Halla Janusdóttir fæddist 30. september 1935 á Flateyri við Önundarfjörð. Hún lést 19. september 2023 á hjúkrunarheimilinu Skjóli.

Halla var dóttir hjónanna Magnúsínu Þóroddsdóttur, f. 7.1. 1900, d. 13.12. 1981, og Janusar Þorbjarnasonar, f. 14.8. 1903, d. 25.3. 1980. Systir hennar sammæðra var Þorgerður Halldórsdóttir, f. 15.6. 1928, d. 7.11. 2006. Maki hennar var Sigurður G. Kristjánsson, f. 8.10. 1929, d. 10.1. 2012.

Halla giftist Narfa Hjartarsyni 30.9. 1955. Börn þeirra eru: 1) Guðlaug, f. 1955, dætur hennar eru Lára Sigríður Lýðsdóttir, gift Arinbirni Haukssyni og eiga þau þrjú börn, Hauk Loga, Rakel Birtu og Kolbein Mána, og Halla Birgisdóttir, gift Val Fannari Þórssyni og eiga þau þrjú börn, Þóri Fannar (stjúpsonur Höllu), Snæbjörtu og Erlu; 2) Magnús Jenni, f. 1958, kvæntur Margréti I. Svavarsdóttur og eiga þau tvo syni, Brynjar, kvæntur Aðalheiði Kristínu Jónsdóttur og eiga þau eina dóttur, Rós, og Guðmund Narfa, sambýliskona Guðbjörg Jónsdóttir; 3) Hjörtur, kvæntur Fjólu H. Héðinsdóttur. Með fyrri konu sinni, Gígju Viðarsdóttur, á hann þrjá syni, Daníel Frey, unnusta Anna Kristín Pálsdóttir, Tómas Helga og Jakob Bjarka.

Halla ólst upp á Flateyri fram á 18. ár. Stundaði hún nám í barnaskólanum á Flateyri og Héraðsskólanum á Núpi. 19 ára fer hún til Reykjavíkur til að vinna og fljótlega kynnist hún verðandi eiginmanni sínum. Bjuggu þau fyrst hjá foreldrum Narfa í „trúlofunarherberginu“ í Sörlaskjóli, keyptu fyrstu íbúðina 1956 í Mávahlíð 38, voru þar í fjögur ár, svo á Bollagötu 3 í fimm ár og Blönduhlíð 21 í 53 ár.

Halla var mjög mikið fyrir tónlist, gat sungið og spilað á gítar þótt hún hefði aldrei lært nótur. Ýmis störf vann hún, þó aðallega við afgreiðslustörf í fyrirtækjum þeirra hjóna Sunnutorgi, Sundanesti og Vogakaffi. Einnig var hún mikið fyrir blóm og voru garðarnir þar sem þau bjuggu alltaf með falleg sumarblóm.

Útför Höllu verður frá Háteigskirkju í dag, 2. október 2023, klukkan 13.

Elsku amma mín.

Síðasta ár hefur verið einstaklega erfitt. Það hefur verið erfitt að sjá þig veika, maður verður svo hjálparvana í svona aðstæðum. En ég veit að þú varst hvíldinni fegin, amma mín, og fyrir það er ég þakklát. Að þú sért nú komin á betri stað og að þér líði nú vel eftir erfiða tíma. Minningarnar eru ótalmargar sem ég á af þér enda vorum við mjög nánar og þú varst ekki bara amma mín, þú varst svo miklu meira en það. Afi sagði oftast: „Mamma þín, nei, ég meina amma þín,“ þegar hann talaði um þig við mig og þú sömuleiðis sagðir iðulega: „Pabbi þinn, nei, ég meina afi þinn,“ þegar þú talaðir um afa við mig. Það þótti mér alltaf svo krúttlegt.

Bestu stundir æsku minnar voru margar úr Blönduhlíðinni hjá ykkur afa. Þar var minn griðastaður. Þú varst mikil húsmóðir, varst oft í eldhúsinu að nostra við að baka eða elda. Á jólunum breyttir þú íbúðinni í sannkallað jólaland, allt svo fallega skreytt og það sem þú gast dundað þér við allar jólaskreytingarnar. Á páskunum var það svo allt páskaskrautið, dúkarnir og löberarnir. Þegar fór svo að vora tók garðurinn við. Hann var alltaf í toppstandi hjá ykkur Dísu heitinni. Þar slóguð þið sko ekki feilnótu.

Svo var það Dalbærinn,
elsku amma mín, þar áttum við margar góðar stundir. Það sem mér þótti dásamlegt að vera þar með þér og afa. Sumarið mátti hefjast þegar búið var að standsetja bústaðinn og við gátum byrjað að fara þangað um helgar. Þú safnaðir saman garðálfunum þínum í upphafi sumars og þeir voru settir út í garð á sinn stað ásamt öllum sumarblómunum. Í seinni tíð voru álfarnir svo settir út við hátíðlega athöfn með langömmubörnunum og þá mátti sumarið byrja. Það var sama sagan með Dalbæinn eins og Blönduhlíðina, þið afi hugsuðuð alltaf svo vel um bústaðinn og garðinn í kring og voruð alltaf með einhver verkefni að vinna að.

Þegar ég flutti í risið til ykkar urðum við ennþá nánari, elsku amma mín. Mikið sem mér leið vel í risinu í Blönduhlíðinni, þar var mjög gott að búa, enda átti ég heimsins bestu nágranna sem hugsuðu svo vel um mig. Manstu amma þegar þú bakaðir pönnukökur og ég var heima, þá rann ég á lyktina og kom niður til þín. Við spjölluðum saman og áttum notalega stund á meðan þú bakaðir og bakaðir og á meðan hrúgaði ég í mig sjóðandi heitum pönnsum með sykri, það voru bestu pönnsurnar, pönnsurnar þínar, amma mín.

Þú varst alltaf svo hlý, ljúf og góð, elsku amma, þolinmæðin var takmarkalaus og alltaf var stutt í gleðina og hláturinn. Það sem við gátum hlegið saman, ég, þú, mamma og Lára. Þá var oft setið í eldhúsinu í Blönduhlíðinni og borðað og spjallað og það var alltaf stutt í grínið hjá þér og sögurnar sem þú hafðir svo gaman af að segja. Það var alltaf gaman að hlusta á þig segja þær, oft sögur úr sveitinni frá því þú varst ung og svo hlóstu svo innilega á meðan þú sagðir okkur sögurnar.

Elsku amma mín. Takk fyrir allt, takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig og takk fyrir allar góðu stundirnar. Þar til við sjáumst næst, ég elska þig.

Þín

Halla.