðlur. Hann smíðar strokhljóðfæri, það er að segja fiðlur, víólur, selló og kontrabassa.

Hans fékk ungur áhuga á fiðlusmíði. „Heima hjá ömmu og afa var uppi á vegg fiðla sem frændi minn hafði átt. Amma hafði mikinn áhuga á tónlist og dró mig á sinfóníutónleika þangað til mér líkaði það. Ég átti annan afa sem var húsgagnasmiður og frá því ég var pínulítill var ég mikið á verkstæðinu hjá honum. Þetta tvennt, nálgunin við handverkið og smíðina og tónlistaráhuginn, kraumaði einhvers staðar innra með mér.

Amma gaf mér gamla bók um fiðlusmíði og ég var tólf ára gamall þegar ég ákvað að ég ætlaði að gera fiðlusmíði að lífsstarfi og nítján ára var ég kominn í skóla á Englandi til að læra fagið. Í náminu lærði ég að gera eftirlíkingar eftir gömlum hljóðfærum, eins og flestir læra. Það er dálítið sorglegt að enn þann dag í dag er fólk mestmegnis að gera eftirlíkingar af frægum gömlum ítölskum fiðlum.“

Gerir eigin teikningar

Eftir nám kom hann heim og fékkst við fiðlusmíði en annað starf tók nær allan hans tíma. „Hér var aragrúi af tónlistarskólum og mikið af biluðum fiðlum og sellóum, víólum og kontrabössum. Þannig byrjaði ég að gera við hljóðfæri en það eina sem mig langaði virkilega til var að smíða ný hljóðfæri. Mér gafst ekki möguleiki á að einbeita mér eins og þarf við fiðlusmíði til að ná árangri. Það var ekki fyrr en ég flutti aftur til útlanda, eftir tæp tvö ár á Íslandi, sem ég fékk virkilegt tækifæri til að einbeita mér að smíðunum.“

Hann bjó í Lúxemborg í einn og hálfan áratug og markaði sér áhugaverða sérstöðu með því að smíða strokhljóðfæri eftir eigin teikningum. „Það er ekki þar með sagt að ég hafi ekki fylgt hefðinni. Hefðin er svo sterk og mögnuð að ég var ekki að fara langt út fyrir hana,“ segir hann.

Á ferlinum hefur Hans gert viðamiklar rannsóknir á gömlum hljóðfærum, bæði einn síns liðs og með samstarfsaðilum. „Fiðlan varð til á miðri 16. öld og þróaðist á fimmtíu árum upp í það að vera nánast fullkomið fyrirbrigði. Síðan varð lítil þróun, fyrir utan gullöld á 18. öldinni, sérstaklega á Ítalíu, en eftir það snerist fiðlusmíði um eftiröpun. Ég held því fram að þess vegna hafi fiðlusmíði misst kraftinn.

Hljóðfærum sem smíðuð voru á 17. og 18. öld var breytt á 19. öld til að það yrði meira afl í þeim. Á fimmta og sjötta áratug 20. aldar kom upp hreyfing þar sem reynt var að endurskapa spilamáta barokktímans og tónlistarfólk vildi eignast barokkhljóðfæri. Það gaf hljóðfærasmiðum tækifæri á að fylla upp í þetta gat með því að smíða ný barokkhljóðfæri. Fagið fékk innspýtingu því til varð markaður þar sem fólk vildi láta smíða fyrir sig hljóðfæri.“

Hans hefur smíðað um 400 hljóðfæri og gerir einnig sitt eigið lakk. „Hljóðfærin sem ég hef smíðað virðast vera eins, en þeir sem til þekkja sjá mun. Þarna er ég eins og bóndi sem þekkir allt sitt fé af karakter,“ segir hann.

Spurður hvað hann sé lengi að smíða hljóðfæri segir hann: „Ég er fljótur að vinna og er afkastamikill en eftir því sem ég eldist reyni ég að smíða hægar. Ég legg meira í hljóðfærin, þar af leiðandi framleiði ég minna, en þau verða verðmætari fyrir vikið. Undanfarin tuttugu ár hef ég reynt að vera eins lengi og ég get til að leggja eins mikið og mögulegt er í hvert stykki.“

Hyggjuvit og vísindi

Hans hefur allan sinn starfsferil tekið þátt í rannsóknum, vinnustofum, haldið fyrirlestra og komið fram á ráðstefnum. Um samstarf sitt við vísindamenn segir hann: „Með vísindunum finnum við ekki galdraformúlu vegna þess að hljóðfærasmíðar byggjast mikið á hyggjuviti, aðallega vegna þess að efniviðurinn er aldrei eins, engar tvær spýtur eru eins, og það þarf manneskjulega nálgun til að ná árangri.

Þannig að þetta er óskaplega skemmtileg blanda af hyggjuviti og vísindum. Persónulega vil ég meina að það sé betra að nálgast hlutinn fyrst eftir hyggjuviti og greina hann svo. Því ef þú ferð að greina hann fyrst þá nærðu ekki flæði í sköpuninni.

