Hús Gunnþór Steinar Jónsson, Daníel Árnason og Ágústa Katrín Auðunsdóttir skipa framkvæmdastjórn.
Hús Gunnþór Steinar Jónsson, Daníel Árnason og Ágústa Katrín Auðunsdóttir skipa framkvæmdastjórn.
Starfsemi húsfélagaþjónustunnar Eignaumsjónar hefur verið endurskipulögð til að betrumbæta þjónustu við viðskiptavini og mæta nýjum verkefnum og auknum umsvifum. Breytingarnar fela m.a. í sér að starfsemi húsumsjónar er færð undir þjónustusvið og…

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Starfsemi húsfélagaþjónustunnar Eignaumsjónar hefur verið endurskipulögð til að betrumbæta þjónustu við viðskiptavini og mæta nýjum verkefnum og auknum umsvifum. Breytingarnar fela m.a. í sér að starfsemi húsumsjónar er færð undir þjónustusvið og hefur Gunnþór Steinar Jónsson verið ráðinn sem forstöðumaður sviðsins. Þá hefur nýtt skipurit tekið gildi. Til viðbótar við meginsviðin tvö, fjármálasvið og þjónustusvið, eru í skipuritinu fjögur stoðsvið; atvinnuhús, sala og samskipti, þróun og tækni.

Samstilla þjónustu

Daníel Árnason framkvæmdastjóri segir í samtali við Morgunblaðið að aðalmarkmið endurskipulagningarinnar sé að styrkja þjónustuna. „Með þessum skipulagsbreytingum erum við að samstilla betur þjónustu okkar við hús- og rekstrarfélögin á tveimur meginsviðum, fjármálasviði og þjónustusviði. Fjármálasviðið annast alla þjónustu er snýr að fjármálum en Húsumsjón, sérþjónusta okkar við stærri hús- og rekstrarfélög, og rafbílahleðsluþjónusta fyrir húsfélög færast undir þjónustusviðið, til viðbótar við ráðgjafar-, funda- og þjónustuverkefni,“ segir Daníel í samtali við Morgunblaðið. „Við viljum sækja fram í góðum verkefnum og bjóða húseigendum hvarvetna krafta okkar,“ bætir hann við.

Spurður um helstu áskoranir á síðustu misserum segir Daníel að ný þörf hafi orðið til með auknum fjölda rafbíla í fjöleignarhúsum. Eignaumsjón hafi þurft að koma henni inn í sína ferla. „Hleðsla rafbíla er orðin hluti af húsgjöldum í sameignum húsfélaga. Við bjóðum upp á þjónustu til að koma rafmagnskostnaðinum inn í gjöldin. Það hefur mælst mjög vel fyrir.“

Annað verkefni sem komið er inn á borð Eignaumsjónar er umsjón með aðgangsstýringum. „Það eru víða komin aðgangskerfi í fasteignir. Utanumhald slíkra kerfa er oft brotakennt og okkar þjónusta gengur út á að halda utan um stýringarnar og kerfin sem eru í notkun.“

Glæsilegar fasteignir

Daníel segir að góður stígandi sé í fyrirtækinu og margar glæsilegar nýjar fasteignir hafi bæst í viðskiptavinahópinn upp á síðkastið. Hann segir að Eignaumsjón búi yfir ítarlegum vottunum á öllum sviðum. „Við höfum til dæmis fengið úttektir sem snúa að meðferð fjármuna, enda erum við að höndla með mikla fjármuni fyrir húsfélögin. Einnig erum við vottuð gagnvart persónuverndarmálum, gagnaöryggi og fleiru. Við göngumst undir próf reglulega til að hafa allt 100%.“

Átta hundruð húsfélög nýta sér þjónustu Eignaumsjónar. Á bak við þá tölu eru um tuttugu þúsund fasteignir. „Við höfum líka lagt áherslu á að styrkja þjónustu við eigendur atvinnuhúsnæðis. Þar getum við tekið að okkur að reka fasteignina, sjá um framkvæmdastjórn og alla daglega umsjón. Við nálgumst slík mál af fagmennsku og hlutleysi,“ segir Daníel að lokum.

Umsjón

Átta hundruð húsfélög nýta sér þjónustu Eignaumsjónar.

Hleðsla rafbíla er orðin hluti af húsgjöldum í sameignum húsfélaga.

Tvö meginsvið: Þjónustusvið og fjármálasvið.

Fjögur stoðsvið: Atvinnuhús, sala og samskipti, þróun og tækni.