Umferð Snjallljósavæðingin er ekki komin til framkvæmda þrátt fyrir að vera eitt af forgangsverkefnum samgöngusáttmálans í núverandi mynd.
Umferð Snjallljósavæðingin er ekki komin til framkvæmda þrátt fyrir að vera eitt af forgangsverkefnum samgöngusáttmálans í núverandi mynd. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anton Guðjónsson anton@mbl.is Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að snjallljósavæðing á höfuðborgarsvæðinu þoli enga bið. Hann segir að Reykjavíkurborg standi á móti því að auka flæði almennrar umferðar, þvert á það sem stendur í samgöngusáttmálanum.

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að snjallljósavæðing á höfuðborgarsvæðinu þoli enga bið. Hann segir að Reykjavíkurborg standi á móti því að auka flæði almennrar umferðar, þvert á það sem stendur í samgöngusáttmálanum.

„Ég lagði mikla áherslu á það að þetta væri í forgangi eitt þegar við kláruðum samgönguáætlunina áður en samgöngusáttmálinn var undirritaður þar sem þetta var hagkvæmasta og fljótasta lausnin til þess að koma að einhverjum úrbótum,“ segir Vilhjálmur um snjallljósavæðinguna í samtali við Morgunblaðið.

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hyggst leggja fram tillögu á næsta borgarstjórnarfundi er lýtur að endurskoðun samgöngusáttmálans. Hyggst Marta leggja til að snjallljósastýring verði sett í algeran forgang og tímaramma við endurskoðun sáttmálans. Í tillögunni er lagt upp með að innleidd verði allra nýjasta tækni sem byggist á miðlægu tölvukerfi sem notar innrauðar myndavélar, radar og gervigreind til að greina alla umferð gangandi, hjólandi og akandi.

„Ég er mjög ánægður með tillögu Mörtu þar sem hún er að leggja til að við endurskoðun á sáttmálanum verði þetta áfram í forgangi,“ segir Vilhjálmur. Hann segist jafnframt ætlast til þess að uppfærður samningur verði tekinn fyrir á Alþingi þar sem hann muni fylgja því eftir að umferðarstýringin verði sett í forgang.

„Við þurfum að nota allar leiðir til þess að gera eitthvað í þessum umferðarvandamálum sem eru á höfuðborgarsvæðinu. Það sem snjallljósin gera er að nota nýjustu tækni til þess að greiða eins mikið og mögulegt er úr umferðinni miðað við þá innviði sem við höfum núna, án skipulagsbreytinga og án kostnaðarsamra framkvæmda.“

390 milljónir í ljósastýringu

Samgöngusáttmálinn var undirritaður 26. september 2019 og liggur því beint við að spyrja hvers vegna ekki hafi þegar komið til framkvæmda á snjallljósavæðingunni.

„Ég held að það komi tvennt til. Það hefur verið einhver viss innbyggð tregða í kerfinu, sérstaklega hjá Reykjavíkurborg. Það sést á pólitíkinni þar og á skipulagsframkvæmdum þeirra að þau vilja ekki auka umferðarflæði almennrar umferðar, þau eru á móti því, þó að sáttmálinn kveði á um að það eigi að gera það. Hin ástæðan er að þeir sem sjá um framkvæmd sáttmálans segja að þeir hafi hvergi fengið staðfesta þá miklu umferðarbætingu sem snjallstýringin skilar,“ segir Vilhjálmur. Hann segir að þó að það sé ekki fullkomlega vitað sé fyrirhuguð breyting umhverfisvæn og það sé samfélagslega hagkvæmt að draga úr töfum í umferð.

Vilhjálmur segir að framkvæmdaraðilar sáttmálans segi jafnframt að ekki sé til fjármagn fyrir snjallvæðingunni, þrátt fyrir að 390 milljónir króna hafi verið settar í ljósastýringu.

„Þau hafa nýtt peninginn í umferðarflæðibætandi aðgerðir sem ég hélt að ætti að gerast samhliða uppbyggingu borgarlínu á stofnbrautunum. Þannig að við forgangsröðuðum peningum í þetta en þau hafa kosið að nýta hann algjörlega í annað. Það gengur ekki upp, þetta þolir enga bið.“

Vilhjálmur bindur vonir við að snjallljósavæðingin sé loks í sjónmáli eftir að framkvæmdin er nú að hluta til komin til Vegagerðarinnar.

„Vegagerðin er meiri samræmingaraðili yfir allt höfuðborgarsvæðið og hefur meiri yfirsýn, og er ekki með þetta pólitíska agenda að draga úr umferðarflæði. Ég hef trú á því að þetta sé í augsýn,“ segir Vilhjálmur að lokum.

Höf.: Anton Guðjónsson