Vestri leikur í Bestu deild karla í fótbolta á næstu leiktíð eftir að hafa sigrað Aftureldingu, 1:0, í hreinum úrslitaleik um sæti í efstu deild á Laugardalsvelli á laugardaginn.
Spánverjinn Iker Hernández skoraði sigurmarkið á 103. mínútu, en framlengja þurfti þar sem staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma.
Er um áfall fyrir Aftureldingu að ræða, en liðið var með gott forskot á toppi 1. deildarinnar um mitt tímabil en þurfti að sætta sig við annað sæti eftir slakan lokakafla.
Þróun Vestra var öfug. Liðið byrjaði illa en hrökk svo í gang um mitt tímabil og gerði vel í að tryggja sér sæti í umspilinu. Þangað fór liðið fullt sjálfstrausts og toppaði á réttum tíma.
Vestri mun í fyrsta skipti leika í efstu deild á næsta ári en það verður þó ekki í fyrsta skipti sem lið frá Ísafirði leikur í deild þeirra bestu. Það gerði ÍBÍ síðast árið 1983.