Óværa Veggjalýs eru skordýr sem geta orðið allt að 7 mm að stærð.
Óværa Veggjalýs eru skordýr sem geta orðið allt að 7 mm að stærð. — AFP/Stan Honda
Frönsk stjórnvöld boðuðu í síðustu viku að gripið yrði til samræmdra aðgerða til að berjast gegn veggjalúsafaraldri sem brotist hefur út í landinu. Hefur lúsanna meðal annars orðið vart í almenningsfarartækjum, á flugvöllum, kvikmyndahúsum og sjúkrahúsum

Frönsk stjórnvöld boðuðu í síðustu viku að gripið yrði til samræmdra aðgerða til að berjast gegn veggjalúsafaraldri sem brotist hefur út í landinu. Hefur lúsanna meðal annars orðið vart í almenningsfarartækjum, á flugvöllum, kvikmyndahúsum og sjúkrahúsum.

Veggjalús, sem er skortíta af sníkjutítnaætt, er blóðsuga í húsum, heldur sig mikið til í rúmum fólks og sýgur blóð úr því á nóttunni. Lúsin hefur hreiðrað um sig í neðanjarðarlestum í París, háhraðalestum og á Charles-de-Gaulle flugvellinum við borgina, eins og myndskeið, sem almenningur hefur birt á samfélagsmiðlum, vitna um. Þá hafa borist fréttir um veggjalýs á barnaheimilum, skólum, bókasöfnum, skrifstofum og öðrum vinnusvæðum.

Clement Beaune samgönguráðherra sagðist hafa boðað fulltrúa fyrirtækja sem reka almenningssamgöngur á fund í þessari viku til að tilkynna þeim hvaða aðgerða væri hægt að grípa til og hvetja þá til að verja ferðalanga fyrir þessum ófögnuði.

Beaune sagði á samfélagsmiðlinum X að markmiðið væri að vernda og auka traust.

Sækja í sig veðrið

Veggjalýs hurfu að mestu af sjónarsviðinu í Frakklandi um miðja síðustu öld en á síðustu áratugum hafa þær sótt í sig veðrið á ný, einkum vegna vaxandi þéttbýlis og aukinna almenningssamgangna. Franska heilbrigðiseftirlitið hefur birt rannsókn sem bendir til þess að um 11% allra franskra fjölskyldna hafi lent í vandræðum vegna veggjalúsa á síðustu árum og þurft að leita til meindýraeyða til að reyna að útrýma óværunni. Oft þarf að eitra ítrekað fyrir óværunni eða eyða henni með öðrum aðferðum, til dæmis frystingu.

Borgarstjórn Parísar hvatti í síðustu viku ríkisstjórn Emmanuels Macrons forseta til að leggja baráttunni gegn veggjalúsum lið, til dæmis með því að stofna starfshóp sem tæki á vandamálinu.

Skoði rúm og föt

Landlæknisembætti Frakklands hefur ráðlagt fólki að skoða rúm á hótelum þegar það er á ferðalögum og sýna varkárni þegar keypt eru notuð húsgögn eða dýnur. Þá er fólki ráðlagt að skoða föt sín eftir að hafa farið í kvikmyndahús eða notað almenningssamgöngur áður en það fer inn á heimili sín. Ef veggjalúsar verði vart í húsum þurfi tafarlaust að grípa til ráðstafana.

Bit veggjalúsar getur valdið bólgum og útbrotum og jafnvel ofnæmisviðbrögðum, svefnleysi, kvíða og jafnvel þunglyndi. Veggjalýs geta lifað í allt að ár án þess að nærast sem þýðir að þær geta legið í eins konar dvala í skúmaskotum þar til þær komast í snertingu við menn.

Kom til Íslands á 19. öld

Á vef Umhverfisstofnunar segir að veggjalús hafi fylgt manninum frá örófi alda. Hún barst til Íslands með norskum hvalföngurum um 1890 og dreifðist í kjölfarið út um allt land. Hér á landi lifi veggjalús eingöngu í upphituðu þurru húsnæði sem var almennt ekki í boði fyrr en á 19. öld og það kunni að vera ástæðan fyrir því hve seint hún náði bólfestu hér. Með tilkomu nútímaskordýraeyða hafi veggjalús að mestu verið útrýmt um miðja 20. öld bæði hér á landi og annars staðar. Á undanförnum árum hafi orðið vart við fjölgun tilfella af veggjalús í nágrannalöndum okkar og hafi hún stungið sér niður hér á landi í kjölfarið.

Veggjalúsar verður einkum vart á hótelum og gististöðum þar sem ferðamenn eiga leið um eða í vinnubúðum þar sem farandverkafólk heldur til. Veggjalús getur breiðst mjög hratt út með ferðamönnum sem gjarnan gista á mörgum stöðum á skömmum tíma. Hún tekur sér bólfestu í farangri og fötum þeirra og fylgir þeim þannig eftir frá einum stað til annars.
gummi@mbl.is