Viðtal
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Á undanförnum misserum hefur átt sér stað lífleg umræða um þá tilhneigingu íslenskra stjórnvalda að innleiða ESB-reglugerðir með meira íþyngjandi hætti en þörf er á. Hafa fulltrúar atvinnulífsins bent á að svokölluð „gullhúðun“ reglugerða leggi þungar byrðar á herðar íslenskum fyrirtækjum og dragi úr samkeppnishæfni þeirra.
Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, segir innleiðingu sjálfbærnilöggjafar ESB sýna vel það tjón sem á sér stað þegar ekki er gætt eðlilegs hófs við reglusetningu, en VÍ birtir í dag á heimasíðu sinni grein þar sem skorað er á stjórnvöld að vinda ofan af kostnaðarsamri gullhúðun. Vísar greinin til úttektar VÍ frá því í sumar á milljarða kostnaði sem atvinnulíf varð fyrir vegna íþyngjandi innleiðingar á aðeins einni reglugerð.
„Árið 2016 innleiddu íslensk stjórnvöld sjálfbærniregluverk ESB, svk. NFRD-reglur. Þetta regluverk snýr einkum að upplýsingagjöf um ýmsa mælikvarða í rekstri fyrirtækja og knýr þau til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif eigin rekstrar á umhverfið og samfélagið,“ útskýrir Gunnar. „Þegar rýnt er í hvernig innleiðingin fór fram hér á landi kemur í ljós að víða var pottur brotinn og skilyrði reglugerðarinnar hert svo að margfalt fleiri fyrirtæki en ella féllu undir gildissvið hennar.“
Náði til margfalt fleiri fyrirtækja en til stóð
Bendir Gunnar á að það hafi verið ætlun ESB að láta NFRD-reglurnar ná eingöngu til stórra fyrirtækja enda flókið og kostnaðarsamt að fullnægja þeim kröfum sem reglurnar útlista og verulega íþyngjandi fyrir félög sem ekki hafa þeim mun meiri fjárhagslega burði. „Viðmið ESB var að sjálfbærnilöggjöfin ætti eingöngu við félög sem varða almannahagsmuni og uppfylltu að auki ákveðin skilyrði um stærðarmörk: hrein velta skyldi vera yfir jafnvirði 6 milljarða króna, efnahagsreikningurinn ekki lægri en 3 milljarðar króna og starfsmannafjöldinn yfir 500. Við innleiðingu á Íslandi var hins vegar farin sú leið að NFRD-reglurnar ættu við öll félög sem vörðuðu almannahagsmuni, án tillits til stærðar, og að auki öll félög sem fullnægðu fyrrnefndum stærðarmörkum, nema að viðmið um starfsmannafjölda var lækkað úr 500 í 250.“
Viðskiptaráð fékk Creditinfo til að mæla hve mörg félög féllu undir viðmið ESB annars vegar og séríslensku viðmiðin hins vegar. „Niðurstaðan var sú að í stað þess að ná til 35 fyrirtækja, ef viðmiðum ESB hefði verið fylgt, ná nýju reglurnar til 268 fyrirtækja og er uppsafnaður viðbótarkostnaður atvinnulífsins af þessari útvíkkun áætlaður 9,8 milljarðar króna fram til dagsins í dag,“ segir Gunnar.
Kostnaðurinn hlýst af því að sjálfbærniregluverkið gerir mjög ríkar kröfur um skýrslugerð og mælingar. Sem dæmi er NFRD-skýrsla Deutsche Bank 149 blaðsíður að lengd og tiltekur allt frá kolefnisspori bankans yfir í möguleg áhrif starfseminnar á mannréttindi og vernduð svæði á heimsminjaskrá UNESCO. „Dýrast er að gera skýrsluna í fyrsta sinn og áætlum við að fyrsta árið kosti hvert fyrirtæki um 9 milljónir króna. Hvert ár eftir það fara að jafnaði tæpar 8 milljónir í skýrslugerðina, enda þarf að uppfæra tölur og safna saman gögnum.“
Spurður hvort þessi mikla upplýsingaöflun og -miðlun kunni að borga sig segir Gunnar að ráðamenn í Brussel hafi greinilega metið það sem svo að ávinningur væri af þessum árlegu skýrslum, en að kostnaðurinn samsvaraði væntanlega ekki ávinningi í tilviki minni fyrirtækja og ætlunin því aðeins verið að láta NFRD-kvaðir ná til þeirra allra stærstu. „Þetta er regluverk sem sniðið er að milljónaþjóðum og skýtur það skökku við að við séum að innleiða það með meira íþyngjandi hætti hér á landi.“
Evrópuþjóðir óttast kviksyndi reglugerða
