Leikaranum Laurence Fox hefur verið vikið úr starfi tímabundið á sjónvarpsstöðinni GB News eftir ósæmileg ummæli um blaðakonuna Övu Evans í samtali við sjónvarpsmanninn Dan Wotton í beinni útsendingu. Wotton hefur einnig verið vikið úr starfi um tíma.
Fox sakaði Evans um að vera öfgafemínisti, hélt því fram að enginn maður með sjálfsvirðingu myndi skríða upp í rúm með henni og sagði: „Hver myndi vilja ríða þessu?“ Wotton hló að ummælum Fox í útsendingunni og sagði Evans „mjög fallega“.
Í frétt The Guardian um málið kemur fram að samtal þeirra Wottons snerist um ummæli Evans um andlega heilsu karla og gagnrýni á hugmyndina um að það þurfi sérstakan ráðherra fyrir karlmenn sem hún hafði látið falla í þættinum BBC Politics Live. Evans hafði sjálf sagt ummæli sín um karlaráðherra fljótfærnisleg en hefur einnig sagst í áfalli yfir því að leyft hefði verið að ummæli Fox um líkama hennar færu í loftið.
Fox hefur beðist afsökunar á ummælunum í fimmtán mínútna löngu myndbandi á samfélagsmiðlinum X en sagði þar einnig að greinilegt væri að Evans líkaði ekki við karla. Wotton hefur einnig beðist afsökunar á viðbrögðum sínum.
Breska fjölmiðlaráðinu Ofcom hafa borist um 7.300 kvartanir eftir uppákomuna á GB News, sem er bresk hliðstæða Fox News í Bandaríkjunum, og hefur verið hvatt til þess að loka sjónvarpsstöðinni.