Meðalhiti sumarsins 2023 reiknast 9,5 stig sem er örlítið hlýrra en meðallag áranna 1991 til 2020. Þetta kemur fram í umfjöllun Trausta Jónssonar veðurfræðings á bloggsíðu hans þar sem hann fer yfir hitatölur þessa sumars. Tölurnar ná yfir mánuðina júní til september.
„Sérlega hlýtt hefur verið í heiminum síðustu mánuðina, hvert metið rekið annað. Hér á landi er þó flest í hófi – að undanteknum methlýjum júnímánuði um landið norðaustanvert,“ segir í umfjöllun Trausta og nefnir hann að almannarómur virðist vera fremur ánægður með tíðina.
Meðalhitinn er +0,3 stigum hærri en meðaltal 1991-2020 og +0,1 stigi hærri en meðaltal síðustu tíu ára. Á landsvísu var sumarið 2014 það hlýjasta á þessari öld.