Fallbarátta Elvis Bwomono hjá ÍBV og Marciano Aziz úr HK eigast við í Kórnum í gærkvöldi. Bæði lið berjast fyrir lífi sínu í Bestu deildinni.
Fallbarátta Elvis Bwomono hjá ÍBV og Marciano Aziz úr HK eigast við í Kórnum í gærkvöldi. Bæði lið berjast fyrir lífi sínu í Bestu deildinni. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það stefnir allt í æsispennandi lokaumferð í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta þegar fjögur lið berjast um að sleppa við að falla niður í 1. deildina með Keflavík. Fram, HK, Fylkir og ÍBV eru öll á hættusvæði fyrir lokaumferðina

Besta deildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Það stefnir allt í æsispennandi lokaumferð í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta þegar fjögur lið berjast um að sleppa við að falla niður í 1. deildina með Keflavík. Fram, HK, Fylkir og ÍBV eru öll á hættusvæði fyrir lokaumferðina.

Framarar standa best að vígi eftir 1:0-heimasigur á KA í Úlfarsárdal í næstsíðustu umferðinni í gær. Fram hefur nú unnið tvo leiki í röð og ekki tapað í síðustu fjórum. Ragnar Sigurðsson hefur treyst á yngri leikmenn eftir að hann tók við af Jóni Sveinssyni og þeir eru að standa fyrir sínu.

Átján ára hetja

Þengill Orrason, átján ára varnarmaður, skoraði sigurmark Framara í gær. Hann hefur nú gert tvö mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum í meistaraflokki, og það í efstu deild þegar allt er undir í fallbaráttunni. Fram nægir jafntefli gegn Fylki í lokaumferðinni og allt annað en stórtap ætti að vera í lagi hjá þeim bláklæddu.

Með örlögin í sínum höndum

Fylkismenn unnu Keflvíkinga á útivelli, 3:1, eftir að Keflavík komst yfir í fyrri hálfleik. Ásgeir Eyþórsson, Orri Sveinn Stefánsson og Benedikt Daríus Garðarsson gerðu mörkin og sáu til þess að Fylkir er enn með eigin örlög í höndum sér í lokaumferðinni. Fylki nægir sigur gegn Frömurum í lokaumferðinni til að vera réttum megin við línuna þegar öll atkvæði eru talin.

Eyjamenn dönsuðu á línunni

ÍBV var hársbreidd frá því að falla í gær er liðið vann 1:0-útisigur á HK í Kórnum og hélt vonum sínum lifandi. Allt annað en sigur þýddi fall fyrir Eyjamenn og Eiður Aron Sigurbjörnsson bjargaði á línu eftir hættulega aukaspyrnu frá Antoni Söjberg í uppbótartíma. Eiður var sannarlega örlagavaldur í leiknum því hann skoraði einnig sigurmarkið úr víti á 30. mínútu.

ÍBV mætir föllnu botnliði Keflavíkur í lokaumferðinni og verða Eyjamenn að vinna til að eiga einhvern möguleika á að halda sér uppi þar sem þeir eru enn tveimur stigum á eftir Fylki. HK mætir KA í erfiðum leik fyrir norðan í lokaumferðinni. Þar nægir HK-ingum eitt stig til að gulltryggja áframhaldandi veru sína í efstu deild.

Einn besti leikur tímabilsins

Þá er ljóst að Breiðablik og Stjarnan leika í Evrópukeppni á næstu leiktíð, þrátt fyrir að Stjarnan hafi ekki spilað í gær og Breiðablik tapaði fyrir KR í svakalegum leik í Vesturbænum.

Þar sem Valur vann 4:1-stórsigur á FH á Hlíðarenda eiga FH-ingar ekki lengur raunhæfa möguleika á að ná Stjörnunni í fjórða sæti. Þá munar enn þá fjórum stigum á Breiðabliki og FH.

FH-ingar mega vera hundfúlir með sjálfa sig. Þeir voru í góðri stöðu í baráttunni um Evrópusæti eftir tvo sigra í röð á Breiðabliki, en síðan þá hefur liðið tapað þremur leikjum í röð. Þó var tímabilið mun betra en það síðasta þegar liðið var í fallbaráttu.

KR og Breiðablik buðu upp á einn besta leik tímabilsins til þessa, í síðasta heimaleik Rúnars Kristinssonar við stjórn KR-liðsins. Urðu lokatölur 4:3, KR í vil, þar sem KR-ingar skoruðu tvö mörk í uppbótartíma.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson