Hrikalegt „Fyrir einskæra tilviljun gekk ég í rétta átt en ef ég hefði gengið í gagnstæða átt hefði ég ekki lifað það af. Þeir kalla þetta hvíta dauða.“
Hrikalegt „Fyrir einskæra tilviljun gekk ég í rétta átt en ef ég hefði gengið í gagnstæða átt hefði ég ekki lifað það af. Þeir kalla þetta hvíta dauða.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Franski heimildarmyndaleikstjórinn Luc Jacquet er einn af heiðursgestum RIFF í ár og jafnframt handhafi Græna lundans, umhverfisverðlauna hátíðarinnar. Í umsögn með verðlaununum segir að með „einbeittum vilja og brennandi ástríðu fyrir undrum…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Franski heimildarmyndaleikstjórinn Luc Jacquet er einn af heiðursgestum RIFF í ár og jafnframt handhafi Græna lundans, umhverfisverðlauna hátíðarinnar. Í umsögn með verðlaununum segir að með „einbeittum vilja og brennandi ástríðu fyrir undrum jarðar fara myndir Jacquets með áhorfendur í stórkostlegt ferðalag til villtustu vistkerfa plánetunnar.“ Er þar engu logið.

Jacquet er hingað kominn sunnan úr frönsku Ölpunum þar sem hann býr og starfar. Hann er fæddur árið 1967 og er menntaður vistfræðingur en ferill hans í kvikmyndabransanum hófst árið 1993 þegar hann aðeins 26 ára var ráðinn sem tökumaður fyrir kvikmynd Hans-Ulrich Schlumpf, Der Kongress der Pinguine. Tólf árum síðar skaut Jacquet svo upp á stjörnuhimininn þegar hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir sína eigin mörgæsamynd, kvikmyndina La marche de l'empereur (Ferðalag keisaramörgæsanna, 2005).

Jacquet segir að það hafi óneitanlega verið ánægjulegt að fá Óskarsverðlaunin árið 2006 og það fyrir fyrstu kvikmynd hans í fullri lengd. Það hafi vakið athygli á honum sem leikstjóra og að einhverju leyti á málstaðnum sem hann berst fyrir (meira um það síðar) en það hafi samt komið honum á óvart hversu lítið það hjálpaði honum að finna fjármagn fyrir næstu verkefni.

Það hefur samt ekki gengið afleitlega ef marka má þann fjölda mynda og verkefna sem á eftir komu. Eftir La marche de l'empereur kom út Le renard et l'enfant (Refurinn og barnið, 2007) sem gekk að hans sögn ívið betur í Evrópu og þar á eftir komu tvær myndir um vistfræðileg efni, Il était une forêt (2013) og La glace et le ciel (2015) sem báðar hlutu lof gagnrýnenda. Árið 2017 kom út framhald á La marche de l'empereur, sem hét einfaldlega L'empereur og nú er það kvikmyndin Continent Magnétique eða Antarctica Calling eins hún er auglýst í dagskrárbæklingi RIFF – ljóðræn og seigfljótandi kvikmynd í svarthvítu um ferðalag hans frá Patagóníu í Suður-Ameríku yfir Íshafið til Suðurskautslandsins.

Af hverju kaustu að skjóta myndina á svarthvíta filmu?

„Af hverju ekki?“ spyr hann á móti með sterkum frönskum hreim og ég heyri á röddinni að hann er ekki sérlega sáttur við spurninguna. Þetta byrjar ekki vel.

„Gott og vel,“ segi ég og ætla í næstu spurningu en þá grípur hann fram í. „Ég ákvað að hafa hana í svarthvítu því ég vildi ekki gera enn eina náttúrulífsmyndina eða heimildarmynd um náttúrufyrirbæri sem á endanum bara friðar samvisku áhorfandans. Þessi mynd er persónuleg ferðasaga og hún fjallar um andstæður innra með mér og ytra. Hér erum við að tala um hvaða tungumál kvikmyndamiðilsins ég ákvað að nota og í þessari mynd er tungumálið svarthvítt.“

Tölum þá um tungumál og frásagnarmáta. Heimildarmyndir eru auðvitað aldrei fullkomlega hlutlægar en þær reyna þó að lágmarka huglægan frásagnarstíl – í það minnsta er það markmið þeirra. Í þessari mynd er hinu hlutlæga nánast algjörlega ýtt út úr rammanum. Ertu sammála því?

„Það er rétt. Mér finnst mjög mikilvægt að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir mínu sjónarhorni en ekki hlutlæga framsetningu á því sem kvikmyndavélin fangar. Í sjálfu sér er ég að miðla minni persónulegu upplifun af því að vera staddur á þessum stað og ég vil að þú upplifir þær tilfinningar sem bærast innra með mér á ferðalaginu.“

Ég fann fyrir djúpri melankólíu á köflum. Eru það tilfinningar sem þú bjóst við eða vonaðir að áhorfandinn fyndi fyrir?

„Já,“ segir hann og svo tekur við löng þögn. „Ég er að eldast og mér líður stundum eins og flestar tilraunir mínar til að vekja athygli á því að við þurfum að huga að og vernda náttúruna hafi fallið fyrir daufum eyrum. Mér líður eins og mér hafi mistekist og þessi tilfinning kemur að ég held skýrt fram í þessari kvikmynd. Ég finn fyrir melankólíu þegar ég sé ísjakana bráðna og dýralífið hverfa.“

Hvað er það við Suðurskautslandið sem heillar þig og dregur þig þangað aftur og aftur? Í myndinni talarðu um heimskauta-bit (e. Antartctic Bite). Geturðu útskýrt það?

„Já, það er verulega áhugavert fyrirbæri. Þegar maður les ferðasögur og dagbækur heimskautafara, manna eins og Ernest Shakleton, þá nota þeir margir þetta orð eða svipuð hugtök til að lýsa þessu aðdráttarafli. Að ferðast til Suðurskautslandsins er erfitt, sársaukafullt og stórhættulegt en þrátt fyrir það finna allir sem þangað hafa farið fyrir ólæknandi þörf til að snúa aftur. Ég get ekki útskýrt hvað þetta er nákvæmlega en þessi kvikmynd er tilraun til útskýringar.“

Hefurðu sjálfur verið í lífshættu á ferðum þínum til Suðurskautsins?

„Svo sannarlega. Síðast lenti ég í snjóbyl og villtist af leið. Sem betur fer, og fyrir einskæra tilviljun, gekk ég í rétta átt en ef ég hefði gengið í gagnstæða átt hefði ég ekki lifað það af. Þeir kalla þetta hvíta dauða.“

Höf.: Höskuldur Ólafsson