Gísli Einarsson Þorsteinsson fæddist í Vestmannaeyjum 20. nóvember 1938. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 19. september 2023.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Gíslason, f. 1914, d. 1975, og Marta Sonja Magnúsdóttir, f. 1914, d. 2010. Gísli var annar í röð sjö systkina en þau eru: Oddgeir Magnús, f. 1936, d. 2001, Erling Þór, f. 1940, d. 2018, stúlka, f. 1942, d. 1942, Þorsteinn, f. 1944, d. 2020, Halldór, f. 1946, og Sonja, f. 1947.

Árið 1960 kvæntist Gísli Ingibjörgu Sæmundsdóttur. Foreldrar hennar voru Sæmundur Úlfarsson, f. 1905, d. 1982, og Guðlaug Einarsdóttir, f. 1915, d. 2007. Börn Gísla og Ingibjargar: 1) Úlfar, f. 1960. Sambýliskona hans er Gerður Stefánsdóttir. Sonur Úlfars er Ævar Örn og sonur Gerðar er Stefán Hrafn. 2) Marta Sonja, f. 1961. Eiginmaður hennar var Brynjar Sigurgeir Sigurðsson. Börn þeirra eru: Sæunn Ingibjörg, Ólöf Anna, Gísli Þór og Sigrún Ásta. 3) Þorsteinn, f. 1962, d. 2002. Eiginkona hans var Susanne Anne Marie Gíslason. Börn hans eru Emanúela Lind og Aron Freyr. Fyrir átti Þorsteinn soninn Inga Þór og móðir hans er Gróa Guðmundsdóttir Barnabarnabörnin eru nú 19 talsins. Gísli og Ingibjörg slitu samvistum 1981.

Gísli hóf ungur nám í múriðn og vann við það nánast alla tíð. Sjósókn stundaði hann þó í nokkur ár en 1962 fluttu þau Ingibjörg austur í Fljótshlíð. 1964 keyptu þau Vindás í Hvolhreppi og þau eru mörg húsin í Hvolhreppi og nærsveitum sem Gísli múraði af sinni alkunnu fagmennsku. Á Vindási átti hann sín bestu ár, stundaði hestamennsku og átti hann margverðlaunaðan hlaupahest sem Gráni hét.

Gísli bjó í Reykjavík síðustu þrjátíu árin og vann við sitt fag þar til fyrir þremur árum eða þar til heilsan leyfði ekki meir.

Útför Gísla fer fram í dag, 2. október 2023, klukkan 15.

Í dag fylgi ég Gísla bróður í hans hinstu ferð.

Hann var næstelstur fimm bræðra minna. Ungur fór hann að heiman til vinnu, eins og þá tíðkaðist, og fljótt snerist hugur hans að múrverki, sem svo hann lærði og vann við allan sinn starfsaldur. Leið hans lá í Fljótshlíðina, þar sem hann hóf búskap ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Sæmundsdóttur. Þau eignuðust þrjú börn, Úlfar, Mörtu Sonju og Þorstein. Þorsteinn bjó í Svíþjóð, þar sem hann lést, aðeins 40 ára, árið 2002. Hann lætur eftir sig þrjú börn, Inga Þór, Emanúelu Lind og Aron Frey. Þorsteins er sárt saknað. Lengst bjó fjölskyldan á Vindási í Hvolhreppi, og meðfram búskap starfaði Gísli við múrverk. Hann hafði áhuga á hestum, og eignaðist hesta sem keppt var á, og þar var Gráni hans mesta uppáhald. Oft minntist hann Grána upp á síðkastið, en rætt var um að skreppa austur í sumar og kíkja á fólk og hesta. Gísli var handlaginn mjög, og orðlagður fyrir vel unnin múrverk.

Og oft hef ég heyrt honum hrósað. Hann var ekki maður margra orða, en spurði mikið frétta. Þannig munu líklega margir minnast hans, og það geri ég.

En bæði fjarlægðin milli byggðarlaga og aldursmunur okkar gerði að verkum að samgangur milli okkar systkina og fjölskyldna okkar var ekki mikill. En nú í mörg ár höfum við bæði búið hér í borginni, og samskipti okkar aukist jafnt og þétt, okkur báðum til gleði. Oft hringdi hann og spurði hvort ekki væri kaffi núna. Og þá kom hann akandi til okkar, á sínum bíl allt þar til hann veiktist í sumar.

Síðustu árin átti Gísli mjög erfitt með gang, og honum bent á að nota göngugrind. Þeir sem Gísla þekktu geta rétt ímyndað sér að það hugnaðist honum illa.

Hann bjó í íbúð sinni á þriðju hæð í lyftulausri blokk, en upp fór hann á handaflinu einu saman. Hann sagði okkur vinum sínum að þetta væri hans líkamsrækt. Akkúrat húmorinn hans, er við höfðum af því áhyggjur. Hvað ef handtakið brygðist? Mikil var gleði okkar vina hans þegar hann í febrúar á þessu ári fékk þjónustuíbúð á Dalbraut 27 með forgangshraða vegna líkamlegs ástands hans. Og hann, sem aldrei ætlaði að flytja á slíkan stað, fékk loksins þá þjónustu sem hann þurfti. Þar var hann ánægður og gat gengið með sína göngugrind beint út í bíl og ekið brott. Hann lofsamaði góða þjónustu starfsstúlknanna þar. Það var svo um miðjan júní að hann fór að veikjast, og var síðan fluttur alvarlega veikur á sjúkrahús í byrjun júlí. Nú hefur Gísli fengið hvíld, hans tími var kominn.

Margs er að minnast

margt er hér að þakka

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast

margs er að sakna,

Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem)

Takk fyrir samfylgdina elsku bróðir.

Þín systir,

Sonja.

Vinur minn Gísli Þorsteinsson lést á Borgarspítalanum 19. september eftir erfið veikindi.

Kynni okkar hófust fyrir mörgum áratugum, jarðir okkar í Hvolhreppnum lágu saman. Gísli og fjölskylda bjuggu á Vindási og við á Tjaldhólum. Gísli átti margverðlaunaðan hlaupahest sem Gráni hét og margir muna. En, hestamennska er ekki það sem hann var þekktastur fyrir, hann var annálaður og eftirsóttur fagmaður í múrverki. Leiðir okkar Gísla lágu saman aftur hérna í Reykjavík og núna síðustu fimm árin höfðum við verið í miklu sambandi. Fyrir orð mágkonu hans fékk ég hann til að flísaleggja fyrir mig, það var bara byrjunin á tveggja ára vinnu. Ég vil að allt gerist hratt en „múrmesteren“ benti mér á að múrverk yrði ekki rakið upp eins og prjónles svo betra væri að vera viss áður en maður hæfi verkið.

Það kom sér vel fyrir mig að Gísli hafði ekki sama vinnuþrekið og áður enda kominn á níræðisaldur. Ég fékk hann oft til að setjast niður og drekka með mér kaffi, hann var mjög góður hlustandi, lagði ekki mikið til málanna, hefur kannski átt erfitt með að komast að. Það má segja að hann hafi verið hér nánast daglega í tvö ár. Hann grínaðist með að hann yrði seint búinn hér, þar sem ég bætti alltaf á hann verkum, svo væri það tafsamt að hlusta á bullið í mér og ekki bætti úr skák að önnur kerling væri farin að venja komur sínar hingað og fá hann með okkur í verslunarferðir og á kaffihús. Hin meinta kerling Barbara er vinkona mín og samamma, þ.e.a.s. hún er tengdamóðir sonar míns.

Fyrir þremur árum fór ég að taka eftir breytingum á Gísla, hann átti erfiðara með gang, var farinn að rugla saman púslum sem hann átti mikið af og ekki voru þetta bara líkamlegar breytingar, skammtímaminnið var farið að gefa sig, hann fór að tala meira en áður og um hluti sem hann aldrei orðaði fyrr. Allt í einu var ég orðin hlustandi í stað þess að vera alltaf með orðið. Ég held því fram að þessar breytingar hafi orðið okkur báðum til góðs. Það er aldrei of seint að fara að tala um tilfinningar og það er heldur aldrei of seint að læra að hlusta. Ég kynntist Gísla upp á nýtt, í stað þess að greina hann sem skemmtilega karlrembu af gamla skólanum, kynntist ég hlýjum og viðkvæmum manni sem hefði viljað gera hlutina öðruvísi. Árin í Rangárþingi voru honum hugleikin, þar leið honum vel og fannst fólkið svo frábært. Hann sagði oftar en einu sinni að þar hefði hann líka misst allt frá sér sem honum var kærast. Og enn og aftur staðfestist að öl er böl og ekkert er skaðlegra en stjórnlaus áfengisdrykkja, sem bæði drepur hlýjar tilfinningar og ruglar dómgreind manna og kvenna.

Gísli flutti í litla en fallega þjónustuíbúð að Dalbraut 27 í Reykjavík í mars sl. Hann var ánægður þar, hrósaði bæði mat og starfsfólki. Ökuskírteinið endurnýjaði hann í febrúar og hélt áfram að koma í Breiðagerðið, Lóðaþjónustuna og til Sonju systur upp í efri byggðir. Við hugðum á ferðir austur fyrir fjall í sumar en í byrjun júlí varð hann skyndilega veikur og þurfti í aðgerð á fæti. Hann jafnaði sig á henni og fór í endurhæfingu á Landakoti. Við vorum bjartsýn á að hann kæmist heim aftur en af því varð ekki. Hann lést eins og áður sagði á Borgarspítalanum. Hafi Gísli þökk fyrir samfylgdina, við Barbara munum sakna hans og minnast hans af miklum kærleik og sem áhrifavalds í lífi okkar beggja.

Ingibjörg Ottesen.

Nokkur orð um Gísla, vin hennar ömmu, sem dó 19. september.

Þegar ég var níu ára var hann oft hjá ömmu þegar afi var í vinnunni. Bóel frænka sagði að hann væri hinn maðurinn hennar ömmu, svo allt þetta var ofureðlilegt. Gísli sagði ekki margt við okkur Garðar bróður minn, í mesta lagi góðan daginn en þau amma spjölluðu heilmikið um sveitina, hesta og allt mögulegt. Ég man ekki mikið eftir honum en þessar örfáu minningar munu alltaf eiga sér stað í hjarta mínu. Ég man eftir því að koma til ömmu og þar sat Gísli í stólnum sínum. Hann og amma voru að reyna að leysa krossgátu. Litla níu ára ég fann orðið „skröltormur“ á minna en fimm mínútum en þá voru þau búin að leita að því í dágóðan tíma.

Amma Barbí var líka vinkona Gísla, ég man þegar amma Imba var að telja upp vini hans, en gleymdi að telja ömmu Barbí og hann benti á hana pínu móðgaður. Þau þrjú fóru oft eitthvað í bíltúr á daginn, oft í Costco.

Ég sá Gísla ekkert í sumar og ég sé að amma er döpur, hún hefur misst góðan vin sem hjálpaði henni að gera húsið sitt fínt. Við systkinin eigum heima rétt hjá ömmu og komum á hverjum degi fyrir skólann að spila. Það verður skrýtið að sjá Gísla aldrei oftar í rauða stólnum „sínum“.

Guð blessi minningu Gísla Þorsteinssonar.

Guðlaug Bóel Ísleifsdóttir.