Gleði var ráðandi fólks á meðal í Laufskálarétt í Hjaltadal í Skagafirði nú á laugardag. Þótt sólar nyti ekki nema í morgunsárið var veður hið besta þegar hrossastóðið var rekið af fjalli úr Kolbeinsdal fram í réttina við Laufskála, skammt utan við Hólastað.
Talið er að 350-400 manns hafi riðið með stóðinu til réttar en því fylgir jafnan mikil stemning. Sundurdráttur hrossanna gekk vel og réttarstörfum lauk um klukkan 16. Hélt fólk þá hvert í sína áttina en hefð er fyrir því að Skagfirðingar geri sér margvíslegan dagamun af þessu tilefni.
„Uppistaðan í stóðinu hverju sinni er hryssur og tryppi. Réttunum fylgja oft einhver viðskipti með hesta. Annars má segja að túrisminn sé að taka réttirnar yfir og áhugi fólks á því að taka þátt er mikill,“ segir Bergur Gunnarsson á Narfastöðum sem var réttarstjóri. sbs@mbl.is