Ég hef unnið með hópum sem samanstanda af fiðlusmiðum og vísindamönnum og við hittumst reglulega. Í byrjun vissum við ekkert hvað vísindamennirnir voru að tala um. Þeir töluðu bara um formúlur og ímyndaðar tölur og gröf. Nú er orðið til annað tungumál á milli okkar, þannig að við skiljum mun betur hvað það er sem vísindin eru að skoða eins og hvernig hljómur berst, úr hverju hann samanstendur og hver uppruni hans er, en allt byggist þetta á mælingum. Vísindamennirnir eru svo farnir að átta sig á því hvernig ferlið er hjá manneskju sem er að búa til hljóðfæri.“

Hans hefur tekið þátt í hönnunarsýningum og rýmistilraunum með tilraunahljóðfærin og tekið þátt í samvinnuverkefni með myndlistarmanninum Ólafi Elíassyni. Hljóðfæri eftir hann var einnig hluti af sýningu í Serpentine Gallery í London á fyrsta áratug þessarar aldar, í skála Ólafs Elíassonar.

„Aðallega smíða ég mjög hefðbundin hljóðfæri en öðru hvoru langar mig til að leika mér og bý þá til alls konar tilraunakennd hljóðfæri. Ég hef unnið með arkitektum og listamönnum eins og Ólafi. Listamenn og arkitektar verða að vera með opinn huga en þeir sem eru í mínu fagi eru venjulega með algjörlega lokaðan hug þar sem ekkert annað kemst að en hefðin og reglurnar. Ég reyni reglulega að prófa eitthvað nýtt og skrýtið.“

Hljóðfærin á tónleikum

Hátíðinni Ómur aldanna, til heiðurs Hans, lýkur með tónleikum í Hörpu 15. október klukkan 16.00, en þar verður leikið á 35 hljóðfæri sem öll eru smíðuð af Hans á undanförnum áratugum.

Spurður hvernig tilfinning bærist með honum við tilhugsunina um að vera á tónleikum þar sem einungis er leikið á hljóðfæri sem hann hefur smíðað segir Hans: „Ég er að bíða eftir tilfinningunni vegna þess að mig er búið að dreyma í nokkuð mörg ár hvernig það væri að heyra stóra hljómsveit þar sem einungis væri leikið á strokhljóðfæri sem ég hef tálgað í gegnum áratugina.

Í fjörutíu ár hef ég setið úti í horni og tálgað spýtur. Mig dreymir um augnablikið þegar ég heyri afraksturinn af þessu öllu. Á tónleikum heyri ég oft í hljóðfærunum mínum en aldrei sem heild. Færustu hljóðfæraleikarar landsins, stórkostlegir listamenn, leika á þessi hljóðfæri þannig að það verður merkileg reynsla að upplifa tónleika þar sem tugir þeirra hljóma.“

Hátíðin Ómur aldanna –
fiðlusmíði í 40 ár

Í aðalsal Ásmundarsalar er sýning á klassískri hljóðfærasmíði síðastliðinna 43. ára. Þar er sýndur fjöldi hljóðfæra sem hönnuð eru og smíðuð af Hans undanfarna áratugi. Margir helstu hljóðfæraleikarar Íslands, þvert á kynslóðir, lána hljóðfærin sín, auk þess sem leiðandi hljóðfæraleikarar erlendis frá gera sér sérstaka ferð til að sýna sín hljóðfæri og taka þátt í viðburðum og tónleikum.

Í Gryfjunni er nýrri tækni og uppfinningum gerð skil, auk þess sem 21. aldar hljóðfæri Hans eru þar til sýnis. Gert er ráð fyrir að í Gryfjunni verði gerðar tilraunir auk þess sem tækifæri verður til að taka þátt í tilraunum og reyna hljóðfærin.

Á hverjum degi milli 12:00 - 13:00 verður hádegisviðburður í Ásmundarsal þar sem menningu og hefð hljóðfæranna verður gerð skil með opnum samtölum, tilraunum og örtónleikum. Ókeypis er á viðburðina.

Hátíðinni lýkur með tónleikum í samstarfi við Hörpu, þar sem leikið verður á 35 hljóðfæri sem öll eru smíðuð af Hans á undanförnum áratugum. Á þeim tónleikum verður frumflutt nýtt verk, Onium Ion, fyrir selló og strengjasveit eftir Úlf Hansson og Gyðu Valtýsdóttur, en einnig verður fluttur strengjakvartettinn Horfnir skógar eftir Maríu Huld Markan. Loks verður flutt verkið Metamorphosen eftir Richard Strauss. Stjórnandi á tónleikunum verður Bjarni Frímann Bjarnason, en strengjasveitina skipa margir fremstu hljóðfæraleikarar þjóðarinnar.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir