Ekki hafa verið færri börn á biðlista eftir þjónustu á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans síðan árið 2006. Nú eru börnin 49 sem bíða eftir þjónustunni en í janúar á þessu ári voru þau 124, eða ríflega tvöfalt fleiri. „Við vorum…

Ekki hafa verið færri börn á biðlista eftir þjónustu á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans síðan árið 2006. Nú eru börnin 49 sem bíða eftir þjónustunni en í janúar á þessu ári voru þau 124, eða ríflega tvöfalt fleiri.

„Við vorum komin í mjög erfið mál með biðtímann,“ segir Sigurveig Sigurjónsdóttir Mýrdal, deildarstjóri hjúkrunar á BUGL, í samtali við Morgunblaðið.

Sigurveig segir að meðal annars megi tvennu þakka að færri börn bíði nú eftir þjónustu. Skipuritsbreytingar hjá Landspítalanum árið 2021 spiluðu inn í en einnig aukið fjármagn til BUGL í upphafi þessa árs. Björninn er þó ekki unninn því stór hluti þeirra 49 barna sem enn eru á biðlistanum er búinn að bíða lengur en í þrjá mánuði. Meðalbiðtími barnanna er fimm og hálfur mánuður, segir Sigurveig og bætir við að það sé of langur tími.

„Við erum mjög lengi búin að vera mjög óánægð með þennan langa biðtíma. Umhyggja okkar fyrir börnunum, sem við erum í vinnu fyrir, á ekki bara að felast í því að reyna að verða að liði þegar þau og fjölskyldur þeirra komast loksins að hjá okkur – við eigum líka, þegar ljóst þykir að þau þurfi sjúkrahússþjónustu, að tryggja að þau komist fljótt að,“ segir Sigurveig. Hún bætir við að þetta sé stóra verkefnið sem liggi nú fyrir og þurfi að gera betur.

Hún segir styttingu biðlistans vera ákveðinn áfangasigur en að baráttan sé ekki búin. „Við höfum gert mikilvægar breytingar á áherslunum og vinnulaginu hjá okkur sem eru að skila árangri. Nú viljum við halda áfram því sem gengur vel og gera enn þá betur,“ segir Sigurveig. » 4