Þá bendir Gunnar á að fram undan sé innleiðing svokallaðrar CSRD-tilskipunar sem tekur við af NFRD-tilskipuninni. Felur CSRD í sér mun ítarlegra regluverk um birtingu sjálfbærniupplýsinga og mun ná til 48.000 fyrirtækja innan ESB í stað 11.000 áður. Gætir þó andstöðu hjá stjórnvöldum í Þýskalandi, Frakklandi og víðar sem óttast einmitt að CSRD feli í sér of mikla útvíkkun og of mikinn kostnað fyrir meðalstór fyrirtæki, en ein af breytingunum sem fylgja CSRD er að lækka viðmið um fjölda starfsmanna úr 500 í 250, líkt og Ísland hefur gert frá árinu 2016. „Þvert á móti eru stjórnvöld víða í Evrópu farin að leita leiða til að ráðast til atlögu við allt of flókið regluverk sem þau óttast að sé orðið að hálfgerðu kviksyndi fyrir atvinnulífið.“
Gunnar minnir á að NFRD-reglurnar séu aðeins eitt dæmi af mörgum um óþarflega íþyngjandi og kostnaðarsama innleiðingu Evrópureglugerða, og vísar til stöðuskýrslu um einföldun gildandi regluverks sem ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur lét vinna fyrir tæpum áratug. Þar var til skoðunar 21 frumvarp sem orðið hafði að lögum vegna EES-reglna og hafði löggjafinn í sjö tilvikum gengið lengra en þurfti. Segir Gunnar nýjasta dæmið um þessa tilhneigingu vera umdeilt frumvarp heilbrigðisráðherra um lyfjagagnagrunn sem gerir kröfu um rauntímaskráningu um það bil 300 sinnum fleiri lyfja hér á landi en gert er í reglugerð ESB.
Þrátt fyrir þetta nýjasta tilvik telur Gunnar að umræðan að undanförnu hafi vakið stjórnkerfið til vitundar um mikilvægi þess að gæta hófs við innleiðingu á Evrópureglum og að víða hafi verið stigin skref í þá átt að minnka flækjustig regluverksins almennt. „En þetta er ekki spretthlaup, heldur langhlaup, og kallar á stöðugt aðhald. Þá er ekki nóg að forðast gullhúðun við innleiðingu reglna í framtíðinni heldur verður líka að vinda ofan af þeim innleiðingum sem þegar hafa átt sér stað og eru að valda hagkerfinu óþarfa kostnaði.“
Bendir Gunnar á að þrátt fyrir að smæð Íslands hafi ákveðna ókosti sé það einn af helstu styrkleikum atvinnulífsins og stjórnkerfisins að nýta má smæðina til að stytta boðleiðir og auka snerpu hagkerfisins. „Allt of flókið regluverk skapar umgjörð sem hamlar fyrirtækjum að nýta sér þennan styrkleika sem skyldi.“
Eitt inn og tvö út?
Vaxandi flækjustig regluverks á Íslandi skrifast ekki bara á EES-samstarfið og segir Gunnar innlendar stofnanir mjög iðnar við að semja ný lög og reglur. Er flaumurinn slíkur að sum árin hefur látið nærri að ný reglugerðarbreyting hafi verið gefin út fyrir hvern einasta dag ársins.
Spurður hvernig mætti koma böndum á ofvöxt regluverksins segir Gunnar að sum ráðuneyti hafi þegar sýnt gott frumkvæði með verkefnum sem miðað hafa að því fella úreltar reglugerðir úr gildi og jafnvel sameina ólíkar reglugerðir í eina þar sem því er við komið.
Þykir Gunnari einnig forvitnilegt að skoða möguleikann á að innleiða þau vinnubrögð að fyrir hvert frumvarp eða reglugerð sem tekur gildi séu tvö felld niður á móti. „Í Bretlandi var unnið eftir þeirri aðferð árið 2012 og gaf góða raun. Í Evrópusambandinu er skilningurinn á ókostum reglufargansins orðinn slíkur að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, gaf það út að þar eigi að vinna eftir reglunni eitt-inn-eitt-út sem a.m.k. kemur í veg fyrir að farganið aukist frá því sem nú er. Á Íslandi gaf ráðgjafarnefnd út skýrslu um að fara m.a. þessa leið, til að einfalda gildandi regluverk, en síðan fór það starf ekkert lengra. Er ef til vill tímabært að dusta rykið af þeim tillögum.“
Flækjustig
Þýskaland og Frakkland spyrna við fótum vegna íþyngjandi reglna.
Vitundarvakning í ESB og á Íslandi um að draga verði úr reglufargani.
Um leið og forðast þarf frekari gullhúðun ESB-reglugerða þarf að laga mistök sem þegar hafa verið gerð við innleiðingu.