Fjölskyldan Á ferðalagi um Normandí-hérað í Frakklandi árið 2019.
Fjölskyldan Á ferðalagi um Normandí-hérað í Frakklandi árið 2019.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjöfn Jóhannesdóttir er fædd 2. október 1953 í Reykjavík og átti fyrstu bernskuárin heima á Njálsgötu 92. „Þar var ánægjulegt að alast upp, alltaf nóg við að vera og margir krakkar í hverfinu, í Norðurmýrinni.“ Skólaganga Sjafnar hófst í …

Sjöfn Jóhannesdóttir er fædd 2. október 1953 í Reykjavík og átti fyrstu bernskuárin heima á Njálsgötu 92. „Þar var ánægjulegt að alast upp, alltaf nóg við að vera og margir krakkar í hverfinu, í Norðurmýrinni.“

Skólaganga Sjafnar hófst í Ísaksskóla en síðan flutti fjölskyldan á Laugarásveginn þar sem foreldrar hennar byggðu hús. Þá fór hún í Langholtsskóla og síðan lauk hún landsprófi í Vogaskóla. „Ég fór aldrei í sveit á sumrin, en á mínum æskuárum voru að hefjast ýmiss konar sumarnámskeið fyrir börn og ég var t.d. nokkur ár í skólagörðunum sem voru í Laugardalnum og einu sinni um 11-12 ára aldur man ég eftir námskeiði í matreiðslu – við allar stelpurnar sem sóttum það námskeið fengum hvítan kappa og svuntu og vorum heldur betur upp með okkur í þeim búningi.“

Sjöfn varð svo stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1973. „Lítið varð um fagnaðarlæti í tilefni af útskriftinni, því daginn eftir síðasta prófið fór ég á fæðingardeildina og eignaðist einkasoninn. Sama ár gengum við Gunnlaugur í hjónaband og fyrsta heimili okkar var á Austurgötunni í Hafnarfirði.

Þegar ég var lítil, um 6-7 ára, var ég gjarnan spurð hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Þá svaraði ég að ég vildi verða prestur. Þá brosti fólk og sumir sögðu að bara karlmenn gætu verið prestar. Guðfræðin varð fyrir valinu og eftir að ég lauk guðfræðiprófi fluttumst við hjónin austur á firði.“

Sjöfn var vígð til prestsþjónustu í Kolfreyjustaðarprestakalli, en þar leysti hún af um tíma. Síðar leysti hún af sem prestur á Hornafirði, en síðan tók hún við Djúpavogsprestakalli og þjónaði þar í næstum 30 ár eða til ársins 2019.

„Við hjónin vorum með það sem kallað hefur verið „samlokubrauð“. Þjónuðum tveimur brauðum hlið við hlið. Það voru nú samt 70 km á milli okkar, ég var með prestsbústað á Djúpavogi og bjó þar og Gunnlaugur var í Heydölum. Það gat verið svolítið púsluspil að hittast, ekki síst um jól og stórhátíðir, en allt gengur nú vel með góðum vilja og svo er fjölskyldan ekki stór – sonurinn fór ungur í heimavistarskóla og kom bara heim á sumrin og í jóla- og páskafrí.

Prestsþjónustan er þannig starf að maður er í miklum tengslum við fólk og á þessum 30 árum á Djúpavogi og nærsveitum kynntist ég mörgum vel, kom á mörg heimili og á dásamlegar minningar um gott samstarf við fólk. Ég þjónaði fjórum kirkjum sem eru Hofskirkja í Álftafirði, Djúpavogskirkja, Berufjarðarkirkja og Beruneskirkja og einnig var Papeyjarkirkja í prestakallinu mínu. Ný kirkja var byggð á Djúpavogi í minni tíð og var hún vígð árið 1996. Það var stórt átak fyrir lítinn söfnuð og mikil reynsla fyrir mig sem prest að vera ásamt sóknarnefnd í forystu fyrir kirkjubyggingunni, frá fyrstu skóflustungu til vígslu kirkjuhússins.“

Einn vetur voru þau hjónin við framhaldsnám í Berkeley í Kaliforníu. „Það var ánægjulegt að kynnast lífinu þar og ekki síður kirkjulífinu og lúthersku kirkjunni í Bandaríkjunum. Í háskólanum sem ég sótti var mikil áhersla lögð á samtal trúarbragðanna. Það kynnti ég mér mjög mikið og fór m.a. í helgardvöl hjá búddistum, til föstudagsbæna hjá múslimum og margt fleira. Auður trúarbragðanna er svo mikill og við erum svo umvafin menningu trúar okkar, hver sem hún er, það finnur maður vel í fjölmenningarlegu umhverfi eins og er í Kaliforníu.“

Eftir að Sjöfn flutti suður þjónaði hún lengst sem prestur í Kársnesprestakalli. „Það voru dýrmæt ár í reynslusjóðinn og þar vann ég með yndislegu fólki. Ég hef reynslu af litlu sóknum á landsbyggðinni, með suðandi flugum í kirkjugluggunum, þar sem margir koma að starfinu, búa til kaffi og kökur fyrir kirkjukaffið, syngja í kórnum og hreinsa kirkjuna og slá kirkjugarðinn – og svo stórum söfnuði eins og Kársnessöfnuði, þar sem áherslur eru aðrar en alltaf skiptir mestu að leitast við að gera eins vel og við getum, reyna að tengjast fólki og láta gott af sér leiða. Kirkjan er samfélag – í litlum söfnuðum og stórum söfnuðum.

Við hjónin höfum lengi verið með hesta og erum nú með hesta í Hafnarfirði. Þá höfum við gaman af að veiða, förum helst í nokkrar veiðiferðir á sumrin og veiðum á flugu. En við höfum víða farið að veiða, m.a. til Argentínu, og hér á Íslandi eru svo margar fallegar ár. Það er alltaf gaman að ferðast um Ísland og við höfum einnig farið víðar og gjarnan til landa og heimsálfa sem eru ólík okkar vestræna heimshluta.“

Fjölskylda

Eiginmaður Sjafnar er Gunnlaugur Stefánsson, f. 17.5. 1953 í Hafnarfirði, fyrrverandi sóknarprestur í Heydölum og fyrrverandi alþingismaður. Foreldrar Gunnlaugs voru hjónin Margrét Guðmundsdóttir, f. 18.7. 1927, d. 13.3. 2013, húsmóðir og dómritari, og Stefán Gunnlaugsson, f. 16.12. 1925, d. 23.3. 2016, bæjarstjóri í Hafnarfirði, alþingismaður og skrifstofustjóri. Þau voru búsett í Hafnarfirði.

Sonur Sjafnar og Gunnlaugs er Stefán Már Gunnlaugsson, f .25.5. 1973, héraðsprestur í Kjalarnesprófastsdæmi. Maki: Lilja Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur. Synir þeirra eru Gunnlaugur Örn, f. 2001, Hermann Ingi og Kristján Hrafn, f. 2005, og Þorkell Fannar, f. 2008. Þau eru búsett í Hafnarfirði.

Systur Sjafnar eru Sigurbjörg, f. 1943, fv. skrifstofumaður, Ragnhildur, f. 1945, kennari og viðskiptafræðingur, og Guðbjörg, f. 1948, fv. verkefnastjóri, allar búsettar í Reykjavík.

Foreldrar Sjafnar voru hjónin Guðmundína Dýrleif Hermannsdóttir, f. 2.2. 1918, d. 7.11. 1989, húsmóðir, og Jóhannes Ragnar Bergsteinsson, f. 3.1. 1912, d. 10.12. 2010, múrari. Þau voru búsett í Reykjavík.