Fólk keppist við að fylgja tækninni en í heimi þar sem allir hafa rödd og geta æpt að vild getur verið óþægilegt að hafa of mikið af sjálfstæðum skoðunum.
Fólk keppist við að fylgja tækninni en í heimi þar sem allir hafa rödd og geta æpt að vild getur verið óþægilegt að hafa of mikið af sjálfstæðum skoðunum. — Mynd/AfP
Ef maður kannar landslagið vel og af áhuga þá er maður allt í einu kominn með réttar skoðanir á öllum málum.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Þörfin fyrir að njóta viðurkenningar annarra er afar skiljanleg og eðlileg og sennilega blómstrar hún hvergi betur en á samfélagsmiðlum. Þar eru einstaklingar sem fagna einlæglega hverju einasta like sem þeir fá og telja þau samviskusamlega í lok dags. Því fleiri sem þau eru því öruggari er staðfestingin á því að viðkomandi sé góður einstaklingur sem öðrum líki almennt afskaplega vel við.

Til að viðhalda þessari ímynd af sjálfum sér sem vel heppnaðri manneskju er best að hafa réttu skoðanirnar. Vandinn er sá að það liggur ekki alltaf í augum uppi hver er rétta skoðunin hverju sinni. Til að komast að því er best að svipast um og kanna landslagið áður en maður kemur sér upp skoðun. Það fylgir því nefnilega nokkur áhætta í nútímasamfélagi að hafa of mikið af sjálfstæðum skoðunum, vita hvað manni finnst um ákveðna hluti og tjá skoðun sína hiklaust án tillits til þess hvað öðrum finnst. Slíkt getur kostað mikið vesen og maður getur mætt formælingum og fordæmingu.

Á samfélagsmiðlum er til dæmis engan veginn gott að hafa skoðun sem á ekki upp á pallborðið. Þá fækkar like-unum mjög, sem er náttúrlega ekki gaman. Like á samfélagsmiðlum er eins og uppklapp, staðfesting þess að maður sé í góðu lagi. Það er nöturleg upplifun fyrir öfluga samfélagsmiðlanotendur að fá þar yfir sig holskeflu af skömmum. Það getur meira að segja leitt til þess að sjálfsmyndin hrynji og þá er fátt til ráða, annað en að beygja sig í duftið, játa mistök sín og afneita skoðun sinni, enda var hún greinilega, í ljósi harðra viðbragða annarra, sett fram af umfangsmikilli vanþekkingu.

Vilji maður lifa lífinu með því að endurspegla sig í áliti annarra þá er best að koma sér upp skoðun sem rímar við skoðun þeirra. Það getur kostað nokkra rannsóknarvinnu en yfirleitt tekur hún ekki langan tíma. Sumt er nokkuð augljóst. Lengi hefur verið vitað að rétt sé að vera á móti Reykjavíkurflugvelli – eiginlega bara af því bara. Svo verður maður að sýna samfélagslega ábyrgð með því að telja allar aðgerðir í covid-faraldrinum fullkomlega réttlætanlegar, enda trúði maður staðfastlega á þríeykið góða og efaðist aldrei. Svo er maður verulega umhyggjusöm manneskja ef maður er á móti hvalveiðum. Best er líka að vera vegan, en samt ekki nauðsynlegt. Alls ekki á að spyrja spurninga um kynfræðslu barna í skólum. Slíkt opinberar á sláandi hátt hversu forpokaður maður er, eiginlega versta tegund af pempíu. Alverst er að spyrja upphátt hvort hugsanlega þurfi að endurhugsa útlendingamálin á einhvern hátt, með því er maður að auglýsa kaldlyndi sitt á einkar ósvífinn hátt. Næstum því jafn vont er að halda því fram að MeToo-hreyfingin hafi gengið of langt og að engan veginn sé hægt að samþykkja að ásökun jafngildi sekt. Svo er brýnt að muna að segja „öll“ í staðinn fyrir „allir“ og ekki segja „þeir“ nema í neyð.

Það kostar því stúss að koma sér upp réttri skoðun, en það er alls ekki eins erfitt og ætla mætti. Ef maður kannar landslagið vel þá er maður allt í einu kominn með réttar skoðanir á flestum málum. Ekkert vesen fylgir því og svo að segja öllum líkar vel við mann. Nema afturhaldsliðinu sem samanstendur svo að segja af öllum sem eru ósammála manni.

Maður getur sem sagt með stolti auglýst sig sem vel upplýsta og góðviljaða manneskju, nett vinstri sinnaða, en samt ekki um of. Maður vill alls ekki fara út í sósíalismann því þá er maður orðinn þröngsýnn.

Einhver myndi kannski halda því fram að skoðanaskipti og rökræður eigi að heyrast í miklum mæli í þjóðfélagi sem í orði kveðnu fagnar fjölbreytileikanum. Það er allt í lagi fyrir þá sem þola álagið, sem fylgir því að hafa aðra skoðun en þá viðteknu, að stunda rökræður. Þeir geta samt ekki ætlast til að aðrir taki þátt í þeim. Umræða þar sem ólík sjónarmið koma fram er ekki í sérstaklega miklu uppáhaldi í þjóðfélagi sem byggir á hraða og æsingi.

Þess vegna er heppilegast að kúra í þægilegum skoðunum sem engan styggja og flestir geta verið sammála um. Því fylgir alls ekkert vesen. Og flest villjum við vera laus við vesen