50 ára Bala ólst upp í Chennai á Indlandi en fluttist til Íslands 2006. „Ég kynntist konunni minni þegar ég var í námi í Louisiana í Bandaríkjunum.“ Bala er hagfræðingur að mennt og er með tvær meistaragráður frá Louisiana State University, önnur þeirra er á sviði upplýsingakerfa og hin í hagfræði.
Bala stofnaði viðburðinn Startup Iceland árið 2009, sem er alþjóðleg frumkvöðlaráðstefna með erlendum og innlendum fyrirlesurum þar sem frumkvöðlar koma saman til að deila reynslu sinni. Hún hefur verið haldin á hverju ári síðan þá fyrir utan covid-árin, 2020 og 2021.
Hann er einnig fjárfestir og er með tvo sjóði, Iceland Venture Studios og Founders Ventures. „Báðir sjóðirnir fjárfesta í sprotafyrirtækjum og höfum við fjárfest í níu fyrirtækjum á Íslandi, þar á meðal Indó banka, Risk ehf., íslensku-smáforritinu Bara tala og Atlas Primer sem hjálpar fólki með lesblindu að stunda nám.“
Bala kennir líka við Háskólann í Reykjavík. „Þar er ég að kenna hvernig á að stofna fyrirtæki og frumkvöðlafræði.“
Bala er formaður Krikketsambands Íslands og spilar með félaginu Kópavogur Puffins. „Við erum að byggja upp krikketáhuga hér á Íslandi. Svo reyni ég að halda mér í formi og það að spila krikket ýtir undir það. Ég er líka í golfi en mitt helsta áhugamál er samt frumkvöðlastarfsemi og sprotafyrirtæki. Fyrir suma gæti það virst vera sem vinna, en fyrir mér er þetta eitt það skemmtilegasta sem ég geri, að vinna með frumkvöðlum að byggja upp bjarta framtíð.“
Fjölskylda Eiginkona Bala er Ágústa Berg, f. 1970, ráðgjafi og hluthafi hjá EY. Dætur þeirra eru Mira, f. 2003, og Maya, f. 2015. Foreldrar Bala: Radha, d. 2011, frumkvöðull sem rak eigið fyrirtæki, og Devaki, húsmóðir. „Faðir minn er fyrirmynd að því sem ég er að gera í dag og er mikill missir að honum. Móðir mín býr í Chennai.“