MDE má ekki sækja sér völd að vild en gerir það nú samt

Sumption lávarður, fyrrverandi hæstaréttardómari í Bretlandi, ritaði á dögunum grein í vikuritið Spectator og færði rök fyrir því að Bretar segðu sig frá Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ekki vegna þess að hann vilji draga úr mannréttindum eða vörn þeirra, heldur hafi Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) í Strassborg grafið undan stjórnskipun og lýðræði aðildarríkjanna.

Íslendingar eiga aðild að sáttmálanum og leita réttlætisins reglulega í Strassborg, svo alvarleg, málefnaleg gagnrýni á MDE eða sáttmálann á einnig erindi hér.

Lávarðurinn ítrekar að í þessari gagnrýni felist enginn afsláttur á mannréttindum, enda sé sáttmálinn ekki ómissandi til varnar mannréttindum í Bretlandi. Þorri réttinda hans hafi verið letraður í landslög fyrir, en í honum sé ekkert annað, sem ekki megi taka upp með einfaldri lagasetningu, svo mannréttindin yrðu í engu skert.

Eini munurinn yrði sá að MDE í Strassborg hefði ekki lengur lögsögu í Bretlandi.

Það skiptir öllu máli, því skv. 32. gr. sáttmálans hefur dómstóllinn sjálfdæmi um lögsögu sína og getur fyrir vikið aukið við völd sín og lögsögu að vild. Það hefur hann gert og það er meinið.

Árið 1978 úrskurðuðu dómarar við MDE að sáttmálinn væri „lifandi skjal“ sem dómarar mættu og ættu að þróa áfram með viðurkenningu og upptöku nýrra réttinda í anda upphaflega sáttmálans þó þau væri þar ekki að finna.

Þannig hefur rétturinn tekið 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs gagnvart hnýsni hins opinbera og endurtúlkað þannig að hún nái til hvers þess, sem skert getur athafnafrelsi einstaklingsins. En það á við um nánast öll lög, svo þannig sölsaði MDE til sín vald til þess að hafa yfir megninu af löggjöf aðildarríkjanna að segja, allt frá forræðismálum og skipulagsmálum til útburðar leigjenda og umhverfismála.

Sumption segir að með þessu hafi MDE gengisfellt mannréttindi sem hugtak. Sáttmálinn hafi upphaflega verið göfug og skýr skrá algildra grundvallarréttinda hins stærsta, en væri orðinn lágkúrulegur og uppáþrengjandi um hið smæsta.

Stærstur vandinn væri þó sá, að með því að helga sjálfum sér lokadóm um hvað sem er, stórt og smátt, græfi MDE undan löggjöf, lýðræðislegu umboði og dómstólum í hverju aðildarríkja sáttmálans. Þetta sæist í hvert sinn sem fjallað væri um skilyrt réttindi, þar sem tilteknir almannahagsmunir geta trompað tiltekin mannréttindi.

Hver á að dæma um það í lýðræðisþjóðfélagi? spyr Sumption lávarður og minnir á að það sé einmitt helsta verkefni lýðræðislegra stjórnvalda og stjórnmálaþátttöku að leita svara við erfiðum pólitískum spurningum af því tagi, þar sem svörin eru ekki hvarvetna eða alltaf hin sömu.

Mannréttindadómstóllinn hafi hins vegar ákveðið að við pólitískum spurningum af því tagi færi best á því að dómarar veittu lokasvarið, óháð því sem kjósendur kynnu að vilja.

Í sáttmálanum, sem tók gildi 1950, var ekkert sem mælti fyrir um þessa þróun, ekkert gaf nokkuð slíkt til kynna. Ekkert aðildarríki hefur undirritað neitt í þá veru, heldur er það dómstóllinn einn sem hefur útvíkkað völd sín og lagt á lög án lýðræðislegs umboðs til þess.

Sáttmálinn er lög dómstólsins og hann verður að halda sig innan marka þeirra. Dómstóllinn má ekki færa þau mörk til sjálfur og dómendur geta ekki verið dómarar í eigin sök frekar en aðrir.

Margir dómar frá Strassborg eru ugglaust góðir. En MDE var aldrei falið að vera æðsta dómsvald, hvað þá löggjafi, í aðildarríkjum Evrópuráðsins.

Samt segja dómararnir í Strassborg að þetta illa fengna löggjafarvald sé lýðræðislegt, því lýðræðið felist ekki aðeins í atkvæðagreiðslum og umboði, heldur sé lýðræðið falið í leikreglum sem dómstóllinn standi vörð um. Ákvarðanir hans séu því lýðræðislegar, hvað sem lýðnum kann að finnast.

Auðvitað stenst það ekki. Dómstóllinn er reistur á sáttmálanum, en dómstóllinn hefur leyst sig undan upphaflegum ákvæðum hans án þess að spyrja aðildarríki sáttmálans. Það er ekki góður vitnisburður um virðingu hans fyrir lýðræðislegum leikreglum, eða leikreglum almennt.