Njála Sigurbjörg Vídalín fæddist 20. desember 1953. Hún lést 18. september 2023.

Útför hennar fór fram 28. september 2023.

Minningar um Njálu, þessa yndislegu konu, hrannast nú upp. Þessar minningar eru dýrmætar og ótalmargar enda átti Njála auðvelt með að laða að sér fólk sem fannst gaman að umgangast hana enda alltaf mikið stuð í kringum hana og einstaklega skemmtileg og skarpgreind kona. Hún var fylgin sér og stóð á sínu ef svo bar undir.

Við nokkrar frænkur hittumst reglulega í matarboðum sem við skiptumst á að halda og það síðasta var hjá þér þar sem Gísli galdraði fram þessi æðislegu hægelduðu lambalæri með öllu tilheyrandi. Þetta var frábært kvöld þar sem mikið var skrafað og hlegið. Þú varst alltaf dugleg að vera í samskiptum við okkur allar til að vita hvað væri að frétta og hvort allir hefðu það ekki gott. Þú varst mikill dýravinur og áttir mikið af verðlaunahundum í gegn um tíðina og varst dugleg að passa hunda fyrir aðra.

Það var alltaf gaman að heyra sögurnar af því þegar þið Gísli fóruð í jeppaferðir en það gerðuð þið reglulega fyrir allnokkrum árum. Þið voruð að fara með fullt af jeppafólki í hálendisferðir en þú varst svo bílhrædd og labbaðir ófáa spotta þegar þú þorðir ekki að sitja í bílnum. Ef þú neyddist til þess að vera í bílnum þá lástu aftur í og hélst fyrir augun. Þú varst líka lofthrædd þannig að ef það var verið að keyra í brattri hlíð þá leið þér illa.

Elsku Njála, lífið er skrítið og dauðinn óumflýjanlegur, þín verður sárt saknað.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Við sendum Gísla, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabarni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þínar frænkur,

Eyrún, Lilja,
Ásthildur og Bjarklind.

Það gekk kraftmikil og skemmtileg kona inn í Tollhúsið sumarið 2000 þegar Njála Vídalín hóf störf hjá Tollstjóranum í Reykjavík en hún starfaði hjá embættinu til ársins 2020 þegar hún fór á eftirlaun. Fékkst hún við hin margvíslegustu störf hjá embættinu, allt frá því að sjá um símsvörun, einkennisklæðnað, alls kyns viðvik og þjónustu við starfsfólk og viðskiptavini enda var hún mjög þjónustulunduð og röggsöm í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Starfaði hún um tíma í starfsstöð tollgæslunnar á Héðinsgötu og kynntust tollverðir þar hve lagin og úrræðagóður starfskraftur hún var. Það sama á við um okkur sem störfuðu með henni í Tollhúsinu. Njála var ætíð glaðleg og gekk samviskusamlega til allra verka. Einnig bar hún umhyggju fyrir samstarfsfólki sínu og margir nutu þeirra veitinga sem hún oft og iðulega keypti handa vinnufélögum sínum auk þess sem margir vissu að þegar kom að hundum og umhirðu þeirra höfðu þau hauk í horni í henni Njálu. Hún tók virkan þátt í öllu félagslífi sem tengdist vinnunni og segja má að allir sem á annað borð stigu fæti inn í Tollhúsið vissu hver Njála var og hvaða mann hún hafði að geyma. Eftir að hún hætti að vinna kom hún í heimsóknir á sinn gamla vinnustað auk þess að halda sambandi við þá fjölmörgu vini sem hún átti þar. Við sáum að veikindin sem einkenndu síðustu ár hennar lögðust þungt á hana en samt var hún alltaf jafn hispurslaus og glöð í skapi og hún hafði alltaf verið.

Nú þegar hún er horfin inn í sumarlandið langar okkur að votta Gísla og fjölskyldu okkar dýpstu samúðarkveðju.

Fyrir hönd vinnufélaga úr Tollhúsinu,

Valur Freyr Steinarsson.